Krot & Krass eru þau Björn Loki (f. 1991) og Elsa Jónsdóttir (f. 1990) og hafa þau starfað saman í um áratug. Þau hafa til að mynda staðið að uppsetningu veggverka og að tónlistar- og listahátíðum.
Á sýningunni verða ný skúlptúrverk úr rekavið og steypu. Samhliða verkunum hefur Krot & Krass unnið rannsóknarskýrslu sem gefin er út sem sérstakt bókverk. Í tilkynningu segir að höfðaletur hafi verið helsta hugðarefni Krots & Krass undanfarin misseri en letrið kom fyrst fram í íslenskum útskurði á 16. öld. Letrið getur verið torlæsilegt og hefur verið sveipað dulúð.