Eftir að hafa lækkað skarpt frá innrás Rússa í Úkraínu fyrir tveimur vikum rétti hlutabréfamarkaðurinn aðeins úr kútnum undir lok vikunnar. Öll skráð félög á aðalmarkaði hækkuðu í gær, föstudag, og OMXI10-vísitalan hækkaði um 2,8%. Hækkunin yfir vikuna er þó ekki mikil, aðeins 0,4%, en vísitalan hefur lækkað um 2,7% á tveimur vikum og um 9,5% frá áramótum.
Viðmælendur Morgunblaðsins af markaði lýsa því margir hvernig ró virðist hafa komist á eftir lítils háttar taugatitring í síðustu viku, þá sérstaklega á meðal almennra fjárfesta. Þó megi geta þess að enn liggja áhrif innrásarinar ekki fyllilega fyrir á íslensk fyrirtæki og íslenskt hagkerfi sem geti ráðið hegðun fjárfesta á næstu dögum og vikum.
Icelandair hækkaði um 4,1% í gær en hefur þó lækkað um 7,3% yfir vikuna eftir töluverða lækkun fyrri hluta vikunnar. Þá lækkaði gengi Play um 6,4% yfir vikuna. Sjávarútvegsfélögin , sem lækkuðu hratt eftir innrásina, hafa náð hægum bata hvað gengi hlutabréfa varðar. Gengi Iceland Seafood stóð í stað í vikulok eftir lækkun um miðja viku en hefur lækkað um 10,7% frá því innrásin hófst. Síldarvinnslan hækkaði um 4,7% yfir vikuna eftir að hafa birt gott uppgjör á fimmtudag og Brim, sem ólíkt hinum hefur hækkað á liðnum vikum, hækkaði um 6,4%. Eimskip hækkaði um tæp 6% yfir vikuna og Marel um 4%. Þetta eru þau félög sem urðu fyrst fyrir áhrifum innrásarinnar.