Andspyrna Margeir Pétursson fyrir utan höfuðstöðvar Lviv Bank. Húsið var byggt fyrir aldamótin 1500 og hefur þolað margar innrásir. Herliðs-græna flíspeysan er nýr einkennisfatnaður starfsmanna bankans.
Andspyrna Margeir Pétursson fyrir utan höfuðstöðvar Lviv Bank. Húsið var byggt fyrir aldamótin 1500 og hefur þolað margar innrásir. Herliðs-græna flíspeysan er nýr einkennisfatnaður starfsmanna bankans.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Úkraínskum bönkum hefur gengið furðuvel að standa af sér þær efnahagslegu hremmingar sem fylgt hafa innrás Rússlandshers. Skömmu áður en innrás Rússa hófst þann 24.

Viðtal

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Úkraínskum bönkum hefur gengið furðuvel að standa af sér þær efnahagslegu hremmingar sem fylgt hafa innrás Rússlandshers. Skömmu áður en innrás Rússa hófst þann 24. febrúar síðastliðinn tilkynnti úkraínski seðlabankinn að fjárhagsleg staða bankanna í landinu hefði aldrei verið betri og að lögbundið eigið fé þeirra væri vel yfir lágmarksviðmiðum stjórnvalda.

Ekki hafa orðið áhlaup á bankana og að svo stöddu hefur efnahagsreikningur þeirra ekki orðið fyrir óviðráðanlegu tjóni.

Margeir Pétursson, hluthafi og stjórnarmaður Bank Lviv í vesturhluta Úkraínu, segir m.a. hægt að skrifa styrk úkraínska bankageirans á þá hreinsun sem varð á árunum 2014 og 2015 í kjölfar innrásar Rússlands á Krímskaga. „Sú innrás leiddi til hruns hryvnunnar, gjaldmiðils Úkraínu, og mikill fjöldi banka lenti í alvarlegum rekstrarvanda. Í kjölfarið fækkaði bönkum í Úkraínu úr 180 niður í 80 en margir af þeim bönkum sem lifðu ekki af höfðu verið illa reknir og í eigu ólígarka sem komu bönkunum ekki til bjargar þegar á þurfti að halda. Þvert á móti fóru sumir eigendur bankanna þá leið að tæma þá af verðmætum og eru enn málaferli í gangi þar sem krafist er bóta af þessum fyrrum eigendum.“

Uppstokkunin eftir innrásina á Krímskaga stækkaði jafnframt hlut hins opinbera í bankageiranum og reiknast Margeiri til að ríkið eigi um 70% af bankakerfinu. „Stærsti banki landsins, Privatbank, var tekinn yfir af ríkinu árið 2016 en sá banki stóð undir nafni því áætlað er að eigendur bankans hafi tekið úr honum jafnvirði um fjöggurra og hálfs milljarðs bandaríkjadala og standa yfir dómsmál í mörgum löndum til að endurheimta eitthvað af því fé.“

Varkárir bankar á undirfjármögnuðum markaði

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Endurreisnar- og þróunarbanki Evrópu komu úkraínska fjármálakerfinu til bjargar en gerðu það að skilyrði að bankakerfið færi í gegnum rækilega hreinsun. „Olígarkar tengdir fyrrverandi forseta landsins, Viktor Janúkóvíts, höfðu getað gert nokkurn veginn eins og þeim sýndist, voru undanþegir öllum reglum og lánuðu sjálfum sér út í eitt, en það breyttist eftir 2015,“ segir Margeir.

Við þetta bætist að bankar í Úkrainu eru varkárir í útlánum í samanburði við önnur Evrópulönd. „Fyrir utan ríkisbankana eru dótturbankar evrópskra bankasamstæðna mjög stór hluti af kerfinu, s.s. Credit Agricole frá Frakklandi og Raiffeisen frá Austurríki, en frá 2015 hafa þessir bankar verið á bremsunni þegar kemur að lánveitingum,“ útskýrir Margeir. „Mjög strangar reglur gilda um allar lánveitingar og veðkröfurnar alveg skýrar, í ofanálag eru vextir mjög háir. Er algengt að fyrirtæki þurfi að greiða á bilinu 13 til 18% vexti af lánum sem veitt eru í hryvnum sem minnir á þau lánakjör sem voru á Íslandi þegar ég starfaði hjá Búnaðarbankanum á níunda áratugnum.“

Skýrast háir vextir m.a. af því að verðbólga hefur verið með hæsta móti í Úkraínu, er nú um 10%, og segir Margeir jafnframt endurspegla vaxtastigið að úkraínska hagkerfið er enn vanþróað. „Heildareignir bankakerfisins eru ekki nema um 30% af þjóðarframleiðslu en í þróaðri hagkerfum Evrópu er ekki óalgengt að stærð bankageirans jafngildi tvöfaldri eða þrefaldri þjóðarframleiðslu. Er Úkraínumarkaður því greinilega undirfjármagnaður og hefur verið bent á að auka þurfi lánveitingar til að efla hagvöxt.“

Seðlabankinn kom í veg fyrir áhlaup

Banki Margeirs starfar nær alfarið í vesturhluta Úkraínu þar sem búa u.þ.b. 15 milljónir manna og er í hópi tíu stærstu banka í þeim landshluta, en í hópi 25 stærstu á landsvísu. Útibú Bank Lviv eru 18 talsins, þar af eitt í Kænugarði. Starfsmenn um 420 og stærð efnahagsreikningis bankans um 200 milljónir evra. Bankinn var stofnaður árið 1990 með leyfi yfirvalda í Moskvu en endurnýja þurfti starfsleyfið ári síðar eftir að Úkraína öðlaðist sjálfstæði í kjölfar hruns Sovétríkjanna. Aðkoma Margeirs að rekstrinum hófst árið 2006 en áður hafði hann stofnað MP Banka sem seldur var íslenskum og erlendum fjárfestum árið 2012.

