Í dag, 26. febrúar, fer fram 76. ársþing Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ. Að þessu sinni verður ársþingið haldið í íþróttamiðstöðinni á Ásvöllum í Hafnarfirði.

Í dag, 26. febrúar, fer fram 76. ársþing Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ. Að þessu sinni verður ársþingið haldið í íþróttamiðstöðinni á Ásvöllum í Hafnarfirði. Vanda Sigurgeirsdóttir var sjálfkjörin formaður KSÍ til bráðabirgða á aukaþingi sambandsins 2. október á síðasta ári og freistar þess að ná endurkjöri á ársþinginu nú, þar sem hún mun fara fram gegn Sævari Péturssyni, framkvæmdastjóra KA.

Á ársþinginu verður einnig kosið í stjórn KSÍ. Átta manns skipa stjórnina en að þessu sinni bjóða tólf manns sig fram til stjórnarsetu. Sjö af þeim átta sem sitja nú í stjórninni bjóða sig fram að nýju. Þetta eru þau Ásgrímur Einarsson, Borghildur Sigurðardóttir, Guðlaug Sigurðardóttir, Helga Helgadóttir, Sigfús Kárason, Unnar Sigurðsson og Valgeir Sigurðsson. Auk þeirra bjóða þeir Ívar Ingimarsson, Jón Pálmason, Lárus Sigurðsson, Pálmi Haraldsson og Torfi Halldórsson sig fram að þessu sinni.

Einnig verða varamenn stjórnar kosnir. Þeir eru þrír talsins og eru nákvæmlega þrír í framboði.