Vladimír Pútín, forseti Rússlands, lýsti yfir stríði á hendur Úkraínu með miklum reiðilestri þar sem hann hellti sér yfir Bandaríkin og bandamenn þeirra. Í hans huga fara Vesturlönd sínu fram í skjóli hástemmdra hugsjóna, sem séu fyrirsláttur einn, og því séu honum engar hömlur settar. Karl Blöndal kbl@mbl.is
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, lýsti yfir því að hann hefði hafið stríð í Evrópu í langri sjónvarpsræðu, sem hófst þegar klukkuna vantaði tuttugu mínútur í sex að Moskvutíma að morgni fimmtudagsins. Hann notaði reyndar orðin „sérstök hernaðaraðgerð“. Í ræðunni beindi hann orðum sínum sérstaklega að Vesturlöndum, ásælni Bandaríkjamanna og ágengni Atlantshafsbandalagsins og sagði leppstjórn við stjórnvölinn í Úkraínu. Markmiðið væri að afvopna og afnasistavæða landið.
Ávarpið stóð í 25 mínútur og virðist hafa verið tekið upp á mánudag um leið og hann hélt klukkustundar ræðu sína um Úkraínu þar sem hann „viðurkenndi“ sjálfstæði héraðanna Luhansk og Donetsk frá Úkraínu. Pútín er klæddur sömu fötum og þá og lýsigögn upptökunnar bera því einnig vitni að upptakan sé síðan á mánudag.
Pútín veitist í ræðunni að Bandaríkjunum og vestrinu, sem hafi valdið glundroða í Júgóslavíu, Líbíu, Sýrlandi og Írak og séu „heimsveldi lyginnar“. Þar að auki reyni vestrið að þvinga upp á Rússa framandi gildi, sem leiði til hruns og að deyja út því að þau séu í mótsögn við náttúru mannsins. Engu að síður hafi Rússar í desember í fyrra reynt að ganga til samninga um tryggingu í öryggismálum og að binda enda á stækkun Atlantshafbandalagsins, en það hafi engan árangur borið.
Staðreyndin sé sú að hernaðarlega sé NATO að sölsa Úkraínu undir sig og búa til „fjandsamlegt and-Rússland“. Fyrir Bandaríkjunum vaki að halda Rússlandi í skefjum og tryggja sér forskot. „Fyrir okkar land er þetta hins vegar spurning um líf og dauða, spurning um sögulega framtíð okkar sem þjóðar,“ sagði Pútín.
Í ræðunni talaði Pútín um að þjóðarmorð blasti við íbúum Donbass. Þjóðernissinnar og nýnasistar hefðu tekið völdin í Kænugarði og fyrr eða síðar myndu þeir ráðast á Krímskaga, sem Rússar innlimuðu árið 2014. Þess vegna hefðu Rússar ákveðið að nýta sér „órjúfanlegan rétt ríkis til sjálfsvarnar“, sem kveðið er á um í 51. grein sáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Og hversu langt ætlar Pútín að ganga? Hann talaði í ræðunni um að afvopna Úkraínu og uppræta nasisma. Hann ætli að draga þá sem framið hafi fjölda blóðugra glæpa gegn friðsömum borgurum, þar á meðal rússneskum, fyrir dóm. Þá vill hann halda þjóðaratkvæði í öllum héruðum landsins um hvort þau vilji tilheyra úkraínska ríkinu.
Um leið skoraði hann á úkraínska hermenn að gefast upp: „Þið hétuð úkraínsku þjóðinni tryggð, ekki þjóðarfjandsamlegu klíkustjórninni, sem rænir landið og hæðist að eigin þjóð.“
Svo varaði hann Vesturlönd við að blanda sér í átökin og sagði að það myndi „hafa afleiðingar fyrir ykkur sem ekkert ykkar hefur staðið frammi fyrir í allri ykkar sögu. Við erum við öllu búin. Nauðsynlegar ákvarðanir hafa þegar verið teknar.“ Ekki að furða að þetta hafi verið túlkað sem hótun um að beita kjarnorkuvopnum skærust vestræn ríki í leikinn.
Nútímalegt lýðræðisríki?
