Kast Elísabet Rut Rúnarsdóttir hafnaði í þriðja sæti í Leiria í gær.
Kast Elísabet Rut Rúnarsdóttir hafnaði í þriðja sæti í Leiria í gær. — Ljósmynd/Þórir Tryggvason
Frjálsíþróttakonan Elísabet Rut Rúnarsdóttir hafnaði í þriðja sæti í sleggjukasti á Evrópukastmóti U23-ára í Leiria í Portúgal í gær og vann þar með til bronsverðlauna. Elísabet Rut, sem er aðeins 19 ára gömul, kastaði sleggjunni lengst 64,2 metra.

Frjálsíþróttakonan Elísabet Rut Rúnarsdóttir hafnaði í þriðja sæti í sleggjukasti á Evrópukastmóti U23-ára í Leiria í Portúgal í gær og vann þar með til bronsverðlauna. Elísabet Rut, sem er aðeins 19 ára gömul, kastaði sleggjunni lengst 64,2 metra. Hún komst því nálægt eigin Íslandsmeti í greininni, sem er 64,39 metrar.

Guðni Valur Guðnason hafnaði í fjórða sæti í kringlukasti í fullorðinsflokki. Guðni kastaði lengst 62,50 metra og var nokkuð frá sínu besta en Íslandsmet Guðna í greininni er 69,35 metrar. Daniel Ståhl frá Svíþjóð varð annar með 65,95 metra kast og landi hans Simon Pettersson þriðji með 63,80 metra. Eru Svíarnir lærisveinar Vésteins Hafsteinssonar þjálfara.

Hilmar Örn Jónsson hafnaði í öðru sæti í B-hópi í sleggjukasti með kast upp á 72,51 metra. Íslandsmet hans í greininni er 77,10 metrar. Bence Halász frá Ungverjalandi kastaði lengst í A-hópnum eða 76,69 metra.

Mímir Sigurðsson keppti í B-flokki í kringlukasti og kastaði lengst 55,52 metra og var með þriðja lengsta kastið í B-flokknum. Besti árangur Mímis er 60,32 metrar.