Í Vesturheimi Íslendingar fóru víða. Jónas Þór við gröf Lárusar Bjarnasonar úr Dalasýslu í kirkjugarði í Nebraska í Bandaríkjunum.
Í Vesturheimi Íslendingar fóru víða. Jónas Þór við gröf Lárusar Bjarnasonar úr Dalasýslu í kirkjugarði í Nebraska í Bandaríkjunum.
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Næsti fræðslufundur Þjóðræknisfélags Íslendinga verður haldinn í húsnæði utanríkisráðuneytisins á Rauðarárstíg á morgun og hefst hann klukkan 17.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Næsti fræðslufundur Þjóðræknisfélags Íslendinga verður haldinn í húsnæði utanríkisráðuneytisins á Rauðarárstíg á morgun og hefst hann klukkan 17. Þá kynnir Jónas Þór sagnfræðingur vefsíðu sína um íslenskt landnám í Vesturheimi ( www.vesturfarar.is ).

Til stendur að opna vefsíðuna formlega á miðvikudag en Jónas hefur unnið að henni í um fimm ár. „Ég fékk reyndar bakteríuna, þegar ég byrjaði í MA-námi við Manitoba-háskóla í Winnipeg fyrir um 45 árum og hef safnað að mér gögnum um málefnið síðan.“

Fyrirtækið Ísbjarmi ehf., sem Jónas stofnaði vegna verkefnisins, heldur utan um vefinn, sem verður hýstur í Hákóla Íslands og til stendur að Jónas vinni þar við hann. „Ég hef fengið styrk frá Eimskipafélagi Íslands og þar með er tryggt fjármagn til þess að opna vefinn, en opinn landsaðgangur skiptir miklu máli,“ segir hann.

Frásagnir vel þegnar

Jón Hjaltason, sagnfræðingur á Akureyri, skrifar um Ísland á 19. öld og upphafsár 20. aldar. Hópur fólks í Bandaríkjunum og Kanada hefur líka unnið með Jónasi að gagnaöflun. Þar á meðal er Harvey Thorleifson, fæddur í Baldur í Manitoba í Kanada, prófessor í jarðfræði við Minnesota-háskóla í Minneapolis í Bandaríkjunum og fyrrverandi formaður Íslendingafélagsins í borginni. „Hann ætlar að skrifa fyrir mig jarðsögu allra svæðanna,“ upplýsir Jónas og bætir við að þar komi til dæmis fram hvers vegna landræman við Winnipegvatn, þar sem Íslendingar settust að, hafi verið dauðadæmd fyrir bændur. „Hefðu menn, sem settust að þar sem heitir Nýja Ísland, getað lesið það sem hann skrifar hefðu þeir eflaust farið annað.“

Jónas segist hafa skráð rúmlega 19.000 nöfn fólks sem flutti til Vesturheims 1854 til 1920. „Börn eru meðtalin, bæði þau sem fædd voru á Íslandi og í Vesturheimi.“ Upplýsingarnar snúist um hvers vegna ákveðnir staðir voru valdir til búsetu og saga fólksins á hverjum stað er sögð. „Ég lýsi líka byggðunum enda snýst þetta um fólkið og byggðir þess í Vesturheimi.“

Hver einstaklingur hefur eigið spjald í kerfinu og nafn hans er einfaldlega slegið inn til þess að fá upplýsingar um hann. „Ég set inn myndir eins og ég get, kort og fleira.“ Hann segir að margir hafi grúskað í sögunni og víða séu til óbirtar upplýsingar. „Þetta er „lifandi“ vefur og ég tek við öllum ábendingum um villur auk þess sem gaman væri að fá sent áður óbirt efni til að bæta við frásögnina,“ heldur Jónas áfram. Hann segir að oft stangist heimildir á um menn og málefni og hann hafi sett inn það sem honum sýnist hafa verið trúverðugast. „Ég fagna öllu framlagi fólks, tillögum og hugmyndum,“ áréttar hann.