Það er þyngra en tárum taki að fylgjast með því sem er að gerast í Úkraínu þessa stundina. Ég sat í mestu makindum mínum að textalýsa leik Bandaríkjanna og Íslands í alþjóðlega kvennamótinu She Belives Cup þegar ég sá frétt á forsíðu mbl.
Það er þyngra en tárum taki að fylgjast með því sem er að gerast í Úkraínu þessa stundina. Ég sat í mestu makindum mínum að textalýsa leik Bandaríkjanna og Íslands í alþjóðlega kvennamótinu She Belives Cup þegar ég sá frétt á forsíðu mbl.is um að innrás Rússa væri hafin.

Tveir kollegar mínir á Morgunblaðinu voru sannfærðir um það um síðustu helgi að Rússar myndu gera innrás en ég neitaði sjálfur að trúa því, þangað til á fimmtudaginn.

Sem starfandi fjölmiðlamaður, sem eyðir allt of miklum tíma í vinnunni, þá fær maður fréttaflutning af öllu því sem gerist í Úkraínu beint í æð. Á sama tíma birtast reglulega myndbönd og myndir á samfélagsmiðlum af ástandinu í Úkraínu og ástandið er átakanlegt í orðsins fyllstu merkingu.

Dönsk stjórnvöld vilja að Rússland verði útilokað frá öllum íþróttum og Hollendingar hafa neitað að spila við Rússland í undankeppni HM karla í körfuknattleik um helgina. Íþróttasamfélagið virðist ekki ætla að láta innrás Rússa viðgangast og nú þurfa fleiri að fylgja í kjölfarið.

Bakverðir íþróttasíðna Morgunblaðsins fjalla alla jafna um íþróttatengd málefni en það er erfitt að skifa um íþróttir þegar þær eru svo smávægilegar í stóra samhenginu.

Ég vona að íþróttasamfélagið í heild sinni sýni samstöðu með Úkraínu og fordæmi og útiloki Rússa frá öllum kappleikjum og viðburðum næstu árin.

„Það eina sem þarf svo hið illa sigri er að góðir menn sitji hjá og geri ekkert“ er orðatiltæki sem hefur stundum verið tileinkað Edmund Burke og á vel við hér.