Innrás Rússlandshers hefur fylgt mikið eignatjón og viðbúið að bankar í Úkraínu muni tapa lánum og að veð í sundursprengdum fasteignum og verksmiðjum verði lítils virði. Margeir segir það hjálpa Bank Lviv að starfa í vesturhluta landsins og þá sé lánabók útibúsins í Kænugarði ekki stór. Hefur ekki orðið mikil röskun á atvinnulífinu í Vestur-Úkraínu og á föstudag voru viðskiptavinir Lviv Bank í Kænugarði enn starfandi þrátt fyrir að rússneski herinn væri óðara að nálgast höfuðborgina.

„Seðlabankinn var greinilega vel undirbúinn og greip til aðgerða á fyrsta degi til að afstýra áhlaupi á bankana, og tryggja að allir bankar geti borgað út það sem þeir mega. Voru úttektir takmarkaðar við jafnvirði 450.000 kr. á dag af hverjum reikningi, sem eru ekki svo íþyngjandi takmörk en hamlaði auðugustu viðskiptavinunum frá því að tæma sína reikninga með hraði,“ segir Margeir. „Þá voru allir gjaldeyrisreikningar frystir en síðan var slakað á þeim hömlum og má fólk núna taka út sem nemur 200 dölum á dag. Virðist gengið nokkuð sterkt og sést það m.a. á því að svartur markaður með gjaldeyri er farinn að taka á sig mynd og kostar bandaríkjadalurinn þar 33 hryvnur á meðan opinbert gengi er 30, og munurinn því ekki mikill.“

Létta byrðar viðskiptavina

Þá hefur venjubundin starfsemi bankanna raskast furðu lítið og nefnir Margeir að úkraínskir flóttamenn eigi t.d. ekki í neinum vandræðum með að nota greiðslukort sín erlendis.

Seðlabankinn veitti bönkum landsins leyfi til að veita viðskiptavinum greiðslufrest án þess að þurfa að lækka gæði lánasafns síns eða færa inn afskriftir. „Þetta þýðir að það hefur ekki áhrif á eiginfjárstöðu bankanna að veita þetta svigrúm en seðlabankinn gerði það sama í upphafi kórónuveirufaraldursins og vegna faraldursins erum við í góðri æfingu við að liðka til fyrir viðskiptavinum. Höfum við nú haft samband við alla okkar viðskiptavini til að athuga hvernig staðan er hjá þeim og bjóða þeim að borga t.d. bara vexti af útistandandi lánum næstu þrjá mánuðina. Hefur um það bil helmingur þeirra þegið boðið,“ segir Margeir.

Spurður hver langtímaáhrifin gætu verið fyrir fjármálageira Úkraínu nefnir Margeir að bankakerfi landsins átti miklar eignir í þeim héruðum sem Rússar hernámu á sínum tíma á Krímskaga og nágrenni og jafngilti tjónið því að þurrka út allt eigið fé í kerfinu. „Mér sýnist að eitthvað svipað gæti gerst núna og er okkar banki þá í betri stöðu en margir bankar í austurhlutanum, en við fórum mun betur út úr skakkaföllunum 2014-15 en bankageirinn í heild sinni. Vil ég vona að við sleppum aftur þokkalega en maður veit auðvitað aldrei hvaða stefnu stríðið getur tekið,“ segir Margeir en rekstur Lviv Bank hefur gengið ágætlega undanfarin ár og hafði staðið til að sækja nýtt hlutafé inn í starfsemina með sumrinu til að styðja við öran vöxt bankans.

Þrír starfsmenn farnir á vígstöðvarnar

Margeir er í dag í Lviv en hann yfirgaf landið tveimur dögum eftir innrásina. „Þá voru menn mjög uggandi um ástandið og loftvarnaflauturnar fóru af stað í Lviv oft á dag, en ekki hafði heyrst í þeim í heila viku þegar þær fóru aftur í gang eldsnemma á laugardagsmorgun. Til marks um hvernig ástandið er hafa verslunarmiðstöðvar opnað á ný en á tímabili voru aðeins matvöruverslanir og lyfjabúðir opnar. Fólk er örugglega með fullan ísskáp af mat og drykk og við öllu búið. Aðalvandinn er að bensín er skammtað og ekki hægt að kaupa meira en 20 lítra í einu en samt eru ekki raðir á bensínstöðvunum,“ segir Margeir sem sneri aftur til borgarinnar til að geta fylgst betur með lánasafni bankans og eins til að sýna samstöðu með starfsfólkinu. „Allir eru að reyna að leggja sitt af mörkum og telst okkur til að af starfsmönnum okkar séu 150 að vinna ýmis sjálfboðaliðastörf utan vinnutíma. Þrír ungir menn hafa farið frá okkur til að berjast, en meirihluti starfsmanna bankans eru konur. Þá hafa átján farið úr landi. Mikill baráttuhugur er í fólki og ótrúleg samstaða innan hópsins um að tryggja að bankinn geti haldið áfram að gegna sínu hlutverki fyrir samfélagið.“