Siggeir Ingólfsson fæddist 17. september 1952. Hann lést 4. mars 2022.

Útför hans fór fram 11. mars 2022.

Mig langar að minnast með nokkrum orðum hans Geira frænda. Hann bjó fyrst að Syðra-Seli en seinna Efra-Seli á Stokkseyri. Við áttum bústað stutt frá kallaður Brún og vorum þar sumarlangt. Þegar ég hugsa til baka þá vorum við flesta daga á Seli við leik og störf. Þar var Geiri frændi allt í öllu. Eitt var það sem honum fannst gaman en það var að setjast undir stýri á bílum og þykjast vera að keyra. Pabbi átti fallegan bíl, Chervolet 55, og um leið og við renndum í hlaðið kom Geiri og settist við stýrið.

Við lékum okkur í alls konar leikjum, áttum fallegt bú með leggjum og alla tíð var gestkvæmt á Seli. Eitt var það sem okkur þótti gaman var að leika úti í hlöðu, sveifla okkur í köðlum og detta ofan í heyið. Geiri frændi var fyrirmynd mín og sá sem ég leit upp til, alltaf áræðinn og kraftmikill.

Seinna hittumst við í Reykjavík og rifjuðum upp góðar stundir og man ég hvað það var gaman að hlusta á Geira segja alls konar sögur. Þessi gáfa, sagnagáfan, kom sé vel í leiðsögustarfinu og einu sinni gekk hann með okkur um Stokkseyri og sagði ýmsar sögur af fólki og húsum. Þessi hæfileiki að segja sögur og geta smíðað og gert við kom sér aldeilis vel þegar hann tók við Stað á Eyrarbakka. Man eftir einni sögu frá honum, eitt sinn þegar hann kom til ömmu á Vegamótum og sagði: Amma, mér er kalt á fótunum. Þá sagði amma: Hvað er þetta, ertu ekki með neitt á höfðinu? Þá skildi hann að það að hafa eitthvað á höfðinu skipti öllu máli við að halda hita og verða ekki kalt. Við munum eftir honum með hattinn.

Þegar Regína kom inn í líf Geira þá var það gæfa beggja. Yndislegt að koma til þeirra á Eyrarbakka. Bæði svo flink og miklir listamenn, Regína með galleríið sitt.

Geiri frændi var mjög félagslyndur og tók þátt í alls konar félagsskap m.a hrútavinafélaginu, merkilegum félagsskap.

Það skiptast á skin og skúrir í lífinu og fékk Geiri að reyna það meir en margir. Ótrúleg seigla og æðruleysi kom honum í gegnum þá marga.

Langar að lokum að minnast hans með þakklæti fyrir allar góðar stundir og vináttu alla tíð.

Elsku Ella, Stína, Sigga og fjölskyldur, ég sendi ykkur innilegar samúðarkveðjur.

Hver minning dýrmæt perla að

liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug

þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem

gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að

kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Katrín Þorsteinsdóttir.