Mohamed Salah heldur áfram að raða inn mörkum fyrir Liverpool og hefur boðið Rodri og Manchester City upp í dans. Sá dans gæti átt eftir að verða í slam- en ekki samkvæmisstíl og hyggilegra fyrir dauðlega menn að flækjast ekki fyrir.
Mohamed Salah heldur áfram að raða inn mörkum fyrir Liverpool og hefur boðið Rodri og Manchester City upp í dans. Sá dans gæti átt eftir að verða í slam- en ekki samkvæmisstíl og hyggilegra fyrir dauðlega menn að flækjast ekki fyrir. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir að formlegri dagskrá virtist lokið hljóp skyndilega fjör í titilbaráttuna í ensku knattspyrnunni á ný. Orrustan um fjórða og seinasta meistaradeildarsætið ætlar líka að verða æsileg. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Enska knattspyrnan er engu lík. Hafi menn verið búnir að gleyma því rifjaðist það ábyggilega upp á dögunum fyrir atbeina ólíkindatólanna í Tottenham Hotspur. Fyrst skruppu þeir Contungar á Etihad-leikvanginn í Manchester, alla jafna óvinnandi vígi, og skelltu heimamönnum, toppliði úrvalsdeildarinnar, á ævintýralegan hátt með sigurmarki á elleftu stundu í uppbótartíma. Fjórum dögum síðar voru sömu menn í sömu fötum mættir í öllu fábrotnara mannvirki, Turf Moor í Burnley, þar sem botnlið deildarinnar tók á móti þeim. Og hvað gerðist þá? Jú, jú, Tottenham tapaði. Þið munið, við erum að tala um ensku knattspyrnuna. Ef þið getið bent mér á aðra deild, í þessum styrkleikaflokki, þar sem þetta getur átt sér stað skal ég persónulega skutla Mogganum heim til ykkar um næstu helgi!

Eins og þessar vendingar séu ekki nógu fréttnæmar út af fyrir sig þá gerði Tottenham annað og meira með þessu undarlega uppátæki – galopnaði baráttuna um meistaratitilinn. Ekki svo að skilja að Lundúnaliðið eigi beina aðild að þeirri glímu sjálft. Stigin þrjú sem ríkjandi meistarar, Manchester City, töpuðu hleyptu hins vegar helstu áskorendum þeirra, Liverpool, aftur inn í slaginn sem virtist vera lokið um áramótin. Í staðinn fyrir níu til 12 stig var munurinn allt í einu ekki nema sex stig og Rauði herinn með leik til góða – sem hann malaði svo í vikunni. Tók sprellikarlana í Leeds United til bæna á Anfield, 6:0. Þá er munurinn ekki nema þrjú stig og það eiginlegur en bæði lið hafa lokið 26 leikjum af 38. Og Liverpool með hagstæðari markamun sem nemur fjórum mörkum og þar sem liðin eiga eftir að kljást innbyrðis þá eru þau bæði með sín örlög í eigin hendi. Djöfulsins veisla sem þetta á eftir að verða! Hver sagði svo að Tottenham væri þess ekki umkomið að blanda sér í baráttuna um meistaratitilinn?

Bikar í augsýn

En áður en þeir Kloppungar leggja til atlögu við sjálfan meistarabikarinn ætla þeir að hrifsa deildabikarinn af City um helgina en þeir heiðbláu hafa einokað hann undanfarin ár; unnið fjögur mót í röð, líkt og Rauði herinn gerði í byrjun níunda áratugarins, og sex sinnum á síðustu átta árum. Það gleymdi víst einhver að segja Pep Guardiola frá því að menn tefli fram varamönnum og ungmennum í þeirri annars ágætu keppni.

Ljónið á veginum á Wembley-leikvanginum í Lundúnum er Chelsea; liðið í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar og nýbakaðir heimsmeistarar félagsliða. Framan af móti leit út fyrir að lærisveinar Tomasar Tuchels ætluðu að vera með stóru strákunum í toppslagnum en fjarað hefur undan þeim draumum á umliðnum vikum. Chelsea er í dag 13 stigum á eftir City. Fyrir vikið hlýtur deildabikarinn að freista. Dolla er alltaf dolla og hressandi fyrir sálarlífið og móralinn.

