Framleiðsla Ólafur Wernersson í kjötmjölsverksmiðjunni í Flóanum.
Framleiðsla Ólafur Wernersson í kjötmjölsverksmiðjunni í Flóanum.
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Orkugerðin ehf. hefur sótt um að stækka starfsleyfi kjötmjölsverksmiðjunnar austan við Selfoss. Sótt er um allt að tvöföldun, þannig að hægt verði að framleiða allt að 14 þúsund tonn á ári í stað 7 þúsund tonna.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Orkugerðin ehf. hefur sótt um að stækka starfsleyfi kjötmjölsverksmiðjunnar austan við Selfoss. Sótt er um allt að tvöföldun, þannig að hægt verði að framleiða allt að 14 þúsund tonn á ári í stað 7 þúsund tonna. Hægt er að auka framleiðsluna með því að lengja keyrslutíma verksmiðjunnar, án þess að fjárfesta í búnaði og húsnæði.

Verksmiðjan tekur við sláturúrgangi og framleiðir úr honum próteinmjöl og fitu. Hráefnið hefur mest komið frá sláturhúsum og kjötvinnslum á Suðurlandi og er mikilvægt fyrir rekstur þeirra.

Búið er herða kröfur um urðun lífræns úrgangs sem orðið hefur til þess að verksmiðjan fær meira hráefni. „Frá því í september höfum við fengið aukaafurðir sláturdýra frá höfuðborgarsvæðinu, til viðbótar því sem við höfum verið að vinna. Við höfum leyfi til að framleiða 7 þúsund tonn á ári en ef fer fram sem horfir þurfum við stærra starfsleyfi til þess að geta unnið allt hráefni sem berst á árinu. Við höfum leyst þetta með því að keyra verksmiðjuna lengur, en við þurfum að vera innan starfsleyfis,“ segir Ólafur Wernersson, framkvæmdastjóri Orkugerðarinnar.

Verðmætar afurðir

Hráefnið er soðið þannig að það sé bakteríufrítt og síðan pressað svo að þurrefni og fita skiljist að. Mjölið er nýtt í áburð. Fitan er notuð sem eldsneyti til að knýja verksmiðjuna og hluti þess er seldur úr landi þar sem fitan er notuð í lífdísilframleiðslu. Ólafur segir að gott verð fáist fyrir fituna en 40 til 80 tonn fara til Hollands í hverjum mánuði.

Kjötmjölið fer aðallega til opinberra stofnana, eins og Landgræðslunnar, Skógræktarinnar, Landsvirkjunar og Hekluskóga, og er notað til uppgræðslu lands. Miklar takmarkanir eru á notkun kjötmjöls sem áburðar á land sem skepnur ganga á, vegna sóttvarna. Ólafur segir að mjölið sé vel samkeppnisfært í verði við innfluttan tilbúinn áburð en meira umstang sé við að dreifa því.

„Núna verðum við vör við meiri áhuga hjá bændum. Þeir geta notað mjölið í flög og á annað land sem er friðað fyrir beit. Hins vegar er of stuttur gluggi sem heimilt er að nota kjötmjöl á afrétti og úthaga sem beittir eru á sumrin. Reglurnar eru mun stífari en í Evrópusambandinu. Kannski þrýsta bændur á stjórnvöld um að breyta þessu ef áburður hækkar enn frekar í verði?“ segir Ólafur. Hann segir að með frekari áburðarverðshækkunum verði kjötmjölið enn hagkvæmari kostur en áður og hægt að leggja meira í að dreifa honum.