Guðjón Kristinn Pálsson fæddist 3. október 1924. Hann lést 14. febrúar 2022.

Útförin fór fram 22. febrúar 2022.

Nú er komið að kveðjustund og minningarnar streyma.

Ég sit hérna og hugsa með mér hvernig á ég að velja úr öllum þeim minningum sem ég á um tengdaföður minn, Guðjón Kristin Pálsson.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Guðna, litla stráknum hans Guðjóns, á vormánuðum 1983, þá aðeins 15 ára gömul.

Við kærustuparið gátum ekki vitað þá að 39 árum seinna værum við harðgift og ættum þrjá syni, þrjár tengdadætur og fimm barnabörn.

Við bjuggum í Hveragerði í miklu samneyti við tengdaforeldra mína Guðjón og Sigríði. Það var Guðjóni mikið áfall þegar hún féll frá 2002.

Guðjón var Skaftfellingur og hafði frá mörgu að segja. Hann hafði upplifað ótrúlega miklar breytingar á landi og þjóð. Hann var bókhneigður og sagnamaður, og hafði einstakt lag á að gæða sögur og minningar frá æskuárum sínum lífi fyrir þá sem vildu hlusta, hvort sem það voru fullorðnir eða börn.

Guðjón var ekki bara tengdafaðir minn, við vorum líka ákaflega góðir vinir og mig langar að kveðja hann með þessu fallega ljóði eftir Sigurbjörn Einarsson.

Blómin falla, fölskva slær

á flestan ljóma.

Aldrei hverfur

angan sumra blóma.

Þannig varstu vinur, mér

sem vorið bjarta.

Það sem gafstu

geymist mér í hjarta.

Ilma sprotar, anga lauf,

sem aldrei falla.

Drottinn launi

elskuna þína alla.

(Sigurbjörn Einarsson)

Þín tengdadóttir,

Ebba Ólafía Ásgeirsdóttir.

Guðjón frændi.

Man það eins og það hefði gerst í gær þegar Óskar vinur minn segir við mig „förum til gamla mannsins hann er svo skemmtilegur,“ svo bankar hann upp á hjá þér, og ég eins og alltaf með húfu og lítandi út eins og strákur og þú sagðir „já komið þið inn elsku drengir,“ og ég svaraði þér fullum hálsi eins og þú sagðir alltaf, „ég er stelpa“. Þú hlóst bara og gafst okkur ís, svo byrjaðir þú að spyrja mig hverra manna ég væri og kom svo í ljós að þú varst frændi minn. Ég er alla daga þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér og hef alltaf hugsað um þig sem besta vin minn þegar ég var að alast upp. Man eftir að sitja hjá þér meðan þú varst að stússast í garðinum, þú kenndir mér að tálga og leyfðir mér að tálga eins mikið af spýtum og ég gat. Svo kom ég oftast til þín þegar ég meiddi mig, ég er enn þá með ör eftir að vera að leika mér í garðinum hjá þér.

Þú kenndir mér meðal annars að tefla og kom það að góðum notum þegar ég varð í öðru sæti á skólamóti þökk sé þér, þú kenndir mér svo margt og varst alltaf svo góður við mig. Ég hef oft hugsað til þín eftir að við fluttum frá Hveragerði og að ég hafði kíkt á þig.

Hvíldu í friði elsku frændi.

Elísabet C. Marteinsdóttir.