Málflutningur Pútíns hefur tekið miklum breytingum frá því að hann fyrst komst til valda árið 2000. Þegar hann var settur í embætti í fyrsta skipti sagði hann að dagurinn væri sögulegur því að í fyrsta skipti í sögu Rússlands hefðu orðið valdaskipti með lýðræðislegum hætti. Vilji fólksins hefði fengið að ráða. „Við höfum sannað að Rússland er að verða nútímalegt lýðræðisríki,“ sagði hann.Óður Pútíns til lýðræðisins var ef til vill orðum aukinn, en valdaskiptin höfðu þó farið friðsamlega fram. Pútín var arftaki Boris Jeltsíns, sem hafði fangað hugi Rússa fyrir framgögnu sína þegar þegar Sovétríkin voru að líða undir lok. 1999 hafði hins vegar fjarað undan Jeltsín, efnahagur landsins var í voða og margir hans bandamenn höfðu snúið við honum baki.
Eftir var fámennur hópur, sem leitaði logandi ljósi að viðunandi eftirmanni. Einn þeirra var Boris Beresovskí, sem hafði auðgast verulega við fall Sovétríkjanna. Hann hélt því fram að hann hefði tekið Pútín undir sinn verndarvæng eftir að hann þurfti að eiga við hann samskipti í Pétursborg árið 1990 þegar borgin hét enn Leníngrad. Pútín var þá aðstoðarmaður Anatolís Sobsjaks, sem þá var í borgarráði og átti síðar eftir að verða borgarstjóri í borginni. Beresovskí leitaði til hans vegna þess að hann vildi færa út kvíarnar í bílaviðskiptum í borginni. Pútín hjálpaði honum og þegar viðskiptunum lauk neitaði hann að taka við mútum. Beresovskí hafði aldrei orðið fyrir því áður að rússneskur embættismaður neitaði að þiggja mútur.
Beresovskí kvaðst hafa verið fyrstur til að nefna nafn Pútíns, sem þá var orðinn yfirmaður rússnesku leyniþjónustunnar. Jeltsín féllst á þetta og gerði Pútín að forsætisráðherra. Undir lok árs 1999 kviknaði sú hugmynd að Jeltsín sæti ekki út kjörtímabilið, heldur segði af sér og gerði Pútín að forseta í sinn stað. Það myndi óneitanlega styrkja stöðu hans fyrir kosningarnar um vorið. Um áramótin ávarpaði Jeltsín þjóðina, sagði að engin ástæða væri fyrir sig að sitja sex mánuði til viðbótar þegar til staðar væri öflugur maður, sem ætti skilið að verða forseti. Síðan baðst hann afsökunar á að hafa ekki staðið undir vonum fólks um betri framtíð, margar andvökunætur hefði hann spurt sig hvað hann gæti gert til að gera lífið aðeins örlítið betra og gert allt sem hann gæti til þess.
Á miðnætti birtist svo Pútín og bað fólk að skála fyrir nýrri öld Rússlands. Þegar Sovétríkin hrundu hafði Pútín verið við störf hjá KGB, sovésku leyniþjónustunni, í Austur-Þýskalandi. Óvissan blasti þá við. Nú var KGB-maðurinn orðinn forseti Rússlands.
Pútín varð strax vinsæll og kosningabaráttan reyndist létt.
Pútín reyndist hins vegar ekki jafn leiðitamur og auðsveipur og Beresovskí og samherjar hans, sem höfðu handvalið hann á erfiðum tímum til að gæta sinna hagsmuna, komust brátt að því að þeir höfðu misreiknað sig. Beresovskí endaði sem landflótta maður og andstæðingur Pútíns. 2013 fannst hann látinn í íbúð sinni í Bretlandi. Í fréttum af andlátinu kom fram að gerð hefðu verið nokkur tilræði við Beresovskí, en lögregla segði að allt benti til að hann hefði hengt sig.
Framan af tileinkaði Pútín sér tungutak lýðræðis og umbóta þótt stjórnarhættirnir bæru því ekki vitni að hugur fylgdi máli. Það var líkt og hann væri í einhvers konar lýðræðishermi. Einn aðstoðarmaður Pútíns orðaði það þannig að þær pólitísku stofnanir sem teknar hefðu verið upp að hætti vestrænna ríkja væru eins og sunnudagsföt, sem menn klæddust þegar kæmu gestir, en færu ekki í heima hjá sér.
Á Vesturlöndum var litið á hrun múrsins og endalok kalda stríðsins sem sigur fyrir alla. Oki alræðisins hafði verið hrundið og við blasti frelsið. Um Pútín gegndi öðru máli. Í huga hans var hrun Sovétríkjanna niðurlæging og ósigur, sem vestrið hafði fylgt eftir með því að þrengja að Rússum.
