Gísli Halldórsson fæddist í Hafnarfirði 20.mars 1927. Hann lést á Hrafnistu í Hafnarfirði þann 2. mars 2022. Foreldrar Gísla voru hjónin Ólöf Gísladóttir frá Vesturholtum í Þykkvabæ, f. 13. júlí 1898, d. 27. febrúar 1969, og Halldór Halldórsson frá Sauðholti í Holtum, f. 21. desember 1895, d. 24. júlí 1941. Gísli var fjórði í röð tíu systkina. Þau voru, Þórhallur, Jóna, Karl, Óskar, Svavar, Halldór, Jón, Þórdís og Sveinn. Eftirlifandi systir Gísla er Þórdís.

Gísli ólst upp í Hafnarfirði og bjó þar lengst af. Hann lærði til klæðskera hjá Sveinbirni Sveinssyni og hlaut meistararéttindi í þeirri iðn 7. nóvember 1947. Þann 31 janúar 1958 kvæntist hann eiginkonu sinni Ástgerði Guðnadóttur, f. 25. júní 1934, d. 7 mars 2020. Þau eignuðust einn son, Samúel Gíslason, f. 18. janúar 1972, hann er kvæntur Rögnu Rut Magnúsdóttur, f. 30. janúar 1973. Þau eiga þau tvo drengi, Aron Gísla Samúelsson, f. 27. júlí 2000, og Mikael Andra Samúelsson, f. 31 maí 2003.

Útför Gísla verður gerð frá Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu í Reykjavík í dag, 14. mars 2022, og hefst athöfnin kl. 11.

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Mig langar að minnast pabba með nokkrum orðum.

Pabbi fæddist 20. mars 1927. Hann var fjórði í röðinni af 10 systkinum. Foreldrar þeirra voru Halldór Halldórsson og Ólöf Gísladóttir frá Þykkvabæ.

Þó svo að pabbi hafi fæðst í Hafnarfirði og búið þar alla tíð og verið mikill Hafnfirðingur, þá leit hann á sig einnig sem Þykkbæing og voru ófáar ferðirnar farnar í Þykkvabæinn. Sögurnar voru á hverju strái og hann ljómaði þegar ég fór með hann í Þykkvabæ. Pabbi var þrautseigur maður. Hann lenti í ansi mörgum veikindum í gegnum lífsleiðina og þurfti að berjast fyrir því að læra að ganga í þrígang. Fyrsta sjúkrahúsvistin hans var þegar hann var 12 ára gamall. Þar upplifði hann þann harmleik að horfa upp á föður sinn deyja ungur að árum.

Pabbi kynnist mömmu, Ástgerði Guðnadóttur, fyrir tilstilli Guðna, pabba hennar, en Guðni (afi) og pabbi voru kunningjar. Þau giftu sig svo 31. janúar 1958. Þau voru ótrúlega samrýnd hjón og gæti ég ekki verið heppnari með foreldra en ég kem til sögunar 18. janúar 1972 og veit ég að eftir mér hafði verið beðið. Þau voru gift í 62 ár eða þar til að mamma lést 7. mars 2020. Ég hef oft sagt það að ef að mamma hefði nú alið mig ein upp þá hefði ég nú ekki náð eins langt þar sem hún lét allt eftir mér en pabbi hafði sérstakt lag á að aga mig með kærleika, hann var strangur en alltaf sanngjarn. Að aga með elsku er besta uppeldisaðferðin. Foreldrar mínir voru nægju- og útsjónarsamir. Setning sem pabbi sagði ansi oft og er gott veganesti fyrir okkur hin er „molar eru líka brauð“. Pabbi gantaðist oft með það að hann geymdi svo mikinn pening undir koddanum að hann væri kominn með hálsríg. Hann var iðinn við vinnu sína þrátt fyrir sína fötlun. Árið 2007 veiktist hann aftur af alvarlegum taugasjúkdómi sem gerði það að verkum að hann var lamaður það sem eftir lifði. Eftir tveggja ára baráttu upp á líf og dauða fékk hann pláss á Hrafnistu. Þrátt fyrir öll þessi veikindi og áföll þá var hann alltaf jákvæður og bjartsýnn. Alltaf var hann þakklátur fyrir hvern dag og aldrei minnist ég þess að hann hafi kvartað yfir einu eða neinu. Pabbi var nagli og sama hvað gekk á þá var aldrei uppgjöf. Þegar mamma lést fyrir tveimur árum þá varð hann hissa og tönnlaðist á því að hann hefði átt að fara fyrr. Hann var tilbúinn fyrir heimferðina. En hann var trúaður og vissi hvert hann var að fara og sagði svo oft við mig: „Jæja er þetta ekki að verða gott?“ Honum var farið að langa heim þar sem ekkert sjúkdómastríð er í gangi. Það sem einkenndi pabba minn fyrst og fremst var það að þrátt fyrir veikindi, hindranir, mistök og fleiri verkefni sem fyrir hann voru lögð þá talaði hann aldrei illa um aðra, hvort sem það voru læknar eða hver sem er. Hann sagði alltaf að allir væru að reyna að gera sitt besta og fyrir það var hann þakklátur.

