Ein af þeim bókum sem hafa haft hvað mest áhrif á mig er Margt getur skemmtilegt skeð eftir Stefán Jónsson. Hún sannfærði mig um að ég yrði aldrei lestrarhestur. Ég hóf lesturinn þegar ég var svona 10-12 ára og lauk henni nýlega, rétt fyrir fimmtugt.
Sömu sögu er að segja af Selnum Snorra sem ég varð að láta lesa fyrir mig upphátt kominn langleiðina á táningsaldur og eins var það með textann í sjónvarpinu, ég hafði aldrei undan að lesa hann sjálfur, það var virkilega pirrandi.
Þar sem ég hef nú glímt við þessa fötlun í hálfa öld og á sífellt erfiðara með að sætta mig við hæglæsið með aldrinum þá kann ég alltaf betur og betur að meta bækur sem ég hef lesið áður.
Þess vegna eru á náttborðinu hjá mér fimm bækur og ég hef lesið fjórar áður. Það er mjög passlegt hlutfall og maður finnur ekki fyrir neinni pressu að þurfa að lesa þær. Bækurnar fjórar sem ég hef lesið áður eru Jarðfræði eftir Þorleif Einarsson, Eldhress í heila öld, sem Gylfi Gröndal skráði um ævintýri Eiríks skipherra, Guðfaðir geðveikinnar á Akureyri , sjálfsæfisaga pápa míns og Krosshólshlátur sem gangnamenn í Svarfaðardal ortu og skráðu en Hjörleifur Hjartarson tók saman. Allt mjög fínar bækur.
Fimmtu bókina fékk ég í jólagjöf um síðustu jól og er rúmlega hálfnaður, það er bókin Bærinn brennur um þau Agnesi og Friðrik og Natan sem Þórunn Jarla Valdimarsdóttir setti saman. Þetta er líka mjög fín bók og ég reikna með að gera atlögu að því að klára hana fyrir vorið, annars er hætt við að það detti upp fyrir eins og gerst hefur með nokkrar jólabækur síðustu ára.
Af bókum sem hægt er að mæla með þá er það til dæmis Silungsveiði í Ameríku. Ég man ekki eftir hvern hún er. Jæja, þannig er nú það.