Þorvaldur Þorgrímsson fæddist á Raufarfelli undir Eyjafjöllum þann 19. nóvember 1925. Hann lést á Hrafnistu í Hafnarfirði þann 28. febrúar 2022. Foreldrar hans voru Þorgrímur Þorvaldsson, f. 23. nóvember 1886 í Brennu undir Eyjafjöllum, og Guðfinna Runólfsdóttir, f. 26. janúar 1883 í Hörgslandskoti á Síðu. Systur Þorvaldar voru Jónína Guðný, f. 9. mars 1913, Guðrún, f. 6. nóvember 1916, og Kristín Lilja, f. 17. nóvember 1919. Þær eru allar látnar.

Árið 1952 giftist Þorvaldur Valgerði Bjarnadóttur, f. 9. september 1927 í Þorkelsgerði í Selvogi. Foreldrar hennar voru Þórunn Friðriksdóttir ljósmóðir, f. 1889 í Hlíð í Selvogi, og Bjarni Jónsson, f. 1877 á Þorgrímsstöðum í Ölfusi.

Börn Þorvaldar og Valgerðar eru: 1) Guðni Þorgrímur, f. 23. mars 1952. 2) Guðfinna Hulda, f. 9. ágúst 1953. Fyrrverandi maki Guðmundur Þorsteinn Veturliðason, f. 1949. Þau eiga þrjú börn. 3) Bjarni, f. 18. nóvember 1954. Maki Erna Friðriksdóttir, f. 1957. Þau eiga fjögur börn. 4) Hans Hafsteinn, f. 25. ágúst 1959. Fyrrverandi maki Fanný Kristín Tryggvadóttir, f. 1967. Þau eignuðust fjögur börn og fyrir átti Hans tvo syni. Valgerður á einnig dótturina Árnýju Svölu Gunnarsdóttur, f. 23. maí 1948. Maki Jørn Erik Larsen, f. 1949. Þau eiga þrjú börn. Alls eru afkomendur Þorvaldar og Valgerðar orðnir 41.

Þorvaldur ólst upp á Raufarfelli. Hann gekk í farskóla í fjóra vetur, frá 10 ára aldri að fermingu. Hann var nokkrar vertíðir í Vestmannaeyjum en heima á Raufarfelli þess á milli. Haustið 1945 byrjaði hann í Mótorskólanum í Vestmannaeyjum og lauk sveinsprófi í vélvirkjun 1949. Hann vann við vélaviðgerðir og járnsmíði í Vestmannaeyjum, á Selfossi en lengst í Hafnarfirði. Hann snéri aftur á heimaslóðir 1970 og gerðist bóndi á Raufarfelli en sinnti jafnframt sinni iðn með búskapnum.

Útförin fer fram í Hafnarfjarðarkirkju í dag, 14. mars 2022, klukkan 13.

Einn skemmtilegur þáttur í lífi og starfi pabba var hug- og verkvit hans sem ég varð vitni að í löngu samstarfi okkar. Margt hefur vakið furðu mína á uppfinningasemi hans gegnum tíðina. Hann og mamma byggðu hús í Hafnarfirði 1954, steinsteypt, glæsilegt upp á þrjár hæðir sem var þrekvirki fyrir ungu hjónin úr sveitinni með börnin sín á þeim tíma. En þegar kom að því að mála þakið á þessu háreista glæsilega húsi var málningarfötubrölt fyrirsjáanlegt og ekki árennilegt á snarbröttu þakinu. Smíðaði þá pabbi loftknúna dælu sem flutti þakmálninguna í gegnum plastslöngu upp í málningarrúlluna og þurfti þá aldrei að bera fötur upp á þak eða dýfa rúllu í málningarbakka. Málningin draup yfir alla rúlluna í hæfilegu magni og svo var bara að rúlla. Eitt af því sem pabbi tók sér fyrir hendur í sveitinni var að unga út hænueggjum. Pabbi fékk hænuegg hjá Kiddu frænku okkar í Skógum og setti þau undir ljósaperu til að unga þeim út. Það þurfti reglulega að snúa eggjunum til að ungarnir dræpust ekki í þeim en það gat nú farist fyrir í öllum önnunum í sveitinni. Þá smíðaði pabbi kassa með röð af keflum sem gátu snúist og tengdi þau saman með keðju eða reim þannig að þegar fyrsta keflinu var snúið snérust öll hin líka. Raðaði hann svo eggjunum milli allra keflanna, setti lítið skrall á fyrsta keflið og tengdi einhvern veginn vatn úr krananum við skrallið og þegar þrýstingur eða þungi vatnsins var nógur snéri hann skrallinu um eina eða tvær tennur og öll keflin snérust örlítið og eggin með. Þetta er dæmi um skemmtilegt uppátæki en flest það sem pabbi tók sér fyrir hendur í þessum efnum var til að minnka vinnustreð og búa í haginn fyrir sem flesta.