Elsku pabbi, ég á eftir allar góðu sögurnar þínar sem munu lifa áfram, en núna er mamma búin að taka á móti þér með faðm sinn útbreiddan. Ég vann í happdrætti lífsins þegar ég fékk að vera sonur ykkar.

Elska ykkur.

Samúel Gíslason.

Við systkinin viljum með örfáum orðum minnast föðurbróður okkar hans Gísla frænda. Gísli var einstakur maður, glaðlyndur og makalaust jákvæður. Hann lærði til klæðskera ungur að árum og vann við þá iðn beint og óbeint allan sinn starfsaldur. Ástæðu þess að hann lagði þetta starf fyrir sig má kannski rekja til þess að hann veiktist á unglingsárum með þeim afleiðingum að hann gat ekki unnið hvaða vinnu sem var. En hann var handlaginn og því hefur valið kannski ekki verið svo erfitt. Hann lærði iðnina hjá Sveinbirni Sveinssyni, klæðskera í Hafnarfirði, og vann hjá honum um árabil. Á þeim tíma vann þar einnig mamma okkar systkinanna. Það var bæði skemmtilegt og fróðlegt fyrir okkur krakkana að heyra þau tvö rifja upp gamlar, góðar en umfram allt líflegar minningar frá þessum sameiginlega vinnustað. Þar var greinilega líf og fjör enda var Gísli hinn mesti prakkari og stríðinn fram úr hófi. Gísli eignaðist yndislega konu hana Gerðu en hún lést árið 2020. Gísli og Gerða voru mjög samhent í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur. Ferðuðust talsvert bæði innanlands og utan og voru bæði félagar í Fíladelfíu. Sonur þeirra, Samúel, er kvæntur Rögnu Rut Magnúsdóttur og eiga þau tvo syni þá Aron og Mikael. Þetta voru afastrákarnir hans Gísla sem hann var svo hreykinn af. Hann dásamaði allan hópinn sinn og þreyttist ekki á að segja manni frá nýjustu afrekum og uppátækjum allra strákanna sinna. Ekki skrýtið svo sem. Það er aðdáunarvert hvað þessi litla fjölskylda sinnti vel um hann og Gerðu í gegnum mörg erfið veikindatímabil. Einstaklega fallegt og náið samband þar.

Gísli átti mörg áhugamál. Hann var góður söngmaður, söng með Karlakórnum Þröstum og kór Fíladelfíu þar sem Gerða tók einnig þátt. Hann var líka góður sögumaður og var alltaf með grín og gamanyrði á takteinum. Það var skemmtilegt að hlusta á hann segja frá æsku þeirra systkina og öllum prakkarastrikum þeirra bræðra. Systkinin urðu hvorki meira né minna en 10 talsins þar af 8 strákar svo það má ljóst vera að oft hefur verið líf í tuskunum. Aumingja Óla amma sem varð ung ekkja hefur líklega oft verið aðframkomin en hún stóð sig eins og hetja alla tíð. En nú er Þórdís, hún Didda okkar, ein eftir af þessum stóra systkinahópi.

Gísli hafði einnig gaman af því að mála og gerði talsvert af því í gamla daga en tók svo öllum að óvörum aftur til við að sinna þessu áhugamáli sínu þegar hann var kominn á Hrafnistu, þá kominn á níræðisaldur. Eftir hann liggur fjöldinn allur af fallegum myndum. Þá er enn eitt áhugamálið ótalið en það er matreiðslan. Gísli var fínn kokkur og alltaf tilbúinn að ræða um góðan mat og matreiðslu yfirleitt. Þetta sama átti reyndar við um öll systkinin ekki síst Jónu sem var hreinn snillingur þegar kom að matargerð. Gísla og þeim öllum reyndar var tíðrætt um hrossabjúgun sem pabbi þeirra útbjó forðum daga. Ekkert þeirra hafði nokkru sinni fengið önnur eins hrossabjúgu. Gísli hefði orðið 95 ára þann 20 mars nk. Og hvað vildi hann fá í afmælismatinn? Auðvitað hrossabjúgu. Við systkinin þökkum Gísla fyrir allt sem hann gaf okkur með glaðværð sinni og jákvæðni. Það má svo sannarlega margt af honum læra. Góða ferð Gísli minn til nýrra heimkynna þar sem verða fagnaðarfundir. Við vottum Samúel, Rögnu, afastrákunum og Diddu okkar innilegustu samúð.

