Ingvar Pétur Guðbjörnsson
Ingvar Pétur Guðbjörnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Hópurinn er öflugur og listinn sigurstranglegur,“ segir Ingvar Pétur Guðbjörnsson.

„Hópurinn er öflugur og listinn sigurstranglegur,“ segir Ingvar Pétur Guðbjörnsson. Hann varð efstur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Rangárþingi ytra sem haldið var á laugardaginn, fékk alls 219 atkvæði í efsta sæti listans, sem hann sóttist eftir. Ásmundur Friðriksson alþingismaður sem einnig sóttist eftir oddvitasætinu komast ekki á blað í sex efstu sætunum.

Eydís Þorbjörg Indriðadóttir mun skipa annað sætið, en hún fékk 184 atkvæði í 1.-2. sæti. Skv. úrslitum prófkjörsins mun Björk Grétarsdóttir svo skipa 3. sæti, Þröstur Sigurðsson í því fjórða, Svavar Leópold Torfason verður sá 5. og í 6. sæti verður Sóley Margeirsdóttir. Alls tóku 412 þátt í prófkjörinu. Auðir seðlar og ógildir voru 12.

„Verkefnin fram undan í Rangárþingi ytra eru mörg og spennandi. Þar er bygging nýs húsnæðis grunnskólans á Hellu ofarlega á blaði,“ segir Ingvar Pétur. „Svo þarf að setja fókusinn á skipulagsmálin og brjóta ný lönd undir byggingu íbúðarhúsnæðis. Nú erum við farin að nálgast lóðaskort, því mikið hefur verið byggt á Hellu síðustu árin og fólki fjölgað. Úti í dreifbýli sveitarfélagsins, það er Þykkvabæ, Holtum, Landsveit og Rangárvöllum, eru miklir vaxtarmöguleikar. Komin er ljósleiðaratenging heim á alla bæi sem skapar möguleika á fjarvinnu, eins og margir stunda nú og hefur gjörbreytt atvinnumöguleikum.“

Ingvar Pétur Guðbjörnsson, sem er 43 ára að aldri, býr á Hellu og á allar sínar rætur í Rangárþingi ytra. Þar var hann í sveitarstjórnarmálum á árunum 2002-2014. Snýr nú aftur á það svið, eftir að hafa verið síðustu árin í blaðamennsku, aðstoðarmaður ráðherra og síðast upplýsingafulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

„Auðvitað eru þessar niðurstöður mér vonbrigði. Lífið heldur þó áfram; mótið tapast ekki þótt einn leikur farið ekki að vonum,“ segir Ásmundur Friðriksson um niðurstöðuna. „Útkoman úr þessu öllu er sigurstranglegur listi valinn af meira en 400 manns, og svo mikil þátttaka er í raun lýðræðisveisla sem andstæðingum ætti að vera umhugsunarefni.“ sbs@mbl.is