Hann smíðaði hliðgrindur, bæði gönguhlið og aksturshlið, allskyns króka og verkfæri til að létta mönnum störf sín. Þá má nefna viðgerðir á bílum, dráttarvélum og öðrum landbúnaðartækjum og allskyns viðgerðir á misslitnu véladóti til sjós og lands og alltaf var þessi sköpunarþrá fyrir hendi til að færa hlutina í betra horf. Eitt sinn keypti hann gamlan Ferguson '56 með frostsprungna blokk og sauð, með aðstoð Heiðars frænda síns, í lófastórt gat á blokkinni. Það þurfti að rífa alla vélina í sundur og setja saman aftur, og til þess þurfti kjark og dugnað en vélin var fín á eftir og gengur enn í dag fimmtíu árum eftir viðgerðina.

Þá hafði hann forgöngu um að bora eftir heitu vatni á Raufarfelli og sex bæir njóta góðs af því. Ég læt hér staðar numið þótt margt annað mætti nefna en Davíð Stefánsson leggur mér til eitt erindi úr kvæði sínu „Höfðingi smiðjunnar“ sem mér finnst vel við hæfi.

Takk fyrir allt elsku pabbi minn.

Höndin, sem hamrinum lyftir,

er hafin af innri þörf,

af líknsamri lund, sem þráir

að létta annarra störf.

Sá fagri framtíðardraumur

er falinn í verkum hans,

að óbornir njóti orku

hins ókunna verkamanns.

Hans Hafsteinn

Þorvaldsson.

Faðir minn, Þorvaldur Þorgrímsson, fæddist inn í gamla bændasamfélagið undir Eyjafjöllum og ólst þar upp í torfbæ. Þá var matur enn eldaður á hlóðum, tún slegin með orfi og ljá og hestar nýttir til reiðar, burðar og dráttar. En það hillti undir nýja tíma, vélaöldin var að hefja innreið sína til sjávar og sveita. Við sjóinn tóku að byggjast upp þorp og bæir sem drógu til sín ungt fólk úr sveitunum. Þó svo að pabbi væri áhugasamur um búskap þá hneigðist hugurinn einnig til smíða og vélaviðgerða. Þar koma m.a. til áhrif frá föður hans sem vann mikið við smíðar í sveitinni samhliða búskapnum. Árið 1945 hóf hann nám við mótorskólann í Vestmannaeyjum og lauk sveinsprófi 1949. Vélsmíði og vélaviðgerðir urðu í framhaldi af þessu hans helsta lifibrauð, einnig eftir að hann flutti aftur í sveitina sína og gerðist bóndi. Það var mikið gæfuspor í hans lífi þegar hann kynntist mömmu, sveitastúlku úr Árnessýslu. Þau voru dugleg og samstíga í lífinu og höfðu bæði þægilega og létta lund. Það var stundum sagt að hestar sem svitnuðu saman strykju ekki hvor frá öðrum. Þetta mætti yfirfæra á mannfólkið. Foreldrar mínir fylgdust að í rúm 70 ár, svitnuðu saman og glöddust saman. Sameiginleg glíma við áskoranir lífsins getur treyst bönd á milli fólks þó svo að fleira þurfi til. Pabbi var félagslyndur, gamansamur og kunni margar vísur og sögur og þekkti mjög margt fólk. Hann hafði gaman af hestum og hrossarækt og átti lengi hesta. Ég held að félagsskapurinn í kringum hrossin hafi verið honum allt eins mikilvægur og hestarnir sjálfir. Hann hafði einnig gaman af því að spila á spil og spilaði bridds meðan heilsan leyfði. Einnig þar held ég að samvera með fólki hafi skipt miklu, ekki bara spilið sem slíkt. Foreldrar mínir stofnuðu sitt fyrsta heimili í Hafnarfirði og þar fæddust flest börnin. Þau bundust þessum bæ svo sterkum böndum að þau ákváðu að eiga þar sinn hvílustað þegar komið væri að leiðarlokum. Eigi að síður báru þau einnig sterkar taugar til sinna átthaga. En þetta mun ekki óalgengt að fólk tengist fyrsta heimilinu og fæðingarstað barnanna á sérstakan hátt. Ég vil þakka pabba langa og góða samfylgd og gott veganesti út í lífið.