Hrafnhildur, Hafdís,

Helena, Helga og Valdimar.

Ég kynntist honum fyrir 1960 þegar hann og Gerða, konan hans, bjuggu í Heiðardal um nokkurra ára skeið. Þá var hann klæðskeri. Síðar vorum við saman í Fíladelfíukórnum í Reykjavík. Þau hjón, Gísli og Gerða, höfðu góða nærveru og þó að all nokkur aldursmunur hafi verið á þeim og mér var alltaf gæðastund og vinátta.

Gísli var sögumaður mikill. Frásagnargáfa hans var upplífgandi og gæddi alla hversdagslega atburði lífi og húmor. Á síðustu árunum var engin breyting þar á.

Áður en hann gekk til liðs við Hvítasunnusöfnuðinn reyndi hann allt hvað af tók að láta ekki undan trúboði tengdaföður síns, Guðna í Hafnarfirði, og auðvitað fleirrum sem hann umgekkst.

Eitt sinn bað Guðni hann um greiða að skutla sér á fund austur í Fljótshlíð eða nánar tiltekið í Kirkjulækjarkot. Gísli taldi það útilokað mál þar sem dekkin á bílnum mundu ekki þola svona mikinn akstur á vondum malarvegum. Það verður allt í lagi, sagði Guðni, við bara biðjum Guð að varveita barðana og að ekki spryngi. Hann lét undan og ók með hina trúuðu austur í Fljótshlíð. Leiðin austur gekk undra vel, ekkert dekkjanna sprakk. Fundurinn í Kirkjulækjarkoti kláraðist og undir kvöld var komið til Reykjavíkur án þess að spryngi á þessari löngu leið. Gísla varð brugðið og hugsaði lengi vel hvort Guð gæti virkilega varðveitt bílinn svona greinilega.

Fleiri sögur bættust við í reynslubanka Gísla. Rétt fyrir árið 2000 hélt ég að ævi Gísla væri lokið. Hann fékk þá áfall og lá lengi vel án meðvitundar á sjúkrahúsi. Hann var þá kallaður okkar á meðal „konsúll Færeyja“. Milli hans og Færeyinga myndaðist svo sterk vinátta að Færeyingarnir notuðu tengslin við Gísla rækilega og annað hvort var Gísli í Færeyjum eða Færeyingar hjá Gísla. Þeir komu líka hingað til lands að vitja Gísla á sjúkrahúsinu og kveðja. En Gísli kom aftur til sjálfs sín en þó lamaður og þurfti að vera í hjólastól það sem eftir var.

Ég sat hjá honum eitt sinn þegar hann var á Hrafnistu í Hafnarfirði og við ræddum lífið, tilveruna, Guð og dauðann. Þá sagði hann mér að þegar áfallið kom þá var hann allt í einu staddur í fögrum garði „og litirnir maður, og blómin“, sagði hann. Hvað með litina, spurði ég, hvernig voru þeir? Þeir voru, þeir voru sko... þeir voru... svo vantaði lýsingarorðin. Biblían segir: „það sem auga sá ekki og eyra heyrði ekki og ekki kom upp í hjarta nokkurs manns, allt það sem Guð fyrirbjó þeim er elska hann.“ Orð Gísla náðu ekki yfir þessa reynslu er hann fékk að líta „hinum megin“ og sá veröldina sem beið hans, himinn Guðs.

Hann fékk að koma til baka og sagði öðrum frá. Nú er hann horfinn augum okkar en vitnisburðurinn lifir. Vitnisburðurinn um Guð sem lét ekki springa á bílnum, Guð sem sendi okkur Jesú til að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur fari til þess staðar sem orð okkar ná ekki að lýsa, með litina fögru og blómin sem hið jarðneska getur ekki útlistað.

Heimkoman er ljúf hverjum þeim sem tekur við Jesú.

Ég kveð vin minn og trúbróður með þessum orðum og bið Guð að blessa Samúel og fjölskyldu við þennan missi.

Snorri Óskarsson.