Alfreð mikli ásamt eiginkonu sinni, Aelswith, og syni og arftaka, Játvarði.
Alfreð mikli ásamt eiginkonu sinni, Aelswith, og syni og arftaka, Játvarði. — Netflix
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldskapur og sagnfræði stíga æðisgenginn dans í sjónvarpsþáttunum Síðasta konungsríkinu sem gerast á tímum víkinga og engilsaxa. Hverjar af þessum kempum voru raunverulega til? Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Nú þegar ég sting mér með höfuðið á undan inn í fjórðu seríuna af Síðasta konungsríkinu hlæja ábyggilega einhverjir lesendur upphátt að mér, digrum karlahlátri, enda löngu búið að sýna hana á efnisveitunni Netflix og sú fimmta komin þangað inn líka frá og með þessari viku og þið sjálfsagt flest búin að háma hana í ykkur. Með góðri lyst. Sannleikurinn er hins vegar sá að ég er enn þá svolítið veikur fyrir línulegri dagskrá, auk þess sem mannfallið og blóðbaðið í téðum þáttum er svo mikið að manni veitir ekkert af heilli viku á milli þátta til að jafna sig. Maður er kannski nýbúinn að tengja við áhugaverða persónu þegar hún er með einu vel útfærðu sverðshöggi gerð höfðinu styttri. Og ég er nú svo gamaldags að ég kann alltaf betur við persónur meðan höfuðið tollir enn á þeim. Þess vegna fylgi ég Útráði Danabana frá Bebbanborg bara vikulega í Ríkissjónvarpinu, eins og árið væri 1986. Eða 986.

Þessi inngangur varð óvart lengri en ég ætlaði en jæja, það sem ég hyggst reyna að fjalla um í þessari grein er sú staðreynd að sumar af persónunum í Síðasta konungsríkinu voru í raun og sann til. Eins og þið hafið ekki vitað það þegar!

Þættirnir byggjast á svokölluðum Saxögum (The Saxon Stories), sögulegum skáldsögum eftir breska rithöfundinn Bernard Cornwell um tilurð Englands á níundu og tíundu öld. Aðalsöguhetjan, Útráður af Bebbanborg, var ekki til en nafnið sækir Cornwell til frænda síns, Útráðs hins djarfa, sem ráðinn var af dögum snemma á elleftu öld.

Sjálfur uppgötvaði Cornwell engilsaxneska ljóðlist meðan hann var í háskóla og kolféll í framhaldinu fyrir þessum undarlega og oft og tíðum melankólíska heimi. „Af einhverjum ástæðum er saga Engilsaxa ekki kennd svo mikið í Bretlandi (þar sem ég ólst upp) og það orkar tvímælis að Englendingar hafi ekki hugmynd um hvaðan ríki þeirra kom,“ segir Cornwell í samtali við Emerson College. Úr þessu vildi hann bæta.

Fyrir vikið er engin tilviljun að sagan hefjist þegar Danir eru búnir að hernema öll nema eitt meiriháttar konungsríki Saxa, Vestur-Saxland, þar sem Alfreð mikli ríkir. Hann á sér þann metnaðarfulla draum að sameina alla enskumælandi menn í einu konungsríki. Útráður af Bebbanborg er sonur saxnesks lávarðs í Norðymbralandi en danskur vígamaður rænir honum sem ungum dreng og ættleiðir. Síðar snýr Útráður aftur til Vestur-Saxlands og berst fyrir Alfreð mikla, sem treystir honum, enda þótt sumir í hans liði séu sannfærðir um að Útráður leiki tveimur skjöldum.

Alfreð mikli var konungur Vestur-Saxa og síðar Engil-Saxa frá 871 til 899, að hann sálaðist. Hann var yngsti sonur Aðalúlfs konungs og eiginkonu hans, Ásbjargar. Við fráfall Alfreðs tók ungur sonur hans, Játvarður eldri, við krúnunni eftir að hafa hrundið áhlaupi Aðalvalds frænda síns sem var sonur Aðalráðs konungs, bróður Alfreðs, sem ríkti á undan honum. Þið eruð alveg að ná að fylgjast með, er það ekki? Get hægt á mér ef svo er ekki!

