Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að Seðlabankinn greiði Þorsteini Má Baldvinssyni forstjóra Samherja skaða- og miskabætur fyrir að hafa sætt ólögmætri meingerð sem fólst í því að Seðlabankinn lagði stjórnvaldssekt á Þorstein.
Voru Þorsteini dæmdar 2.480.000 krónur í skaðabætur vegna útlagðs lögfræðikostnaðar og 200 þúsund krónur í miskabætur. Að auki var Seðlabankinn dæmdur til að greiða Þorsteini 3 milljónir króna í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.
Seðlabankinn lagði 1,3 milljóna króna stjórnvaldssekt á Þorstein í september 2016 vegna meintra brota gegn reglum um gjaldeyrismál. Héraðsdómur og Landsréttur komust hins vegar að þeirri niðurstöðu, að afgreiðsla og málsmeðferð bankans hefðu ekki verið í samræmi við lög.