Bænastund Forseti Íslands flutti ávarp í Kolaportinu.
Bænastund Forseti Íslands flutti ávarp í Kolaportinu. — Morgunblaðið/Óttar
Ljóst er að hugur margra leitaði til Úkraínu í gær, en Íslendingar söfnuðust saman á ýmsum stöðum til þess að sýna samstöðu með einum eða öðrum hætti. Forseti Íslands, Guðni Th.

Ljóst er að hugur margra leitaði til Úkraínu í gær, en Íslendingar söfnuðust saman á ýmsum stöðum til þess að sýna samstöðu með einum eða öðrum hætti.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, flutti ávarp á sérstakri samstöðumessu með Úkraínu sem var haldin í Dómkirkjunni, en beðið var fyrir friði í landinu.

Það var ekki eina guðsþjónustan sem forsetinn sinnti þann daginn heldur flutti hann jafnframt ávarp í Kolaportsmessu. Guðni talaði um kvíðann og áhyggjurnar af stríðinu í Úkraínu, „þessu fjarlæga landi sem er þó svo nærri“. Þá talaði hann einnig um mikilvægi þess að vernda frelsið og lýðræðið, þvert á allt sem sundrar. Viðstaddir báðu fyrir úkraínsku þjóðinni en einnig hinni rússnesku.

Við Hallgrímskirkju söfnuðust svo saman um fimm til sex hundruð manns, að sögn skipuleggjenda, sem gengu til stuðnings Úkraínu, niður Skólavörðustíg, Laugaveg, Austurstræti og að rússneska sendiráðinu sem stendur við Garðastræti.

Móttökukerfi flóttamanna á landamærunum tók við 19 flóttamönnum frá Úkraínu á föstudag og 17 á laugardag. „Við ráðum við þennan fjölda, en þetta snýst svo um að koma fólkinu fyrir og útvega því samastað,“ segir Jón Pétur Jónsson, yfirlögregluþjónn landamærasviðs ríkislögreglustjóra.