Athafnamaður Jón Helgi Guðmundsson við sögunarmyllu Norwood í borginni Syktyvkar í Rússlandi. Morgunblaðið heimsótti mylluna sumarið 2018.
Athafnamaður Jón Helgi Guðmundsson við sögunarmyllu Norwood í borginni Syktyvkar í Rússlandi. Morgunblaðið heimsótti mylluna sumarið 2018. — Morgunblaðið/Baldur
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Jón Helgi Guðmundsson, stjórnarformaður Norvik, segir hafa farið að þrengja að flutningum með járnbrautarlestum í Rússlandi áður en spennan tók að stigmagnast vegna framvindu mála í Úkraínu.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Jón Helgi Guðmundsson, stjórnarformaður Norvik, segir hafa farið að þrengja að flutningum með járnbrautarlestum í Rússlandi áður en spennan tók að stigmagnast vegna framvindu mála í Úkraínu.

„Við höfum í alllangan tíma átt erfitt með fá járnbrautarvagna frá Rússlandi suður til Lettlands fyrir timbur því þeir hafa verið uppteknir annars staðar,“ segir Jón Helgi um aðgengi rússneskra dótturfélaga Norvik, Norwood SM og Komiles business, að járnbrautarlestum.

Timbur frá nokkrum löndum

Norvik er hluthafi í sænska timburfyrirtækinu Bergs Timber og flytur timbur frá sögunarmyllu sinni í rússnesku borginni Syktyvkar til vinnslu í Lettlandi. Þá kaupir Norvik timbur frá Hvíta-Rússlandi og Úkraínu sem unnið er í Lettlandi.

Spurður hvort efnahagsaðgerðir Vesturlanda hafi haft áhrif á umsvif Norvik í Rússlandi segir Jón Helgi að óvissan um þær sé mikil. Því sé ótímabært að ræða um áhrif aðgerðanna á reksturinn í Rússlandi. En harðar aðgerðir eru boðaðar.

Spurður hvaða áhrif það hefði á starfsemina í Rússlandi ef lokað yrði fyrir aðgang Rússa að SWIFT-millibankakerfinu segir Jón Helgi ljóst að slíkt hefði mikil áhrif á fyrirtæki sem eru í útflutningi frá Rússlandi.

Gengi bréfa í Bergs Timber hækkaði mikið í kórónuveirufaraldrinum. Fór úr 1,845 hinn 4. apríl 2020 í 6,4 hinn 11. maí 2021. Það var skráð 4,8 í gær en að sögn Jóns Helga hefur timburverð hækkað frá áramótum.

Ólíkt ýmsum hrávörum

Varðandi áhrif stríðsins í Úkraínu á timburverðið segir hann timbur hafa aðra stöðu á markaði en ýmsar grundvallarhrávörur, á borð við stál og olíu, og því séu áhrifin minni. Það geti haft meiri áhrif ef aðfangakeðjur raskast, ekki síst á umsvifin í Lettlandi.