Játvarður var faðir Aðalsteins, sem er barn að aldri í fjórðu seríunni. Hann tók síðar við af föður sínum og samtímasagnfræðingar líta upp til hópa á Aðalstein sem fyrsta konung Englands.

Játvarður ber ekki sama traust til Útráðs og faðir hans; þykir hann ekki þess verður, auk þess sem hann hefur verið að gera sér dælt við systur Játvarðs, Aðalfljóð. Sú ágæta kona var einnig til og þegar hér er komið sögu í þáttunum er hún tekin við sem höfðingi Mersíu, eins af konungsríkjunum þar um slóðir. Gjörningur sem á sér stoð í veruleikanum.

Skítugir og blóðþyrstir

Dönsku heiðingjarnir eru upp til hópa haugdrullugir og blóðþyrstir í þáttunum. Eins og vera ber. Sumir þeirra voru til, svo sem Hásteinn og Knútur, sem ríkti yfir Norðymbralandi í blábyrjun tíundu aldar. Nú er síðan kominn til sögunnar í Síðasta konungsríkinu hinn vígfimi Sigtryggur, leikinn af Íslendingnum Eysteini Sigurðarsyni. Hann komst til valda í Dyflinni og Víkinga-Norðymbralandi snemma á tíundu öld. Sigtryggur hjó eins og hann átti kyn til en hann var barnabarn berserksins Ívars beinlausa sem kom á fót Uí Ímair – eða Ívarsveldinu sem réði lögum og lofum við Írlandshaf frá miðri níundu öld. Ívar var sonur Ragnars loðbrókar, þess hálfgoðsögulega kappa, og móðir hans var Áslaug Kráka en albræður hans voru Sigurður ormur í auga, Björn járnsíða og Hvítserkur. Agnar og Eiríkur voru bræður hans samfeðra en móðir þeirra var Þóra borgarhjörtur. Einnig var hann sagður bróðir Rögnvalds, Hálfdáns og Ubba sem einmitt kom við sögu í fyrstu seríunni af Síðasta konungsríkinu. Ekki árennilegt lið þarna á ferðinni. Á maður ef til vill að segja bróðir Ubbu? Ætti það ekki að beygjast eins og Sturla?

Hvað finnst ykkur?

En aftur að Sigtryggi. Hann vann frækinn sigur í orrustunni um Islandbridge árið 919 gegn sameinuðu liði írskra konunga sem vildu reka þá Ívaringa burt frá Írlandi. Hvorki fleiri né færri en sex írskir konungar féllu þann dag, þeirra á meðal sjálfur aðalkóngur Íra, Njáll Glúndub. Ef þið haldið að ég sé að búa þessi nöfn til þá skora ég á ykkur að fletta þeim bara upp! Ég er heldur ekki enn þá byrjaður á nöfnum Walesverjanna sem koma við sögu. Má þar nefna Hywel Dda, konung af Deheubarth. Forveri hans á valdastóli var Idwal Foel ap Anarawd.

Meira um þá síðar. Eða ekki.

Allra þjóða kvikindi

Leikarar í Síðasta konungsríkinu koma víða að. Væri maður óformlegur myndi maður ugglaust tala um allra þjóða kvikindi.

Alexander Dreymon, sem fer með hlutverk Útráðs, er þýskur í húð og hár. Tobias Santelmann, sem lék Ragnar bróður hans, er líka fæddur í Þýskalandi en flutti ársgamall til Noregs. Margir kannast án efa við hann úr hlutverki Henriks í hinum alræmdu þáttum Exit og Ólafs Noregsprins í Atlantic Crossing.

Emily Cox, sem leikur Bridu, hina ódælu uppeldissystur Útráðs, er austurrísk og Peri Baumeister, sem lék Gíslu, eiginkonu aðalsöguhetjunnar, er þýsk. Þarna eru líka Englendingar, eins og Ian Hart (séra Beocca), David Dawson (Alfreð mikli), Eliza Butterworth (Aelswith) og Millie Brady (Aðalfljóð). Ola Rapace (Sigurður blóðhár) er Svíi, Thea Sofie Loch Næss (Skaði) er norsk og Steffan Rhodri (Hywel Dda) velskur. Svo er það okkar maður, Eysteinn Sigurðarson (Sigtryggur).