Flugmenn réðu ekki við neitt þegar villumelding tók af þeim öll völd.
Flugmenn réðu ekki við neitt þegar villumelding tók af þeim öll völd. — Ljósmynd/Netflix
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Flugslysum Boeing 737 MAX-véla hefði mátt afstýra. Heimildarmynd varpar ljósi á harmleikinn. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Það eru alveg til betri hugmyndir en að horfa á mynd um flugslys um borð í flugvél. Það gerði undirrituð í vikunni þegar flogið var frá Barcelona til Keflavíkur í mikilli ókyrrð og svo miklum mótvindi að flugið lengdist um einn og hálfan tíma. Þar sem ég sat þarna klesst úti í horni, nánar tiltekið í gluggasæti, reyndi ég að stytta mér stundirnar í hristingnum við að horfa á Netflix-þætti sem ég hafði áður hlaðið niður. Einn þeirra var heimildarmyndin Downfall: The case against Boeing, stórmerkileg mynd um Boeing MAX-vélarnar og hvað olli tveimur flugslysum með aðeins fimm mánaða millibili. Vélarnar voru báðar glænýjar en í slysunum fórust alls 346 manns.

Fyrra slysið varð 29. október, 2018 en þá fórst flug 610 hjá Lion Air stuttu eftir flugtak frá Jakarta í Indónesíu. Vélin steyptist í sjóinn og með henni 189 manns. Fljótlega fór að bera á efasemdum um flugöryggi flugfélagsins og hæfni flugmannanna hjá þessu indónesíska lágfjargjaldaflugfélagi. Fáum datt í hug að skella skuldinni á hina glænýju Boeing 737 MAX. Boeing var jú virt fyrirtæki með óflekkað „mannorð“ og þekkt fyrir að setja öryggið á oddinn. Nokkuð sem skiptir okkur öll máli sem fljúgum!

Fimm mánuðum síðar, 10. mars árið 2019, féll önnur Max-vél til jarðar, nú í Eþíópíu. Í því slysi fórust 157 sálir. Nú fóru að renna tvær grímur á fólk og ljóst var að þetta gat ekki verið tilviljunin ein. Boeing MAx-vélar voru nú kyrrsettar þar til rannsókn yrði lokið, en efasemdarmenn höfðu strax farið fram á kyrrsetningu vélanna eftir fyrra slysið. Boeing-fyrirtækið hélt því statt og stöðugt fram að ekkert væri að vélunum, en annað átti eftir að koma á daginn. Er það rakið í heimildamyndinni en þar er einnig rætt við fjölskyldur fórnarlamba slysanna; eiginkonu flugmanns fyrri vélarinnar og föður ungrar konu sem lést í seinna slysinu.

Það kom svo í ljós að ástæða slysanna var gölluð hönnun nýs kerfis sem kallast MCAS. Í stuttu máli átti kerfið að koma í veg fyrir ofris með því að beina nefi vélarinnar niður ef slík hætta virtist steðja að. Var þá í raun valdið tekið af flugmanninum; vélin rétti sig af ef hætta var fyrir hendi. Það sem gerist í þessum tveimur tilvikum var að það kom villumelding og vélin steypti sér niður þótt engin hætta hafi verið á ofrisi. Flugmenn beggja véla reyndu í ofboði að rífa vélina upp, án árangurs. Þeir höfðu ekki fengið neina þjálfun í að bregðast við í slíkum aðstæðum því fyrirtækið tímdi ekki að senda alla flugmenn í þjálfun eftir að nýju MAX-vélarnar fóru á markað. Í tilvikum þar sem kerfið sendi slíkar falsmeldingar höfðu flugmennirnir tíu sekúndur til að bregðast við og slökkva á kerfinu. Tíu sekúndur til að slökkva á kerfi sem þeir vissu varla að væri til staðar, hvað þá að þeir kynnu á það.

Því fór sem fór; græðgi stórfyrirtækis sem spara vildi þjálfunarkostnað flugmanna kostaði 346 manns lífið; konur, menn og börn.

Blaðamaður var afar feginn að lenda í Keflavík þrátt fyrir aftakaveður, slyddu og hífandi rok. Sólin á Spáni varð fljótt fjarlæg minning en heimildarmyndin sat í mér. Mæli algjörlega með að horfa. En kannski betra að gera það á jörðu niðri.