Jón Steinar Gunnlaugsson
Jón Steinar Gunnlaugsson
Eftir Jón Steinar Gunnlaugsson: "„Mikilvægast er fyrir okkur að skynja að áhrifasvæði okkar er umfram allt hið innra með okkur sjálfum.“"

Öll erum við miðpunktar í eigin lífi. Þegar við horfum yfir mikinn mannfjölda sem kannski hefur safnast saman til að fagna atburði, njóta flutnings á listaverki eða hlusta á ræðu, ættum við að hugsa til þess að í hverjum einstaklingi í fjöldanum er miðpunktur, sem sá hinn sami miðar alla sína upplifun við. Okkur er kennt að vanda háttsemi okkar og gjörðir, því við verðum að bera sjálf ábyrgð á eigin gjörðum. Þetta er auðvitað skynsamlegt og rétt en umhyggja okkar fyrir okkur sjálfum gengur oftast miklu lengra en þetta. Við höfum nefnilega tilhneigingu til að réttlæta eftir á það sem við gerum, jafnvel þó að það sé eitthvað sem við ekki hefðum átt að gera; við réttlætum jafnvel glæpi sem við kunnum að hafa framið.

Þegar efri árin ganga í garð ættum við að horfa yfir farinn veg og reyna að leggja mat á líf okkar og gjörðir gegnum tíðina. Ekki vegna þess að við fáum einhverju um þær breytt, því það er auðvitað oftast orðið of seint. Við kunnum samt í einhverjum tilvikum að eiga þess kost að bæta fyrir gjörðir okkar. Þá þurfum við að vera tilbúin til að játa sök okkar fyrir okkur sjálfum og síðan að biðja þá afsökunar sem við kunnum að hafa brotið gegn sé þess kostur.

Síðan ættum við að reyna að brýna fyrir þeim sem yngri eru, hversu mikilvægt það sé í lífinu að vanda sig, sýna öðru fólki skilning og tillitssemi og taka ábyrgð á eigin gjörðum. Stundum kunnum við jafnvel sjálf að sakna þess að hafa ekki verið í stakk búin á yngri árum að skynja að breytni okkar hefur áhrif á aðra og þá ekki síst sú breytni sem kann að teljast til misgjörða eða rangrar túlkunar á atvikum í lífi okkar sjálfra. Hversu vel þekkjum við ekki fjölda manna sem aldrei endurmeta nokkurn hlut og jafnvel forherðast í réttlætingum á breytni sem bersýnilega braut rétt á öðrum? Ef okkur tekst að opna augu þeirra sem yngri eru fyrir verðmætum lífsins, sem hér eru nefnd, er til nokkurs unnið. Ég hef stundum reynt að brýna fyrir sjálfum mér að markmiðið sé ekki að fá húrrahróp frá öðrum fyrir það sem maður kann að hafa gert vel, heldur miklu heldur að vera sjálfur sáttur og geta sofnað vært að kvöldi, þó að enginn annar viti um þá breytni sem um ræðir.

Ef við verðum vitni að því að annar maður fremji misgjörðir sem annaðhvort bitna á honum sjálfum eða öðrum ættum við að fara varlega gagnvart þeim sem í hlut á. Það dugir sjaldnast að halda yfir honum tilfinningaþrungnar ræður um háttsemina og hvar honum hafi orðið á. Slíkt vekur oft aðeins upp andsvör viðkomandi manns og framkallar réttlætingar frá honum á misgjörðunum. Miklu árangursríkara er að reyna að hafa áhrif á hann með eigin breytni og afstöðu og þá jafnvel með að sýna honum fordæmi sem hann ætti að skilja. Mikilvægast er fyrir okkur að skynja að áhrifasvæði okkar er umfram allt hið innra með okkur sjálfum. Þar þurfum við fyrst og fremst að vanda okkur og taka ábyrgð. Það er oft svo ósköp lítið sem við getum stjórnað hjá öðrum, annað en þá að hafa óbein áhrif á þá með því að sýna gott fordæmi með okkar eigin hegðun.

Höfundur er lögfræðingur.

Höf.: Jón Steinar Gunnlaugsson