Guðni Þorvaldsson.

Mig langar að minnast afa míns með nokkrum orðum. Afi var nálægur í barnæsku minni, oft var ég í góðu atlæti hjá honum og ömmu á Köldukinninni en ekki síður hjá þeim í sveitinni undir Eyjafjöllum. Þar fengum við barnabörnin mikið frelsi til að leika og voru alls engar kvaðir á okkur.

Ég kynnist afa og ömmu síðar enn betur þegar ég bjó með þeim nokkur sumur í sveitinni þegar ég vann á Skógum og ekki síður þegar við systkinin fluttum með fjölskyldum okkar, ásamt ömmu og afa, í heilan stigagang í Brekkuási. Þar sá ég vel hversu samstíga amma og afi voru og hvað fjölskyldan skipti þau miklu máli því allir voru alltaf velkomnir til þeirra og þau ávallt tilbúin að hjálpa til.

Það var ótrúlega gaman að fylgjast með afa og vera í samneyti við hann. Afi var mjög félagslyndur og vildi alltaf vera að heimsækja fólkið sitt, fylgjast með vinnu og framkvæmdum, spila og lagfæra hluti. Mér er minnisstætt þegar afi var með hugmynd að mengunarvörnum fyrir sorpbrennslur sem hann var búinn að láta teikna upp fyrir sig og bað mig um aðstoð við að semja bréf og senda á ýmis sveitarfélög. Eins var skemmtilegt að fylgjast með ákafanum, vinnuseminni og hugmyndunum sem komu upp hjá honum þegar hann og amma voru að koma sér fyrir í nýrri íbúð, þá á níræðisaldri. Var krafturinn í honum síst minni en hjá okkur hinum.

En umfram allt þá hugsaði afi um fjölskylduna sína og var ákaflega annt um velferð hennar. Var honum tíðrætt um hve ánægður hann væri með afkomendur sína og að allt væri þetta nú svo skemmtilegt fólk. Ég er þakklátur fyrir allar góðu minningarnar sem ég á um hann afa og það er með sorg og söknuði sem ég kveð hann í dag.

Árni Sverrir Bjarnason.

Þá er elsku afi Þorvaldur farinn yfir í Sumarlandið. Mig langar til að minnast hans í örfáum orðum. Mínar helstu minningar um afa tengjast sveitinni, Raufarfelli undir Eyjafjöllum. Ég kom oft til þeirra ömmu og afa með rútunni úr bænum. Þá beið afi eftir mér í sjoppunni í Steinum og tók á móti mér. Það var alltaf þægilegt andrúmsloft að koma til þeirra, afi var glettinn og gamansamur og kunni endalaust af sögum og vísum. Það var gaman að spjalla við hann um allt milli himins og jarðar. Hann hafði afar gaman af skepnum og var alltaf rólegur og góður við dýrin. Afi var mikill hugvitsmaður og það var gaman að skoða það sem hann hafði smíðað, t.d. heimasmíðaða útungunarvélin, fræniðursetjaratólið og hitt og þetta sem hann brallaði í skúrnum. Eitt af því sem er minnisstætt um afa er hvað hann var ánægður með fólkið sitt sem hann talaði oft um hálfklökkur. Einnig var yndislegt að heyra hvað hann talaði fallega um ömmu og hrósaði henni fyrir allt sem hún gerði.

Takk fyrir allar yndislegu minningarnar elsku afi minn.

Sigrún Bjarnadóttir.

Í dag kveð ég með miklum söknuði afa minn. Fjölskylda mín og ég höfum verið svo lánsöm að búa í nábýli við afa og ömmu stærstan hluta lífs míns. Fyrst á Köldukinn og svo í seinni tíð í Brekkuási þar sem börnin mín nutu þeirra forréttinda að fara upp til langömmu og langafa, eða „gamla“ eins og börnin mín kölluðu alltaf afa.

Afi var engum líkur, umhugað um velferð allra, uppfinningamaður, spilakall og svo í seinni tíð fór hann að fara með alls kyns vísur sem hann hafði lært sem barn og ungur maður, okkur til mikillar skemmtunar. Afa var líka umhugað um rétt barna til þess að fá að vera börn og leika sér því nægur var tíminn til að vinna í framtíðinni.

