Peking Skíðamaðurinn Hilmar Snær Örvarsson í brekkunni í Peking. Hann náði besta árangri Íslendings frá upphafi á Vetrarólympíuleikum.
Peking Skíðamaðurinn Hilmar Snær Örvarsson í brekkunni í Peking. Hann náði besta árangri Íslendings frá upphafi á Vetrarólympíuleikum. — Ljósmynd/ÍF
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÓL 2022 Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.

ÓL 2022

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

„Ég er mjög sáttur og ánægður með þetta,“ sagði skíðamaðurinn Hilmar Snær Örvarsson í samtali við Morgunblaðið eftir að hann tryggði sér fimmta sætið í svigi á Ólympíumóti fatlaðra í Peking í Kína í gærmorgun. Árangurinn er sá besti hjá Íslendingi á mótinu frá upphafi.

Hilmar setti sér það markmið að vera á meðal fimm efstu og var ánægður með að ná markmiðunum. Hann endaði í 13. sæti í sömu grein á mótinu í Pyeongchang í Suður-Kóreu fyrir fjórum árum og hefur bætt sig töluvert.

„Ég náði algjörlega mínum markmiðum sem ég setti mér fyrir mótið. Markmiðið var að ná topp fimm í sviginu og því var náð. Ég er sáttur en þegar maður kemst svona nálægt pallinum langar mann samt alltaf í meira,“ sagði Hilmar.

Aðstæður hentuðu vel

Hilmar er einfættur eftir að hafa greinst með krabbamein í hné þegar hann var aðeins átta ára gamall. Hann skíðaði á eftir öðrum einfættum keppanda sem reyndist honum vel.

„Seinni ferðin hentaði mér vel. Ég var á eftir Austurríkismanni sem er einfættur eins og ég og það hentaði mér mjög vel. Svo voru aðstæður geggjaðar í báðum ferðum. Fyrri ferðin var flott og svo var saltað fyrir seinni ferðina og það fór allt vel,“ sagði Hilmar Snær. Hann fann fyrir pressu fyrir keppnina í gærmorgun eftir að hafa fallið úr leik í stórsvigi á fimmtudaginn var.

Pressa frá sjálfum mér

„Ég fann aðallega pressu frá sjálfum mér, ég velti því lítið fyrir mér hvað aðrir segja. Það voru algjör klaufamistök að detta í stórsviginu. Ég var kominn neðarlega í brekkuna þegar skíðið festist í snjónum og ég náði ekki að koma mér úr því.“

Hilmar hefur lítið fengið að skoða sig um í höfuðborg Kína, þar sem miklar smitvarnir eru í gangi vegna kórónuveirunnar. „Á venjulegum leikum værum við að skoða okkur um og skoða Kínamúrinn og fleiri staði en við erum búin að vera í sóttkví allan tímann og vera í ólympíuþorpinu. Heilt yfir hefur þetta samt sem áður verið skemmtilegt.“

Ósanngjörn keppni?

Arthur Bauchet frá Frakklandi varð ólympíumeistari á 1:29,61 mínútu samanlagt. Hilmar var með samanlagðan tíma 1:36,92 mínútu. Sá munur á fyrsta og fimmta sæti er gríðarlegur en þeir fjórir sem voru fyrir ofan Hilmar eru allir með CP-hreyfihömlun en ekki einfættir. Keppnin er því ekki endilega jöfn.

„Það er umdeilt. Allir sem voru á undan mér voru með CP-hreyfihömlun,“ sagði Hilmar. Hver keppandi á leikunum er með breytu sem lýsir fötlun viðkomandi íþróttamanns. Hilmar er með 97,06% fötlunarbreytu en allir fjórir keppendurnir sem enduðu fyrir ofan Hilmar eru með undir 90% fötlunarbreytu og því með meiri hreyfigetu. Skiptar skoðanir eru á hvort það sé sanngjarnt fyrirkomulag.

Hilmar ætlar að nýta tækifærið og slaka á þegar heim er komið eftir mikla keyrslu í Peking síðustu daga. „Næsta vika fer í að hafa það notalegt þegar ég kem heim, en svo er landsmót sem ég ætla að taka þátt í, svo kemur það í ljós hvað tekur við,“ sagði Hilmar Snær Örvarsson.