Gunnlaugur Guðmundur Magnússon fæddist á Ketilseyri við Dýrafjörð 3. september 1933. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði 18. febrúar 2022.

Foreldrar hans voru Sigríður Sigurðardóttir frá Harastöðum á Fellströnd í Dalasýslu, f. 25.6. 1895, d. 26.1. 1973, og Magnús Einarsson frá Hnjúki í Klofningshreppi í Dalasýslu, f. 11.10. 1888, d. 14.8.1971.

Eldri bróðir Gunnlaugs var Gestur Magnús Zophanías, f. 20.12. 1922, d. 23.11. 1972. Eldri systir Gunnlaugs var Björnfríður Ólafía Magnúsdóttir, f. 14.12. 1926, d. 11.5. 2006.

Gunnlaugur giftist 1.1. 1961 Kristínu Kristjánsdóttur frá Neðri-Hjaraðardal, f. 3.12. 1932. Foreldrar hennar voru Magðalena Össurardóttir, f. 14.12. 1893, d. 27.5. 1988, og Kristján Þórarinn Davíðsson, f. 9.4. 1889, d. 21.10. 1970.

Börn Gunnlaugs og Kristínar eru 1. Þórhallur Gunnlaugsson, f. 28.9. 1960, maki Izabela Lecka, f. 19.10. 1970, eiga þau einn son, Jakub Lecki, f. 4.2. 1990.

2. Þorgerður Gunnlaugsdóttir, f. 27.7. 1962, maki Höskuldur Brynjar Gunnarsson, f. 8.3. 1959, og eiga þau fjögur börn, þau eru Erna, f. 29.5. 1980, Kristín Harpa, f. 19.12. 1981, Gunnlaugur Unnar, f. 3.4. 1983, og Ævar f. 3.2. 1996.

3. Bergþór Gunnlaugsson, f. 2.6. 1966, maki Alda Agnes Gylfadóttir, f. 24.12. 1969, börn þeirra Vigri, f. 20.10. 1998, og Gunnlaugur Gylfi, f. 21.1. 2002. Fyrir á Bergþór soninn Einar Martein, f. 19.6. 1986. Barnabarnabörnin eru 12 alls.

Gunnlaugur fluttist 11 ára gamall frá Ketilseyri til Þingeyrar með foreldurm sínum. Ungur byrjaði hann að vinna við brúargerð víðsvegar á Vestjörðum með Sigurði Breiðfjörð brúarsmið. Seinna hóf hann rekstur eigin vörubifreiðar. Meðfram reksti á sínum bíl var hann landformaður í 17 ár á vetrarvertíðum á línubátnum Fjölni ÍS 177. Frá níunda áratug hóf Gunnlaugur störf sem utanbúðarmaður hjá Kaupfélagi Dýrfirðinga, þar sem hann sá um aðföng til bænda á svæðinu ásamt afgreiðslu Ríkisskipa, Samskipa og Landflutninga.

Útför Gunnlaugs verður gerð frá Þingeyrarkirkju í dag, 26. febrúar 2022, klukkan 14.

Útförinni verður streymt á facebook-síðu Þingeyrarprestakalls hins forna.

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Síðasta kornið fellur niður í stundaglasinu. Ég minnist góðra tíma í foreldrahúsum sem einkenndust af vinnusemi og náungakærleik. Eins og í lífinu þá skiptast á skin og skúrir.

Ég held að frá æskuárum til fullorðinsára teljist ég vera pabbastrákur.

Við pabbi áttum einstakt samband alla tíð, sem ekki er kannski hægt að lýsa með orðum.

Oft og tíðum skildum við hvor annan án þessa að segja nokkurt orð. Önnur manneskja kær okkur hafði einnig þann hæfileika, Fríða systir pabba, Björnfríður Ólafía Magnúsdóttir.

Ég á mínar fyrstu minningar einn góðviðrisdag inni í Grasi, sem var æskuheimilið, ég nennti ekki að bíða eftir a að mamma kæmi að hjálpa mér við að kæða mig, sennilega var ég 4-5 ára, hispaði mér í nærtæka fatalarfa og dreif mig út, mamma var ekki heima.

Það var nefnilega þannig að pabbi var að keyra efni á vörubílnum frá Hvammi og út á Þingeyri. En það var kallað út á Þingeyri, því við áttum heima innst í þorpinu þá í húsi sem heitir „Gras“, en flest gömlu húsin hétu nöfnum. Ég beið við vegkantinn eftir að pabbi myndi nálgast svo að ég kæmist með. Það tókst mér til mikillar ánægju. En þetta var löngu, löngu fyrir tíma farsíma og nútíma samskipta. Þannig að þegar mamma kom heim og sá að litli unginn var ekki í hreiðrinu þá voru góð ráð dýr og hófst mikil leit að drengnum. Ég var skammaður fyrir þetta uppátæki sem mér fannst óvægið á þeim tíma og skildi ekki þetta vesen. (Vantaði klárlega greiningu á þessum tíma.)

Pabbi vann við brúargerð á yngri árum, síðar gerðist hann vörubílstjóri og á veturna var hann landformaður, sem honum hentaði vel.