En hvers vegna í ósköpunum fór án aðdraganda að hellirigna úr heiðskírum himni yfir bláhvíta hluta Norður-Lundúna? Ekki var sparkstjórinn, Antonio Conte, með svarið eftir fíaskóið í Burnley. Vék sér þó fráleitt undan ábyrgð; kvaðst hreinlega hafa efasemdir um að hann væri rétti maðurinn til að leiða klúbbinn eftir fjóra ósigra í fimm leikjum. Óvenjulegt að heyra menn tala með þessum hætti og maður gat ekki varist þeirri hugsun að Ítalinn vildi hreinlega losna úr prísundinni. Fyrr en síðar. Var hann með þessu að stíga í vænginn við Manchester United sem er þessa dagana undir bráðbirgðastjórn Þjóðverjans Ralfs Rangnicks? Vill hann komast þangað í sumar? Eða er hann bara svona ofboðslega ærlegur?

Fyrir fáeinum vikum veðjuðu margir á að Tottenham myndi taka fjórða sæti deildarinnar og stimpla sig þar með inn í Meistaradeild Evrópu í haust. Conte væri sigurvegari af Guðs náð og mörkum hlyti að byrja aftur að rigna úr ranni Harrys markakóngs Kane. Það gerðist sannarlega á Etihad en mögulega vildi hann bara minna meistarana á hvers þeir hefðu farið á mis en hugmyndir voru um að hann flytti sig milli borga síðasta sumar. Kappinn hefur auðvitað ekkert að sanna gagnvart Burnley, Úlfunum og Southampton. Tottenham lónar nú handan góðs og ills í áttunda sæti deildarinnar, sjö stigum á eftir Manchester United í fjórða sætinu – en á tvo leiki til góða. Þannig að öll nótt er fráleitt úti.

United hefur hóstað og hikstað á víxl í vetur, skipt um stjóra og Guð má vita hvað, en virðist vera að komast aftur á sigurbraut. Þannig að enginn skyldi afskrifa þá pilta í rimmunni um fjórða sætið. Ronaldo erkispyrnir hefur verið með einhverja hægðatregðu undanfarið en þeim kvilla lýkur alltaf með sama hætti – óstöðvandi þarmahláku.

Byrjað að tefja á 25. mínútu

United ræður þó ekki örlögum sínum eitt og óstutt en næsta lið í töflunni, Arsenal, er bara einu stigi á eftir og á tvo leiki til góða. Skytturnar hafa átt furðulegt mót, tapa ýmist öllum leikjum eða vinna þá alla. Eftir sigurlausan og nær markalausan janúar skellti mannskapurinn sér í hópeflistúr í sólina í Dúbai, þar sem barið var í brestina. Eftir það er liðið með níu stig úr þremur leikjum. Þar af eru tveir sigrar á Úlfunum sem verið hafa þéttari en upphandleggirnir á Annie Mist í vetur. Þar með eru fjarlægar meistaradeildarvonir Bruno Lage og hans manna nánast úr sögunni, myndi maður ætla. Kannski eins gott, viljum við sjá lið þar sem byrjar að tefja leiki á 25. mínútu og ruglast alveg „óvart“ í ríminu þegar taka á menn af velli undir lokin?

West Ham United er fimmta liðið sem gerir tilkall til fjórða sætisins en David Moyes hefur barið stórmerkilegan stöðugleika inn í kvarnirnar á Hömrunum sínum. Aðeins hafa þeir þó verið að haltra að undanförnu en eru samt ekki nema fjórum stigum frá markmiðinu.

Það er heldur ekki eins og að Chelsea sé búið að geirnegla þriðja sætið; United er bara fjórum stigum á eftir þeim og vinni Arsenal leikinn sem það á inni á þá bláu munaði aðeins tveimur stigum á liðunum. Þessi lið myndu þó glöð gera sér fjórða sætið að góðu – og hanga á því eins og langsoltinn hundur á roði.

Þið verðið rétt stillt!