Leikhús Sjálfboðaliðar í Vinnitsíu settu upp sýningu fyrir börn sem eru á flótta, en leiksýningin er byggð upp með sápukúlum.
Leikhús Sjálfboðaliðar í Vinnitsíu settu upp sýningu fyrir börn sem eru á flótta, en leiksýningin er byggð upp með sápukúlum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sunnudagur 13. mars Karine í Karkív Í dag er átjándi dagur innrásar Rússa. Vörn Úkraínu heldur áfram. Óvinurinn skýtur með stórskotaliði og sprengir upp úkraínskar borgir.

Sunnudagur 13. mars

Karine í Karkív

Í dag er átjándi dagur innrásar Rússa. Vörn Úkraínu heldur áfram. Óvinurinn skýtur með stórskotaliði og sprengir upp úkraínskar borgir. Í dag varð vísindabókasafnið í Karkív, nefnt eftir Voldomír Korolenko, fyrir miklum skemmdum eftir stórskotaliðsárás Rússa. Þessi sögulega bygging var reist á árunum 1898-1901 og var hönnuð af þekktum arkitekt að nafni Alexei Beketov, en hann gaf alla vinnu sína við hönnunina sem gjöf til borgarinnar. Sprengingarnar eyðilögðu eða skemmdu meðal annars tvö bókaherbergi, aðalbygginguna og einnig stóran flygil sem var þar og tónskáldið Sergei Rachmaninoff hafði leikið á. Þetta hryggir mig mikið.

En það eru einnig góðar fréttir og í þetta skiptið eru þær af vinkonu minni sem er leikkona við héraðsleikhús Karkív sem nefnt er eftir Sjevsjenkó og hét áður Berezil-leikhúsið. Vinkona mín lét í dag vita að hún væri komin til Leipzig í Þýskalandi, en hún þurfti að hírast í köldum og rökum kjallara hér í mesta sprengjuregninu og fékk í kjölfarið lungnabólgu. Hún fór af stað vestur með lest án peninga og matar og ferðaðist í fjóra daga. Hún fékk bæði mat og lyf frá fólki um borð og loksins komst hún til dóttur sinnar sem býr og starfar í Þýskalandi sem sandlistamaður.

Það eru fleiri tengingar við þetta leikhús, eiginmaður æskuvinkonu minnar er bæði leikstjóri og leikari við leikhúsið. Þessi vinkona mín, eiginmaður hennar og yngsti sonur flúðu til borgarinnar Vinnitsíu. Annar sonur þeirra er svo balletdansari við þjóðleikhúsið hér í Karkív. Þau vörðu fyrstu dögum stríðsins með öðrum starfsmönnum leikhússins í leikmuna- og fatageymslu leikhússins, en geymslan virkaði sem sprengjuskýli. Nú hafa þau komið sér fyrir á heimavist í Vinnitsíu, en á leiðinni þangað gistu þau meðal annars með öðru flóttafólki í bænahúsi. Ég fékk sent myndskeið frá þeim sem sýndi nýja leikhúsuppfærslu sem sjálfboðaliðar í Vinnitsíu gerðu fyrir börn sem voru á flótta, en leiksýningin er byggð upp með sápukúlum.

Í kvöld fékk ég einnig skilaboð frá annarri vinkonu minni sem býr í Irpin. Við höfðum ekki heyrt í henni í nokkra daga og vorum orðin áhyggjufull um afdrif þeirra. Sem betur fer höfðu þau náð að flýja borgina. Í fyrri innrás Rússa árið 2014 flúðu þau frá borginni Donetsk og bjuggu meðal annars í nokkra daga í Karkví. Nú eru þau svo aftur komin á flótta. En aðalatriðið er að þau eru á lífi.