— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur hefur samþykkt að lækka hámarkshraða á Bústaðavegi, frá Kapellutorgi gegnt Veðurstofunni að Snorrabraut, úr 60 í 50 km á klst.

Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur hefur samþykkt að lækka hámarkshraða á Bústaðavegi, frá Kapellutorgi gegnt Veðurstofunni að Snorrabraut, úr 60 í 50 km á klst.

Lækkun hámarkshraða á þessum vegakafla er að tillögu Vegagerðarinnar, en samkvæmt umferðarlögum skal hámarkshraði á þjóðvegum í þéttbýli ákveðinn af Vegagerðinni, að fengnu samþykki viðkomandi sveitarstjórnar og

lögreglu.

Helstu rök Vegagerðarinnar eru þau að frá Kapellutorgi að Snorrabraut liggi Bústaðavegur um íbúðasvæði og íþróttasvæði á Hlíðarenda. Vestan Bústaðavegar séu göngu- og hjólastígar og útivistarsvæði við Öskjuhlíð.

„Töluverð umferð óvarinna vegfarenda er í grennd við við veginn, sér í lagi barna við íþróttasvæði á Hlíðarenda. Við Litluhlíð er ein þverun í plani fyrir óvarða vegfarendur, á ljósum yfir Bústaðaveg,“ segir meðal annars í greinargerð Vegagerðarinnar. Það teljist því nauðsynleg umferðaröryggisráðstöfun að lækka hámarkshraða á þesum kafla úr 60 km/klst. í 50 km/klst. sisi@mbl.is