Á Boðnarmiði spyr Hólmfríður Bjartmarsdóttir hvort ekki hafi einhver verið að tala um alþjóðlegan baráttudag kvenna. Og bætir við: Ef hafa skal á hlutum eitthvert lag og hjónaband verja doða og falli þarf að nöldra þrjá tíma á dag.

Á Boðnarmiði spyr Hólmfríður Bjartmarsdóttir hvort ekki hafi einhver verið að tala um alþjóðlegan baráttudag kvenna. Og bætir við:

Ef hafa skal á hlutum eitthvert lag

og hjónaband verja doða og falli

þarf að nöldra þrjá tíma á dag.

Þannig stend ég vel í mínum kalli.

Hallmundur Kristinsson svaraði:

Þessi frétt er næstum ný:

Nú er dómur fallinn.

Hann mun byggja helst á því

hve heppin þú ert með kallinn!

Hólmfríður kvað þetta eldgamla vísu frá kveðandaárunum, – „en það eina djók sem mér datt í hug varðandi þennan dag.“

Sigurlín Hermannsdóttir segir: „Sama tækni, ný skilgreining“ og gefur þessa skýringu: „Ég sá um daginn viðtal við krakka á skíðum sem sögðu að þetta væri enginn vandi ef maður kynni að búa til pizzusneið.“

Við krakkarnir skelltum á skeið

á skíðum, á öldinni' er leið.

Í rjúkandi snjó

við renndum í plóg

nú reynt er við pizzusneið.

Sigþór Hallfreðsson segir, að nú berist fréttir um að Vigdís Hauksdóttir ætli ekki að bjóða sig fram aftur í næstu borgarstjórnarkosningum.

Í borgarstjórn, sannasta sagna,

syngja nú allir og fagna.

Um völlinn fer léttir,

og vonglaðar fréttir,

því Vígdís mun bráðlega þagna.

Þorvaldur Jónsson yrkir limru:

Það hlýnar og hlánar á vorin

og hlæjandi létt eru sporin

En í Rússlandi er

ruglaður her

og Raspútin endurborinn

Jón Atli Játvarðsson upplýsir, að Pöbbarölt í Miðbænum sé víst kallað Klausturhringurinn. Þar sé stundum boðið upp á leiðsögn.

Miðflokkur fékk menn á þing,

sá minnsti var á förum.

Kjaga tveir sinn Klausturhring

og klæmast inn á börum.

Páll Imsland spyr: „Má hér bjóða upp á lélega limru sem til er orðin rímorðanna vegna?“

Björnólfur er ekki bæverskur,

bóngóður, kurteis og hæverskur.

En hér vil ég tjá

að Tumi í Gjá

er á hinn bóginn montinn og mývetnskur.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is