Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
Eftir Ragnhildi Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur: "Reykjavík er fallin í þá klassísku gryfju að reyna að draga úr eyðslu með því að byrja að spara í þjónustunni sem er næst íbúum."

Rekstrinum í Reykjavík er kannski best lýst með lítilli dæmisögu af frú Reykjavík. Frú Reykjavík starfar hjá fjölskyldufyrirtækinu sem foreldrið hennar Ríkið rekur. Þeirra bransi felst í að veita fólki ákveðna grunnþjónustu sem fólk greiðir fyrir fram en Ríkið og börnin hennar, frú Reykjavík, herra Kópavogur, fröken Mosfellsbær o.s.frv., skipta svo með sér verkefnunum eftir eðli þeirra og stærð kúnnahópsins. Á eftir Ríkinu kaupa flestir viðskiptavinanna þjónustu af frú Reykjavík vegna staðsetningar, fyrir vikið er frú Reykjavík með langhæstu launin af systkinahópnum. Í þokkabót erfði frú Reykjavík heilmikið af lóðum og fasteignum frá eldri fjölskyldumeðlimum og á stóran hlut í mörgum fyrirtækjum þar sem hún situr í stjórn meðfram dagvinnunni. Einhver þessara fyrirtækja eru svo reyndar í beinni samkeppni við viðskiptavini frú Reykjavíkur en það er önnur saga.

Þrátt fyrir allar þessar tekjur hefur Frú Reykjavík tekist að eyða langt um efni fram og er orðin háð yfirdráttarheimildinni sinni. Hún reyndi að rétta úr kútnum með því að selja erfðalóðirnar sínar á uppsprengdu verði og rukka viðskiptavini sína um hæsta mögulega verð fyrir þjónustuna en allt kom fyrir ekki. Sé einhver afgangur af laununum umfram föstu útgjöldin virðist hann gufa bara upp. Í ofanálag hafa viðskiptavinirnir verið að færa sín viðskipti til systkina hennar. Frú Reykjavík hefur reynt að snúa þessu við með því að ráðast í alls konar kostnaðarsamar framkvæmdir og fjárfestingar til að lokka fólk aftur að. Gallinn var að þær voru ekki endilega það sem ætti að vera fremst í forgangsröðinni og fólk var að kalla eftir og sumt gekk það illa að Reykjavík valdi að taka lán til að koma í veg fyrir að tapið leiddi í þrot. Til að bæta gráu ofan á svart hafa kannanir sýnt að ánægja viðskiptavina Reykjavíkur fer minnkandi, en þrátt fyrir mikla fjölgun starfsfólks á skrifstofunni hjá frú Reykjavík hefur sú fjölgun ekki skilað sér í betri aðstoð til starfsfólksins sem er í beinni snertingu við viðskiptavinina.

Í vítahring lánareksturs og lélegrar þjónustu

Það er ekki að sjá á þjónustunni að Reykjavík sé með jafn miklar skatttekjur og raun ber vitni en það sést að um 100% skuldaaukning er á kjörtímabilinu að raunvirði. Því Reykjavík er fallin í þá klassísku gryfju að reyna að draga úr eyðslu með því að byrja að spara í þjónustunni sem er næst íbúum en á sama tíma hækka gjöld upp úr öllu valdi. Þetta er örugg leið til að fækka viðskiptavinum. Í tæpan áratug hefur verið stöðugur brottflutningur fólks og fyrirtækja úr Reykjavík vegna húsnæðisverðs, húsnæðis- og lóðaskorts, hárra gjalda og álaga. Í þokkabót fellur Reykjavík á þjónustuprófinu í einföldustu hlutum. Það tók vinkonu mína til dæmis tvær klukkustundir að fá nýja ruslatunnu afhenta þegar hún flutti til Kópavogs en það hafði tekið rúman mánuð í Reykjavík. Þó eru það ekki bara íbúar sem kvarta yfir lélegri þjónustu heldur sjálft starfsfólk borgarinnar, þeir sem vinna í beinni snertingu við íbúa og þurfa að reiða sig á skilvirka stoðþjónustu frá borginni til að leysa sín verk af hendi gagnvart íbúum. Nýjasta dæmið er örvænting starfsfólks vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar sem fann sig knúið í örvæntingu sinni að senda formlegt kvörtunarbréf til borgarinnar. Einnig hafa til dæmis leikskólastjórnendur lengi haft orð á því hversu erfitt sé að eiga við skóla- og frístundasvið, jafnvel í einföldustu hlutum eins og að fá leiktæki við hæfi á leikskólalóðina. Þarna stendur hnífurinn í kúnni. Þetta samfelluleysi í þjónustunni á milli sviðanna og starfsmannanna í framlínunni leiðir af sér sóun á tíma starfsfólks og þar með fjármunum borgarinnar ásamt glötuðum tækifærum til verðmætasköpunar í þágu íbúa og borgar. Í þessu þarf að lyfta grettistaki, því það er forsenda farsællar þjónustu við íbúa og sparnaðar í borgarkerfinu að allt kerfið vinni saman í þágu íbúa en ekki öfugt eins og nú.

Höfundur býður sig fram í 1. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík. ragnhildur.alda.vilhjalmsdottir@reykjavik.is