Baksvið
Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Fasteignafélagið Eignabyggð á nú í viðræðum við þrjú fyrirtæki vegna uppbyggingar á tíu þúsund fermetra atvinnuhúsnæði í Suður-Mjódd.
Byggingin verður áberandi en tugþúsundir ökutækja fara daglega hjá á Reykjanesbraut.
Brynjólfur Smári Þorkelsson, framkvæmdastjóri og annar tveggja eigenda Eignabyggðar, segir áformað að ganga til samninga á næstu vikum. Um sé að ræða lóðina Álfabakka 2 (A til D) en þar verði reistar höfuðstöðvar fyrir eitt fyrirtæki.
Eignabyggð sérhæfir sig í byggingu atvinnuhúsnæðis til útleigu og er nú með um 15.000 fermetra í notkun. Markmið félagsins er að byggja 5.000 til 10.000 fermetra á ári.
Brynjólfur Smári segir Eignabyggð hafa unnið að verkefninu undanfarið ár og nú standi valið milli þriggja fyrirtækja sem vilji reisa nýjar höfuðstöðvar á Álfabakka 2.
Byggingin myndi hljóðmön
„Það er áformað að byggja tíu þúsund fermetra hús sem verður verslun, lager og skrifstofur. Mig minnir að heimilt sé að byggja 16 metra há hús á lóðinni en held við munum miða við 10-13 metra. Skipulagið óskar þess að byggingin myndi hljóðmön fyrir ÍR-völlinn og nálæg fjölbýlishús og við ætlum að leggja upp með að húsið hlífi svæðinu fyrir umferðinni,“ segir Brynjólfur Smári.Hann segir aðspurður að markaður með atvinnuhúsnæði hafi glæðst að undanförnu. Þétting byggðar eigi þátt í því með því að atvinnuhúsnæði sé að víkja fyrir íbúðarhúsnæði, þar með talið í Vogabyggð og á Ártúnshöfða. Þá hafi mikil fjölgun erlendra ferðamanna aukið umsvif margra fyrirtækja og það kalli á meira rými.
Óli Örn Eiríksson, teymisstjóri atvinnu- og borgarþróunar hjá Reykjavíkurborg, sýndi Morgunblaðinu atvinnulóðirnar við Álfabakka um hádegisbilið í gær.
Um sé að ræða þrjár lóðir; Álfabakka 2, 4 og 6. Eignabyggð undirbúi framkvæmdir í Álfabakka 2 og Garðheimar undirbúi nú uppbyggingu nýrra höfuðstöðva í Álfabakka 6. Þá sé eftir lóðin Álfabakki 4.
Auglýst til úthlutunar í mars
„Við Álfabakka 4 er ný 7.000 fermetra athafnalóð þar sem byggja má 3.000 fermetra atvinnuhúsnæði. Borginni hafa þegar borist nokkrar fyrirspurnir í hana en hún verður auglýst til úthlutunar í mars.Við Álfabakka 6 hafa Garðheimar nýlega fengið úthlutað lóð undir 7.000 fermetra verslunarhúsnæði fyrir gróður og garðvörur og eru þau að undirbúa framkvæmdir sem gert er ráð fyrir að hefjist fljótlega,“ sagði Óli Örn en vegalagning stóð yfir á svæðinu í gær. Nánar tiltekið var verið að leggja veg að lóð Garðheima syðst á svæðinu. Alls má því byggja yfir 20 þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði á lóðunum þremur en það er um þriðjungur af grunnfleti upphaflegu Kringlunnar.
„Reykjavíkurborg áformar gatnagerð í sumar í tengslum við þessar úthlutanir og eru framkvæmdir áætlaðar frá apríl og fram í nóvember. Til viðbótar við gatna- og lagnaframkvæmdir verður gerður nýr göngu- og hjólastígur við Álfabakka sem tengist stígakerfi Kópavogs og einnig verður gerður nýr göngu- og hjólastígur neðan Þverársels. Áætlaður kostnaður við þessar framkvæmdir er 450 milljónir.“
Óli Örn áætlar að atvinnuhúsnæðið verði fullbyggt eftir fjögur til fimm ár. Aðilar úr ýmsum áttum hafi sýnt Álfabakka 4 áhuga. Þ.m.t. úr verslunar- og afþreyingargeiranum.