Húsavík Hægt er að kaupa allar helstu byggingavörur og verkfæri ásamt málningu og hreinlætistæki í versluninni Heimamenn.
Húsavík Hægt er að kaupa allar helstu byggingavörur og verkfæri ásamt málningu og hreinlætistæki í versluninni Heimamenn. — Hafþór Hreiðarsson
Byggingarvöruverslunin Heimamenn hefur verið opnuð á Húsavík. Engin slík verslun hefur verið á svæðinu eftir að verslun Húsasmiðjunnar var lokað um áramótin. Brynjar T.

Byggingarvöruverslunin Heimamenn hefur verið opnuð á Húsavík. Engin slík verslun hefur verið á svæðinu eftir að verslun Húsasmiðjunnar var lokað um áramótin. Brynjar T. Baldursson framkvæmdastjóri segir viðtökurnar hafa verið góðar og að grundvöllur sé fyrir verslun sem þessa á Húsavík.

„Það var óánægja með að Húsasmiðjan skyldi hætta með verslunina hér og allt var reynt til þess að snúa ofan af þeirri ákvörðun. Það gekk ekki og menn hér tóku því höndum saman og settu þessa verslun á fót,“ segir Brynjar en að versluninni standa fyrirtækin Steinsteypir, Vermir, Trésmiðjan Rein, Val og Bæjarprýði.

Mikilvægt fyrir samfélagið

„Við gátum ekki hugsað okkur að vera án verslunar sem þessarar en það er mikilvægt fyrir okkur sem störfum í þessum geira að hafa greiðan aðgang að öllum helstu byggingavörum. Annars þyrfti hver verktaki að liggja með gríðarlegan lager af skrúfum og öðrum tólum. Þá getur það einnig verið stórmál að þurfa að fara til Akureyrar eftir skrúfu, nagla eða málningarpensli,“ segir Brynjar sem bendir jafnframt á mikilvægi verslunarinnar fyrir samfélagið í heild.

„Skortur á þjónustu sem þessari getur haft keðjuverkandi áhrif og fólk gæti orðið hikandi við að flytja hingað. Ég tel að samfélagið sé það stórt að það eigi að vera grundvöllur fyrir svona verslun. Við heyrum á fólki hvað það er ánægt með þetta framtak. Það var eilítið hrætt um hvað færi næst,“ segir Brynjar.

mariamargret@mbl.is