[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðbjörg Magnea Matthíasdóttir fæddist 14. mars árið 1952 í Reykjavík. Hún ólst upp í Bústaðahverfinu, gekk í Breiðagerðisskóla og síðan í Réttarholtsskóla.

Guðbjörg Magnea Matthíasdóttir fæddist 14. mars árið 1952 í Reykjavík. Hún ólst upp í Bústaðahverfinu, gekk í Breiðagerðisskóla og síðan í Réttarholtsskóla. Þaðan lá leiðin í Verzlunarskóla Íslands og lauk Guðbjörg síðan prófi frá Kennaraháskólanum árið 1976. Það ár flutti hún til Vestmannaeyja með eiginmanni sínum, Sigurði Einarssyni lögfræðingi og athafnamanni. Sigurður tók þá við forstjórastöðu hjá Hraðfrystistöð Vestmannaeyja hf., sem árið 1992 sameinaðist Ísfélagi Vestmannaeyja hf. og er í dag eitt af stærstu og öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins og jafnframt það elsta eða 120 ára. Ísfélagið er með höfuðstöðvar í Vestmannaeyjum, en er jafnframt með umfangsmikinn rekstur á Þórshöfn á Langanesi. Þangað á Guðbjörg einnig ættir að rekja. Ísfélag Vestmannaeyja er og hefur verið hornsteinn bæjarfélagsins, sem tekur hlutverk sitt af ábyrgð, ekki einungis því sem snýr að atvinnulífinu heldur einnig hvað varðar umhverfisþætti og nýsköpun. Ein af lykilforsendum farsældar félagsins er sú að þegar á reynir stendur samfélagið þétt saman.

Guðbjörg starfaði sem kennari við Grunnskólann í Vestmannaeyjum í 25 ár. Eiginmaður Guðbjargar, Sigurður, lést af völdum krabbameins haustið 2000, tæplega fimmtugur að aldri, og tók þá Guðbjörg sæti í stjórnum þeirra félaga sem fjölskyldan var áhrifamikil í. Hún hefur síðan setið í stjórn Ísfélagsins og átti enn fremur sæti í stjórn Tryggingamiðstöðvarinnar þar til hlutur fjölskyldunnar í því félagi var seldur árið 2008. Guðbjörg á jafnframt sæti í stjórnum Fastusar og Kaaber-Ísam sem nýlega tók til starfa eftir sameiningu ÍSAM og O. Johnson & Kaaber. Guðbjörg hefur árum saman sinnt margvíslegum félögum og samtökum, einkum í Vestmannaeyjum. Hún var ritari í sóknarnefnd Ofanleitissóknar Landakirkju í 26 ár. Hún á sæti í fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum og var formaður Sjálfstæðiskvennafélagsins Eyglóar í níu ár. Hún er félagi í Oddfellow-reglunni og enn fremur í KIS, Konur í sjávarútvegi, og FKA, Félagi kvenna í atvinnulífinu, og hlaut hún viðurkenningu FKA árið 2015.

„Það sem gleður mig mest í dag eru samverustundir með yndislegum barnabörnum mínum, en þau eru orðin átta og von er á því níunda á allra næstu dögum. Það veitir mér óendanlega gleði að horfa á þau þroskast, vaxa og dafna. Ég hef áhuga á myndlist, nýt þess að sækja tónleika og spila golf. Ég er svo lánsöm að búa við einn besta golfvöll í heimi. Golfvöllurinn í Vestmannaeyjum er staðsettur í einstakri náttúru og það er ógleymanleg upplifun fyrir alla golfara að spila þar.“

Fjölskylda

Eiginmaður Guðbjargar var Sigurður Einarsson, lögfræðingur og útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, f. 1.11. 1950, d. 4.10. 2000. Foreldrar hans eru Einar Sigurðsson, f. 7.2. 1906, d. 22.3. 1977, og Svava Ágústsdóttir, f. 24.7. 1921, d. 30.11. 1978. Þau bjuggu í Vestmannaeyjum og síðar í Reykjavík. Börn Guðbjargar og Sigurðar eru 1) Einar, f. 23.8. 1977, kvæntur Völu Pálsdóttur, f. 5.7. 1975. Þau eiga börnin Sigurð, Pál Gústaf og Margréti Kristínu. 2) Sigurður, f. 11.3. 1979. Hann á dótturina Birtu Sól. 3) Magnús, f. 5.9. 1985, í sambúð með Bylgju Sig. Valsdóttur, f. 11.2. 1993. Þeirra börn eru Sigurður Bogi og Magnús Úlfur. 4) Kristinn, f. 4.4. 1989. Hann er í sambúð með Maren Sól Benediktsdóttur, f. 10.7. 1993, og þau eiga börnin Guðbjörgu Magneu og Einar. Systkini Guðbjargar eru 1) Einar, byggingafræðingur í Reykjavík, f. 13.2. 1947; 2) Margrét, kennari í Reykjavík, f. 31.10. 1950; 3) Svandís, hjúkrunarfræðingur í Reykjavík, f. 8.8. 1953, og 4) Viðar Már, fv. hæstaréttardómari í Reykjavík, f. 16.8. 1954.

Foreldrar Guðbjargar eru hjónin Matthías J. Jónsson framkvæmdastjóri, f. 20.11. 1922, d. 5.6. 2003, og Kristín Magnúsdóttir húsmóðir, f. 12.9. 1913, d. 24.5. 1994. Þau bjuggu í Reykjavík.