[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Inga Þóra Pálsdóttir Ásgeir Ingvarsson „Við áttum fund með fylkisstjóra í Lviv sem fræddi okkur um hvernig staðan væri. Fólk óttast að átökin séu að færast hingað niður eftir. Það liggur nánast allt landið undir.

Inga Þóra Pálsdóttir

Ásgeir Ingvarsson

„Við áttum fund með fylkisstjóra í Lviv sem fræddi okkur um hvernig staðan væri. Fólk óttast að átökin séu að færast hingað niður eftir. Það liggur nánast allt landið undir. Vesturlöndin verða að fara að grípa inn í þetta núna með því að banna flug yfir Úkraínu. Þeir, sem við höfum talað við hér, bæði frá hernum og stjórnvöld í Lviv, leggja allir þunga áherslu á þetta,“ segir Birgir Þórarinsson alþingismaður sem staddur er í borginni Lviv í Úkraínu.

Birgir hefur síðustu daga kynnt sér ástandið eftir innrás Rússa í landið. Heimsótti hann meðal annars munaðarleysingjahæli og herspítala. „Við töluðum við unga hermenn sem höfðu slasast alvarlega í stríðinu. Það var átakanlegt að sjá unga menn sem voru til dæmis búnir að missa fót eða hönd.“

Ekkert lát er á loftárásum Rússa en þeir reyna nú að nálgast Kænugarð úr norðri, vestri og norðaustri. Fréttir bárust af því síðdegis í gær að Rússar hafi beðið Kínverja um fjárstuðning og hergögn.

Margeir Pétursson hefur stundað bankarekstur í vesturhluta Úkraínu frá 2016 og segir hann bankakerfi landsins enn starfhæft og að tekist hafi að afstýra áhlaupi á bankana. Úkraínskir bankar stóðu vel að vígi áður en innrás Rússa hófst en mikil hreinsun varð í bankageiranum eftir að Rússar hernámu Krímskaga og meiri agi einkennt rekstur bankanna síðan þá.

Um 420 manns starfa hjá banka Margeirs og segir hann alla reyna að leggja sitt af mörkum í því ástandi sem núna ríkir. Þrír starfsmenn hafa tekið sér frí frá störfum til að mæta Rússum á vígvellinum.