Orri Páll Ormarsson
orri@mbl.is
„Úkraínumenn eru sannfærðir um sigur í þessu stríði. Andspyrna þeirra hefur komið öllum á óvart – ekki síst þeim sjálfum – og hún hefur blásið þeim baráttuanda í brjóst. Það hefur líka vakið undrun þeirra að rússneski herinn er ekki eins óárennilegur og búist var við.“
Þetta segir breski blaðamaðurinn Tim Judah í samtali við Morgunblaðið en hann er staddur í Kænugarði.
Hann segir stríðið hafa sameinað úkraínsku þjóðina. „Auðvitað hafa margir flúið land, sem er skiljanlegt, en þeir sem eru eftir vilja upp til hópa leggja sitt af mörkum til að freista þess að velgja rússneska hernum undir uggum og helst flæma hann á brott. Þúsundir manna hafa gengið til liðs við hinar nýstofnuðu varnarsveitir og það er mikill hugur í mönnum. Það eru ekki síst þessar sveitir sem hafa komið í veg fyrir að Úkraína hafi fallið í hendur Pútíns, vegna þess að þær gera hinum eiginlega her kleift að berjast í fremstu víglínu.“
Judah var á ferð í bænum Irpin á fimmtudaginn sem skilgreindur hefur verið sem hlið að Kænugarði.
„Í gær var svokölluð „græn braut“ frá Irpin, sem þýðir að fólk gat komist þaðan óáreitt. Það voru mörg hvít flögg á lofti. Ég fékk að fara alla leið að útmörkum þess svæðis sem Úkraínumenn ráða en þaðan eru aðeins um 700 metrar að staðnum þar sem rússneski herinn hefur tekið sér stöðu. Rússar hafa þurft að hörfa síðustu daga og ég kom auga á tvo fallna Rússa í vegkantinum. Það hefur líka verið mannfall í Irpin og ég sá tvo látna óbreytta borgara þar.“
Nánar er rætt við Tim Judah á mbl.is, auk þess sem grein eftir hann birtist í Sunnudagsblaðinu.