Pabbi átti sauðfé sem hann ól í útihúsum allt til níunda áratugarins, allt þar til sauðfjárhald var bannað á Þingeyri en féð fékk hann frá föður sínum, Magnúsi Einarssyni. Hann hafði mjög gaman af sauðfjárræktinni. Átti úrvals fé en hrútar og gimbrar voru oft fengnar hjá honum til kynbóta víða um sveitir. Ég fór á margar hrútarsýningar með honum í nágrannasveitarfélögum. Snemma byrjaði pabbi að kenna mér að keyra. Ég var mjög ungur er ég fór að rúnta á vörubílnum uppi á Söndum, þegar pabbi var að heyja fyrir rollurnar. Eitt skiptið skildi pabbi ekkert í því þegar hann sá mig koma hlaupandi niður á stykkið þar sem heyskapur stóð sem hæst. Tildrög þess voru að ég hafði séð hreppstjórann koma yfir hæðina og ég þorði ekki annað en að drepa á, skilja bílinn eftir og hlaupa til pabba.

Pabbi vann lengi sem landformaður, við að beita línu. Þá var beitt í landi, og þegar báturinn kom að landi eftir dagsróður þá fóru landkarlarnir með balana niður á bryggju og komu bölum um borð og tóku bjóðin frá borði og lönduðu aflanum. Ekkert var skemmtilegra en að kíkja í skúrinn eftir skóla og sjá hvernig gengi. Hápunkturinn var að fá að fara með í löndun úr bátunum, sem var ekki alltaf hægt. Pabbi var alltaf handfljótur og snöggur að beita.

Upp úr 1980 hætti hann í vörubílarekstri og fór að vinna hjá KD, Kaupfélagi Dýrfirðinga. Þar var hann tengiliður við bændur á svæðinu og sá um þeirra aðföng. Að auki sá hann um vöruafgreiðslu Ríkisskipa og Landflutninga sem hann sinnti af kostgæfni.

Eftir fall KD var hann kominn á aldur en ekki alveg tilbúinn í að gera ekki neitt. Þá tók hann að sér vöruafgreiðslu Samskipa og gegndi því meðan heilsa og geta leyfði.

Pabbi hafði gaman af því að veiða, það eru ófáar sprænurnar í Dýrafirði sem hann reyndi ekki við, oft fór ég með, á yngri árum. Ég þori að fullyrða að hann hafi landað stærsta laxi í Dýrafirði fyrr og síðar. Þolinmæðina hafði hann að vopni.

Gulli Magg. Hann var rakari bæjarins í mörg ár og hafði fastakúnna í áratugi. Hann var heimakær. En dálæti höfðu foreldrar mínir á að skoða landið okkar Ísland. Ekki voru þær margar utanlandsferðirnar. Alls tvær. Önnur þeirra til Noregs á vegum skógræktarfélags. Hún var þeim eftirminnileg og oft til frásögu.

Pabbi var líka ósérhlífinn. Hann kveinkaði sér yfirlett ekki. Pabbi mátti ekkert aumt sjá og vildi alltaf rétta mönnum hjálparhönd, gæti hann komið því við. En aldrei hafði hann hátt um það og eða vildi neitt í staðinn.

Hann dýrkaði að fá að dekra við barnabörnin sín og fór ófáa rúnta um fjörðinn og til veiða.

Ég minnist hans með hlýju, þakklæti og auðmýkt.

Mamma, börn, barnabörn og barnabörn. Stórt er skarðið sem erfitt verður að fylla.

Hvíldu í friði elsku pabbi, njóttu þín í sumarlandinu.

Bergþór Gunnlaugsson.

Fyrsta sem ég hugsa um þegar ég hugsa um afa Gulla er hvað hann var alltaf mikill vinur. Það var alltaf gaman að vera í kringum hann því hann bauð mann svo velkominn og var alltaf kátur. Svo þurfti hann ekki að hafa mikið fyrir því að brosa, og það var stutt í hláturinn. Honum fannst ekkert skemmtilegra en að taka hringinn út á Sandasand og í bænum og svo til baka. Hann kenndi okkur Vigra bróður allavegna að keyra gömlu caravelluna úti á Sandasandi þegar við vorum pínulitlir og fór með okkur að veiða annað slagið, hvort sem það var úti á bryggju eða við eldhúsborðið því við gátum endalaust spilað veiðimann líka og það er í dag ein af þessum kjarnabarnæskuminningum. Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst þessum gæða manni, því hann er án efa ein besta sál sem ég hef kynnst, og ég tel að það sé virkilega hollt að umgangast svona hlýja og góða menn.

Gunnlaugur Gylfi

Bergþórsson.

Fyrir rótlausan mann eins og mig, sem hefur búið á mörgum stöðum í gegnum ævina, var svo gott að eiga hjá þér og ömmu annað heimili.

Ég nýtti flest öll frí til þess að koma vestur til ykkar og þegar ég hugsa til baka eru flestar mínar æskuminningar með þér, allar veiðiferðirnar, útilegurnar inn í Dynjanda, þegar þú kenndir mér að keyra 11 ára og allir rúntarnir og sögurnar frá þér. Þú varst svo miklu meira en afi minn og varst alltaf svo mikill klettur fyrir mig og við vorum svo miklir vinir. Takk fyrir allt afi minn og guð geymi þig.

Vigri.