Afi var afskaplega þakklátur fyrir það mikla lán sem honum hafði hlotnast í lífinu. Þar var amma mín miðpunkturinn ásamt fjölskyldunni og öllum þeirra afkomendum. Afi hafði oft orð á því hversu mikið lán það væri að allir afkomendur þeirra væru við svo góða heilsu en ekki síst hversu skemmtilegir allir væru, enginn með einhver leiðindi. Hin sönnu verðmæti voru svo sannarlega fólkið hans sem honum var svo annt um.

Það er með þakklæti en á sama tíma með miklum söknuði sem ég kveð afa minn í dag.

Valgerður Þórunn og fjölskylda.

Valdi afi var sérstaklega góðhjartaður og umhyggjusamur maður. Hann var ávallt einlægur, trúr, traustur og heiðarlegur. Við sáum hann aldrei reiðast og aldrei heyrðum við hann hallmæla nokkrum manni. Hann hafði hesta, kindur og hænur í sveitinni undir Eyjafjöllum, eða „fyrir austan“ eins og það var kallað. Þegar við vorum yngri heimsóttum við oft Valda afa og Völu ömmu í sveitina, sem var sannkallaður undraheimur fyrir okkur borgarbörnin. Öllum var vel tekið og aldrei skortur á mat eða nammi. Sveitin var griðastaður þangað sem áhyggjur, hættur og harmar heimsins náðu ekki til. Þar þutum við út um hvippinn og hvappinn. Klöngruðumst upp hlíðar og skriður fjallsins, inn í fjárhúsin, ofan í lækina, við veiddum silunga í ánni, fýla með kylfu og urðum vot í fæturna niðri á mýri.

Afi var skarpur og handlaginn. Það má með sanni kalla hann uppfinningamann. Hann hannaði og smíðaði allt frá sérhæfðri sáðvél fyrir matjurtagarðinn hennar ömmu, málningarrúllu með innbyggðri málningardælu, svo hægt var að mála húsið, stillansalaust, á methraða, vatnsknúna útungunarvél sem hélt jöfnum hita á hænueggjum svo þau gætu klakist út vandræðalaust. Þessi sköpunargleði veitir okkur enn innblástur og þegar tekist er á við ný og skapandi verkefni finnst þar hvatning og drifkraftur. Hann var gjafmildur og þegar komið var í heimsókn var hann fljótur að bjóða upp á nammi eða appelsín.

Hann var svolítill grallari. Það er minnisstætt þegar við vorum á stóru ættarmóti og um kvöldið var kveikt í myndarlegum bálkesti sem logaði glatt. Skyndilega birtist afi með olíu í fötu, sem hann skvetti á bálið með tilheyrandi eldglæringum. Þessu hélt hann áfram meðan leið á kvöldið, krökkunum til ómældrar kátínu.

Hann fór stundum á traktornum niður á mýri, en þá var oft einhver tekinn með, vegurinn var ósléttur svo að við köstuðumst til og frá eins og skopparabolti inni í traktornum.

Þrátt fyrir kynslóðabilið þá var afi skemmtilegur. Hann hafði ekki mikið vit á Star Wars eða Marvel, en hann kunni ógrynnin öll af gátum, vísum og ljóðum sem hann skemmti okkur með, þó við gleymdum þeim yfirleitt jafnóðum. Hann var tenging okkar við heim sem er núna nánast horfinn með öllu.

Undir lokin fór minnið hans afa að verða gloppótt. Eitt sinn heimsóttum við hann, en þá þekkti hann okkur ekki. Pabbi útskýrði það, en þá varð afi hugsi. Svo spurði hann „Og er þetta gott fólk?“

Það sem skipti hann máli var ekki hvort að afkomendurnir væri ríkir, áhrifamiklir eða merkilegir. Það sem skipti hann máli var að við værum gott fólk.

Hann er fyrirmynd okkar þegar kemur að reglusemi, virðingu fyrir öðru fólki, dugnaði og vinnusemi. Hann sýndi með fordæmi hvernig á að ganga beint til verks, vera ósérhlífinn og duglegur. Við munum halda minningu hans á lofti með framkomu okkar og ástinni sem við sýnum fjölskyldunni.

Theódór, Áki, Sólveig, Þorvaldur og Tryggvi.