Þrumuræðan í München
Þáttaskil urðu á öryggisráðstefnunni í München árið 2007. Pútín ávarpaði salinn og við borð í fremstu röð fyrir framan púltið sátu hlið við hlið Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Robert Gates, yfir maður CIA, og John McCain, öldungadeildarþingmaður á Bandaríkjaþingi og fyrrverandi forsetaframbjóðandi. Á einum stað er þeim lýst þannig að Merkel hafi verið um og ó, Gates hinn vandræðalegasti og McCain eins og þrumuský.Í ræðunni réðist Pútín að fyrirkomulagi heimsmála undir forustu Bandaríkjanna. Stækkun NATO til austurs hefði verið svik við loforð um að bandalagið myndi aldrei þrengja að Rússlandi. Bandaríkin sakaði hann um að skapa ójafnvægi í heiminum og sýna alþjóðalögum skýlausa fyrirlitningu. Óheft ofurnotkun Bandaríkjamanna á valdi, hervaldi, í alþjóðasamskiptum hefði „steypt heiminum í hyldýpi viðvarandi átaka“.
Pútín hélt því fram að ósigur Moskvu 1989 til 1991 hefði verið dulbúin blessun, harmleikur, sem hefði undirbúið land sitt undir gimmilega samkeppni og fullkomið siðleysi komandi tíma í heiminum.
Ivan Krastev og Stephen Holmes skrifa í bókinni The Light That Failed að ræða Pútíns í München 2007 hafi markað tímamót vegna þess að þar þvingaði hann sjálfumglaða sigurvegara kalda stríðsins til að hlusta loksins á þá sem biðu lægri hlut í kalda stríðinu. Í München hefðu Rússar hætt að þykjast aðhyllast þá sögutúlkun að lok kalda stríðsins hefðu markað sameiginlegan sigur rússnesku þjóðarinnar og vestrænna lýðræðisríkja á kommúnismanum. Um leið hefði Pútín tilkynnt í München að Rússar ætluðu ekki að hegða sér eins og Vestur-Þjóðverjar eftir 1945, iðrast synda sinna og grátbiðja um að vera hleypt inn í vestræna klúbbinn þar sem mætti kenna þeim rétta hegðun.
Eftir þessa ræðu hefur hinn harði tónn í garð Vesturlanda aðeins ágerst. Eitt af markmiðum Pútíns er að sýna fram á að holur hljómur sé í öllu því, sem Bandaríkin og bandamenn þeirra gera, sama í hvaða búning það sé sett. Hann geti farið sínu fram vegna þess að Vesturlönd geri það. Hann geti notað spuna, horft fram hjá staðreyndum og hagrætt sannleikanum vegna þess að vestrið geri það. Með málflutningi sínum sé hann að reka spegil framan í trýnið á Vesturlöndum.
Þegar vestrið viðurkenndi sjálfstæði Kosovo 2008, árið eftir ræðuna í München, sagði Pútín að sett hefði verið hræðilegt fordæmi, sem ætti eftir að splundra kerfi alþjóðasamskipta, sem hefði verið við lýði um aldir.
Seinna um árið hernámu Rússar Suður-Ossetíu og Abkasíu eftir átök við Georgíu og réttlættu íhlutun sína með því að nota rök Bandaríkjamanna, meðal annars um mannréttindi.
Blaðamaðurinn Simon Waxman lýsti því þannig í grein í Washington Post árið 2017 að Pútín og stuðningsmenn hans hefðu með skýrum hætti reitt sig á rök Clinton-stjórnarinnar í Kosovo þegar þeir réttlættu stefnu sína gagnvart Sýrlandi og Úkraínu. „Ef NATO getur hrasað inn í borgarastríðið í Júgóslavíu, hvers vegna getur Rússland ekki gert það sama í Sýrlandi? Rússar eru bandamenn Sýrlendinga, bundnir samningi um að verja stjórn landsins. Og hafi þjóðarmorð Saddams Husseins á Kúrdum verið ástæða til að beita valdi til að steypa honum af stóli, hvers vegna ættu Rússar ekki að vernda fólk af rússneskum uppruna eins og þeir hafa sagst vera að gera í Georgíu og Úkraínu?“
Innrásin í Úkraínu aðfaranótt fimmtudags sýnir að Pútín lætur ekki sitja við orðin tóm. Í hans huga á Úkraína að vera á rússnesku áhrifasvæði, hvað sem líður vilja íbúa landsins. Spurningin er aðeins hversu langt hann ætlar að ganga til að tryggja það. Um leið heldur hann áfram að gefa Vesturlöndum langt nef, fer sínu fram í Úkraínu á meðan Bandaríkin og Evrópusambandið þrefa um það hversu langt eigi að ganga í refsiaðgerðum. Fyrir Pútín er það enn ein afhjúpun máttleysis siðspilltra og aðframkominna Vesturlanda.
Heimildir: AFP, Der Spiegel.