Á Ásvöllum Tryggvi Snær Hlinason treður boltanum í körfuna á fimmtudaginn. Þetta þurftu Ítalir að sætta sig við trekk í trekk.
Á Ásvöllum Tryggvi Snær Hlinason treður boltanum í körfuna á fimmtudaginn. Þetta þurftu Ítalir að sætta sig við trekk í trekk. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Körfubolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Íslensku landsliðsmennirnir í körfuknattleik fá ekki langan tíma til að fagna sætum sigri gegn Ítalíu í undankeppni HM.

Körfubolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Íslensku landsliðsmennirnir í körfuknattleik fá ekki langan tíma til að fagna sætum sigri gegn Ítalíu í undankeppni HM. Ítalir bíða í hefndarhug eftir því að mæta íslenska liðinu á ný en annað kvöld mætast þau í körfuboltaborginni Bologna á Ítalíu.

Sigur Íslands á Ásvöllum eftir maraþonleik á fimmtudagskvöldið kom Íslandi í góða stöðu í H-riðlinum. Liðið er með tvo sigra og eitt tap þegar riðlakeppnin er hálfnuð og tveir leikjanna voru á útivelli. Þrjú liðanna halda áfram og fara í milliriðil en staða Hollendinga er orðin erfið eftir þrjú töp. Liðið tapaði þó aðeins með tveggja stiga mun fyrir Íslandi og Ítalíu. Eins og fram hefur komið er mikilvægt fyrir Ísland að komast áfram í keppninni því þá þarf liðið ekki að fara í forkeppni fyrir EM 2025.

Hvernig bregðast Ítalir við?

Ítalir geta komist upp að hlið Íslands með sigri annað kvöld. Áhugavert verður að sjá hvernig Ítalir munu spila. Hvaða lærdóm drógu þeir af leiknum á Ásvöllum? Það hefur ekki verið auðvelt fyrir ítalska þjálfarann að útskýra fyrir ítölsku fjölmiðlafólki hvers vegna Ítalía tapaði mótsleik í körfuknattleik gegn tæplega 400 þúsund manna þjóð. Eitt er víst að leikmenn ítalska liðsins verða mjög ákafir í að svara fyrir sig á morgun.

Kristinn Pálsson, leikmaður Grindavíkur, kemur inn í liðið í stað Hauks Helga Pálssonar sem fékk kórónuveiruna á fimmtudaginn, eða á leikdegi. Kristinn kom við sögu í leikjunum í riðlinum í nóvember. Áður hafði Hörður Axel Vilhjálmsson fengið veiruna og var ekki orðinn nægilega hress til að fara út í síðari leikinn og missti því af báðum leikjunum gegn Ítalíu.

Martin Hermannsson fékk slink á nárann í leiknum á fimmtudagskvöldið. Auk þess er hann ekki alveg laus við meiðsli í kálfa sem hann glímdi við fyrir áramót og urðu þess valdandi að Martin lék ekki gegn Rússum í nóvember. Ég gæti því alveg ímyndað mér að Martin muni taka minni þátt í leiknum á morgun heldur en á fimmtudag.

Jón Arnór með í för

Haukur Helgi var ekki sá eini sem smitaðist á dögunum því annar aðstoðarþjálfaranna, Baldur Þór Ragnarsson, fékk veiruna einnig. Hann er því ekki með í för en sá sem leysir hann af í þetta skiptið er enginn annar en Jón Arnór Stefánsson. Craig Pedersen leitaði til Jóns sem var reiðubúinn að hjálpa til en Jón lék tvö tímabil á Ítalíu. Jón Arnór er auðvitað öllum hnútum kunnugur varðandi áherslur Pedersens og er ekki skoðanalaus þegar kemur að landsliðinu. Síðasta landsleikinn lék Jón Arnór fyrir þremur árum, þegar Ísland vann Portúgal.

Íslenski hópurinn skilaði sér til Bologna síðdegis í gær og var dagurinn tekinn snemma.

Frestað hjá Rússum

Á morgun stóð til að Holland og Rússland myndu mætast í Hollandi. Körfuknattleikssamband Hollands sendi hins vegar frá sér yfirlýsingu í gær þar sem segir að sambandið hafni því að taka á móti Rússum vegna stríðsrekstursins í Úkraínu. Ráðgert hafði verið að liðin myndu mætast í Almere í Hollandi.

Seint í gærkvöldi sendi FIBA frá sér tilkynningu þar sem fram kom að leiknum hefði verið frestað. Leik Bretlands og Hvíta-Rússlands sem fara átti fram í Newcastle á mánudaginn hefur einnig verið frestað.