Ragnar Hjaltason fæddist 28. mars 1939 á Brúarlandi í Skagafirði. Hann lést á Sjúkrahúsi Fjallabyggðar 1. mars 2022. Foreldrar hans voru Hjalti Pálsson, Brúarlandi í Skagafirði, og Klara Konráðsdóttir, frá Bæ á Höfðaströnd.
Ragnar kvæntist tvisvar. Fyrri kona hans var Hulda Elví og eignuðust þau þrjú börn: Ástu Björk, Helga og Víði Þór, en Víðir lést ungur. Þau hjón skildu eftir 10 ára sambúð. Seinni kona Ragnars var Rósa Halldórsdóttir, f. 13. ágúst 1940, d. 17. ágúst 2021.
Þau giftust í maí 1984 en voru barnlaus.
Útför Ragnars fer fram frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 12. mars 2022, klukkan 13.
Þegar við minnumst Ragnars vinar okkar koma upp í huga margar gamlar minningar frá uppvaxtarárum okkar í Ólafsfirði og skólaárum á Varmalandi. Ragnar var fluttur til Ólafsfjarðar aðeins tveggja daga gamall til ömmu sinnar Guðfinnu Ástu, þar sem hann ólst upp við mikla fátækt í litlu húsi sem stóð við Kirkjuveg, en er löngu horfið. Þetta hús nefndist Leyningur og var Ragnar af heimamönnum ávallt kenndur við það nafn.
Á uppvaxtarárum Ragnars vakti hann athygli okkar strákanna og annarra hve fjölhæfur hann var í öllum leikjum og íþróttum þeirra tíma. Hann er orðinn sextán ára þegar hann missir ömmu sína, þá eftirminnilegu konu. Þá ræður hann sig sem háseta á Norðlending, fyrsta togara sem gerður var út frá Ólafsfirði. Þá hefst sjómannsferill hans. Hann starfaði sem sjómaður mestan hluta ævinnar sem háseti og stýrði á fjölda báta og togara. Síðar gerðist hann útgerðarmaður og skipstjóri á eigin bátum. Um tíma átti hann og rak sendibílastöð í Hafnarfirði. Auk þess kom hann að ýmsum öðrum rekstri. Velgengni og farsæld Ragnars á löngum starfsferli var að þakka dugnaðinum, útsjónarseminni og ábyrgðinni fyrir þeim verkefnum sem hann tók sér fyrir hendur.
Fyrir nokkrum árum ákváðu þau hjón að flytja til Ólafsfjarðar og njóta þar ævikvöldsins, en þá voru þau varla búin að koma sér fyrir þegar Ragnar fékk heilablóðfall, og eftir það mátti hann lifa við mikla fötlun.
Börnum hans sendum við samúðarkveðjur okkar.
Jón Þorvaldsson,
Sigrún Jónsdóttir.