Félagasamtök snerta með einum eða öðrum hætti líf flestra í landinu –annað hvort í gegnum beina þátttöku eða með því að njóta góðs af starfi þeirra. Félagasamtök hafa tekið tekið að sér mikilvæg hlutverk í þjónustu við almenning og sérstaklega ákveðna þjóðfélagshópa. Þau glíma ekki síður við að leysa ný samfélagsleg vandamál; þau eru í sjálfu sér farvegur fyrir hugðarefni, drauma og brennandi málefni fólks; þau virkja samstöðu og leiða fram skapandi lausnir á afmörkuðum og víðtækum málum.
Á tímum óveðurs og veirufaraldurs kann að vera óþarfi að minna á gildi frjálsra félagasamtaka við að bregðast við óvæntum atburðum, bjarga fólki og verðmætum, styðja við hópa fólks og verja réttindi þess. Þau eru gjarnan til staðar þegar eitthvað bjátar á. En þau gegna ekki síður hlutverki við að efla andlegt líf í landinu, gera það innihaldsríkara og þróttmeira. Elsta starfandi félag á Íslandi mun vera Hið íslenska bókmenntafélag en tónlistarfélög, ungmennafélög, ferðafélög og umhverfisverndarsamtök hafa í gegnum tíðina menntað og auðgað líf landsmanna, langt út fyrir raðir félagsmanna sinna.
Af þessum og fleiri ástæðum hafa frjáls félagasamtök notið velvilja og stuðnings opinberra yfirvalda, atvinnulífs og almennings í landinu. Opinber yfirvöld hafa með hliðsjón af samfélagslegu hlutverki frjálsa félagasamtaka viðurkennt stöðu og starf þeirra með ýmsum skattalegum ívilnunum og hvatningum.
Nýlega fengu félagasamtök sem uppfylla ákveðin skilyrði og vinna að almannaheillum í skilningi skattalaga, verulega aukin skattaleg réttindi. Þau þurfa t.a.m. ekki lengur að greiða fjármagnstekjuskatt eða stimpilgjöld. Einnig var ákveðið að einstaklingar og fyrirtæki sem styðja viðurkennd samtök geti notið skattalegs afsláttar á móti styrkjum sínum til almannaheillasamtaka. Þessi lagabreyting tók gildi 1. nóvember sl. en fyrir síðustu áramót voru 216 samtök skráð á almannaheillaskrá Skattsins—fróðlegt verður að sjá hversu margir einstaklingar njóta skattalegra ívilnanan vegna þessarar breytingar.
Þrátt fyrir aukna áherslu á faglega menntun innan félagsamtaka er sjálfboðavinna enn helsti drifkraftur innan þeirra raða. Það eru sjálfboðaliðar sem sitja í stjórnum og nefndum og vinna oft á tíðum almenn störf samtakanna. Ekki liggja fyrir opinberar tölur um umfang sjálfboðastarfs í landinu, en rannsóknir hafa sýnt að hátt í heimingur landsmanna tekur þátt í sjálfboðnu starfi íþróttafélaga og nokkru færri í starfi velferðarfélaga.
Skortur er á opinberum tölum um efnahagsleg umsvif frjálsra félagasamtaka á Íslandi. Það væri t.d. eðlilegt að metin yrði að fullu hlutdeild þeirra í landsframleiðslu, eins og gert er með aðrar atvinnugreinar. Hagstofa Íslands hefur aðeins metið þau að hluta til. Er hér með skorað á Hagstofuna að ljúka því verki hið fyrsta.
Frjáls félagasamtök hafa í gegnum tíðina lyft grettistökum í íslensku samfélagi. Þau hafa rutt brautina í menningarmálum, velferðarmálum, umhverfismálum, réttindamálum og fræðslumálum, svo eitthvað sé nefnt. Þau skipta áfram sköpum fyrir þróun samfélagsins og líf fólks í landinu.
Höfundur er formaður Almannaheilla, samtaka þriðja geirans.