Átökin í Úkraínu halda áfram. Í gær var barist í útjaðri Kænugarðs og var í fréttaskeytum talað um að tugir manna hefðu fallið. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, bætti í þegar hann skoraði á úkraínska herinn að taka völdin í sínar hendur og sagði að í stjórn Úkraínu sætu „hryðjuverkamenn“ og „gengi eiturlyfjafíkla og nýnasista“. Bættust þar fíklarnir við þá furðulegu merkimiða, sem forsetinn hefur hengt á stjórn Úkraínu.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði hins vegar að rússnesk stjórnvöld væru reiðubúin til viðræðna, en aðeins ef Úkraínuher legði niður vopn. Bætti hann við að „enginn [hefði] í huga að hernema Úkraínu“.
Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði í gær að „nýtt járntjald“ væri komið milli Rússlands og umheimsins. Hann sagði einnig að Úkraína hefði verið skilin ein eftir. „Hver vill koma og berjast við hlið okkar?“ spurði hann. „Ég sé engan.“
Engin leið er að átta sig á því hversu langt Pútín hyggst ganga. Það er ekki einu sinni víst að allir hans helstu samstarfsmenn viti hvað hann hefur í hyggju. Leiða má að því getum að markmið hans sé að knýja fram stjórnarskipti með einhverjum hætti í Úkraínu. Hann hefur sagt að þegar hann „viðurkenndi“ sjálfstæði Donetsk og Luhansk hafi það náð til héraðanna allra, ekki aðeins þess hluta, sem aðskilnaðarsinnar hafa haft á sínu valdi með stuðningi Rússa. Það virðist hæpið að hann ætli að hernema landið allt af þeirri einföldu ástæðu að það gæti kallað á langvinn átök við úkraínska andspyrnuhópa.
Rússar hafa í valdatíð Pútíns jafnt og þétt fært út kvíarnar. Pútín er mjög í mun að halda aftur af Atlantshafsbandalaginu og tryggja Rússlandi sem stærst áhrifasvæði.
Pútín lét til skarar skríða þegar Georgía sýndi tilburði til að halla sér til vesturs og blés til orrustu og lýsti yfir stuðningi við héruðin Abkasíu og Suður-Ossetíu.
Pútín gekk fram af mikilli hörku til að kveða niður sjálfstæðissinna í Téténíu og var höfuðborgin Grosní nánast jöfnuð við jörðu. Stríðsfréttaritarar sem höfðu verið í Bosníu sögðu að stríðið í Téténíu hefði verið mun grimmilegra.
Rússar sendu inn her sinn til þess að halda Bashar Assad við völd í Sýrlandi. Meginástæðan var að þeir vildu verja hagsmuni sína þar. Rússar hafi lengi haft flotastöð í Sýrlandi og henni vildu þeir halda til að eiga vísan aðgang að Miðjarðarhafi. Þetta kann að hljóma eins og úrelt hernaðarfræði, en Rússar hafa allt frá keisaratímanum lagt lykiláherslu á aðgang að hafi.
Í nokkrum löndum í Vestur-Afríku, þar á meðal Malí og Mið-Afríkulýðveldinu, hafa málaliðar á vegum rússnesks öryggisfyrirtækis, sem nefnist Wagner, leikið lausum hala. Í fréttaskeyti frá AFP er haft eftir vestrænum embættismönnum í Malí að mánuðum saman hafi þeir séð rússneskar flutningavélar koma með málaliða og vopn til Malí. Mikil leynd hefur hvílt yfir Wagner, en talið er að auðkýfingurinn Jevgení Prígosín hafi stofnað málaliðafyrirtækið. Hann hefur verið kallaður kokkur Pútíns því að fyrirtæki hans sá eitt sinn um veitingaþjónustu fyrir Kreml.
Pútín hefur neitað öllum tengslum við Wagner, en það hefur ekki orðið til að draga úr grunsemdum á Vesturlöndum um að fyrirtækið sé einhvers konar Trójuhestur sem eigi að hjálpa Rússum að ná ítökum í Afríku.
Ofan á þessi umsvif Rússa bætist síðan upplýsingastríð þeirra og nethernaður, sem á sér ýmsar birtingarmyndir og getur valdið marvíslegum usla og glundroða. Þar liggur hin beina tenging ekki alltaf ljós fyrir þótt full ástæða sé til grunsemda.
Hvað sem líður öllum réttlætingum Pútíns og tilraunum til að sækja réttlætingu í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um rétt þjóða til að verjast er innrásin í Úkraínu algerlega á ábyrgð Rússa. Pútín hefur markvisst ögrað og aukið spennuna þar til hann lét til skarar skríða og ber alfarið ábyrgð á því að á ný geisar stríð í Evrópu.