Valsmenn Valur vann fjögurra marka sigur, 36:32, á KA í úrslitaleik í karlaflokki eftir að KA hafði verið með tveggja marka forystu í hálfleik.
Valsmenn Valur vann fjögurra marka sigur, 36:32, á KA í úrslitaleik í karlaflokki eftir að KA hafði verið með tveggja marka forystu í hálfleik. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bikarúrslit Aron Elvar Finnsson aronelvar@mbl.is Á laugardag varð Valur tvöfaldur bikarmeistari í handbolta eftir sigra gegn Fram og KA í Coca Cola-bikar kvenna og karla.

Bikarúrslit

Aron Elvar Finnsson

aronelvar@mbl.is

Á laugardag varð Valur tvöfaldur bikarmeistari í handbolta eftir sigra gegn Fram og KA í Coca Cola-bikar kvenna og karla. Þetta var tíundi bikarmeistaratitill félagsins í karlaflokki og sá áttundi í kvennaflokki.

Fyrst áttust við Valur og Fram í kvennaflokki en sá leikur var hnífjafn allt þar til Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals tók leikhlé í upphafi síðari hálfleiks. Eftir það komu fjögur mörk í röð frá Valskonum sem sigldu nokkuð öruggum 25:19 sigri í höfn.

Lovísa Thompson dró vagninn fyrir Val en hún skoraði 10 mörk í leiknum. Thea Imani Sturludóttir kom næst með sex mörk og Hildigunnur Einarsdóttir lék mjög vel í miðri vörn liðsins. Fram fékk ekki nægilega mikið framlag frá lykilmönnum sínum sem varð þeim að falli. Ragnheiður Júlíusdóttir og Steinunn Björnsdóttir gátu ekki leikið með vegna veikinda og meiðsla og svo fékk Emma Olsson að líta rauða spjaldið fyrir ásetningsbrot. Það gerist ekki oft að þetta frábæra Framlið skori minna en 20 mörk í leik og segir það ýmislegt um leik helgarinnar.

Seinna um daginn mættust svo Valur og KA karlamegin. Um 1.500 manns mættu í stúkuna og þar af var rúmlega helmingur KA-megin. Stuðningurinn sem bæði lið fengu var til háborinnar fyrirmyndar og kom ekki á óvart að leikmenn og þjálfarar hafi minnst sérstaklega á hann í viðtölum eftir leik.

KA byrjaði leikinn af miklum krafti með reynsluboltann Ólaf Gústafsson í fararbroddi. Hann dró vagninn fyrir sína menn sem leiddu með tveimur mörkum í hálfleik. Valur kom þó sterkari inn í síðari hálfleik og jafnaði fljótt. Leikurinn var í járnum allt fram á síðustu sekúndurnar en Valur skoraði tvö mörk í restina þegar leikurinn var svo gott sem búinn og gefur því lokaniðurstaðan ekki alveg rétta mynd af gangi leiksins. Magnús Óli Magnússon reyndist sínum mönnum heldur betur dýrmætur en hann steig upp þegar þörfin var mest og skoraði mikilvæg mörk ásamt því að fiska víti. Svo fór að Hlíðarenda-piltar unnu 36:32 sigur þar sem Vignir Stefánsson endaði sem markahæsti maður Vals með 8 mörk.

Úrslitavikan í heild sinni var frábær auglýsing fyrir íþróttina en stemningin sem myndaðist í kringum leikina var til fyrirmyndar. Lovísa Thompson og Arnór Snær Óskarsson úr Val voru valin mikilvægustu leikmenn úrslitavikunnar en þau voru bæði vel að því komin. Lovísa skoraði eins og áður sagði 10 mörk í úrslitaleiknum og Arnór skoraði 13 mörk í undanúrslitaleiknum gegn FH.