Sigurlína Jóhannsdóttir fæddist 11. júlí 1929. Hún lést 22. febrúar 2022.

Útförin fór fram 11. mars 2022.

Að skrifa minningargrein um Línu fósturmóður mína er vandi. Það er erfitt að minnast hennar í fáum orðum. Hún kom inn í líf mitt á erfiðu tímabili. Ég var nýbúinn að missa mömmu, sex ára gamall. Lína nálgaðist mig á þeim forsendum sem þurfti; bæði með tíma og endalausa þolinmæði af hennar hálfu. Ég skildi seinna að fórnarkostnaðurinn var hennar megin. Hún tók okkur systkinin, mig, Guðna og Guðrúnu, að sér og gerði það á þann hátt að öll komumst við „til manns“.

Unglingsárin komu með öllu sem því fylgdi. Við Kristinn frændi sem gerðist „kostgangari“ hjá Línu þegar hann var í Háskóla Íslands í Reykjavík, hann kom úr Vestmannaeyjum og þurfti mat eins og annað fólk. Lína tók hann undir sinn verndarvæng. Við vorum óaðskiljanlegir frændur gegnum barnæsku og unglingsár. Sumt eins og bíóferðir, sem ekki var vel liðið á þeim árum, bar með sér kostnað sem ekki var alltaf til staðar hjá skólapeyjum. Með smá „glotti út í annað“ var peningum lætt í höndina á mér og málinu reddað af Línu.

Tónlistaráhuginn vaknaði snemma. Með gítar í hönd og hugmyndir að textum var setið lengi vel og spilað með misjöfnum árangri. Pabbi fékk þá hugmynd, sem forstöðumaður í Fíladelfíu í Reykjavík, að stofna lúðrasveit. Ég lenti í „úrtaki“ sem baritónhornsleikari (vinkill á gítarleik og textagerð). Ég benti á það af veikum mætti að ég hefði ekki blásaravarir sem er eiginlega forsenda til að geta leikið á þetta eðalhljóðfæri. Tillagan var snarlega þögguð niður af pabba (ekki stjórnanda hljómsveitarinnar).

Þá var ekki annað til í stöðunni en að taka til sinna ráða. Ég fann djúpa Es á skrímslinu. Setti bjölluna á stóra gluggann í herberginu mínu, sem var í blokk, og blés af öllum lífs- og sálarkröftum.

Eftir nokkur skipti var allt orðið brjálað í blokkinni. Pabbi gafst upp. Lína brosti. Ég var settur á trommur í hljómsveitinni sem var hljóðfærið sem ég sóttist eftir. Svona leið þetta létt áfram og Lína sem alltaf var til staðar stóð við mína hlið á misgóðum hugmyndum. Ég get ekki ímyndað mér betri uppalanda (fyrir mig).

Auðvitað á það við í minningargrein að minnast með söknuði og með sorg ástvina sem falla frá. Ég kýs að minnast Línu, fóstru minnar, með þessum fátæklegu orðum og kærleika, um samskipti okkar sem voru fólgin í óbeinni stjórnun af uppalanda á „ólíkindatóli“ með góðum árangri, umhyggju og ást.

Með vissu um að hitta hana aftur kveð ég ástkæra fósturmóður.

Sigurmundur G. Einarsson.

Ég kynntist Sigurlínu tengdamömmu árið 1973 þegar ég kynntist Guðna eiginmanni mínum og stjúpsyni hennar. Sigurlína var glæsileg kona með góða nærveru. Hún var mjög hjálpsöm og hjálpaði okkur Guðna mikið þegar við byrjuðum að búa. Hún var mikil hannyrðakona og prjónaði m.a. lopapeysur á öll barnabörnin. Hún var dugleg að ganga. Þegar hún bjó á Snorrabraut labbaði hún alltaf í Fíladelfíukirkjuna á sunnudögum og öðrum dögum ef eitthvað var um að vera. Ég bauð henni oft far heim en hún afþakkaði alltaf. Vildi frekar ganga. Hún fór í göngu á hverjum degi frá Snorrabraut og meðfram sjónum við Sæbraut. Ef það var hvasst þá valdi hún að ganga í skjóli og gekk niður Laugaveginn. Göngurnar áttu eftir að koma sér vel á efri árum því hún náði sér a.m.k. í tvö skipti þegar hún mjaðmagrindarbrotnaði. Sigurlína greindist með alzheimer fyrir 15 árum. Þegar hún greindist fór ég til hennar til að hughreysta hana. Þegar ég minntist á að hún væri komin með alzheimer kom hún mér á óvart og sagði áhyggjulaus: „Hva þetta eru bara elliglöp.“ Vegna alzheimer-greiningar byrjaði hún í dagvistun á Vitatorgi þar sem henni leið mjög vel. Þar voru í boði hannyrðir og göngur á hverjum degi, eitthvað sem hún elskaði. Reyndar leist henni ekki á Vitatorg fyrsta daginn og labbaði heim eftir hádegi. Ég ákvað að keyra hana á Vitatorg daginn eftir til að hvetja hana til að þiggja dagvistina. Við sátum í bílnum fyrir utan og ég hvatti hana til að fara inn. Hún horfði á húsið og sagði við mig: „Það er ekkert nema gamalt fók þarna.“ „Þetta er allt fólk á þínum aldri,“ sagði ég. „Er það?“ sagði hún og samþykkti að fara. Þegar á leið átti hún erfitt með að búa ein og fluttist í Foldabæ sem er í Logafold 56 og er fyrir konur með heilabilun. Þar var mjög heimilislegt og leið henni mjög vel þar. Hún var hressust af konunum sem þar voru og sló met með því að dvelja þar í 8 ár, þá var metið 5 ár. Frá Foldabæ fluttist hún á Droplaugarstaði. Þar leið henni líka vel. Ef hún var spurð hvernig hún hefði það þá hafði hún það mjög gott og hafði ekki undan neinu að kvarta því hún hafði allt til alls. Þótt skammtímaminnið væri ekki nógu gott þá mundi hún það sem lesið var fyrir hana úr Biblíunni og sagði textann upphátt með þeim sem las fyrir hana. Það kom á óvart hvernig hún mundi Biblíuversin og heilu sálmana.

Áður en hún greindist með alzheimer og eftir að hún varð ekkja ferðaðist hún ein til Englands að heimsækja Guðnýju dóttur sína, Bob tengdason sinn og barnabörn. Hún kunni ekki mikið í ensku og til að bæta úr því fór hún á enskunámskeið á áttræðisaldri. Hún var dugleg og lét ekkert stoppa sig, sem dæmi um það þá tók hún bílpróf um sextugt.

Ég kveð Sigurlínu með miklu þakklæti og blessa minningu hennar. Hún hefði orðið 93 ára 11. júlí nk.

Guðfinna Helgadóttir.

Nú er komið að því að kveðja elsku Línu ömmu mína.

Ein af mínum fyrstu minningum um Sigurlínu var þegar hún og Einar afi komu í heimsókn til okkar fjölskyldunnar í Vestmannaeyjum, en þau bjuggu sjálf í Reykjavík. Ég man sérstaklega eftir grænmetinu sem þau færðu foreldrum mínum og veiðistönginni sem þau hjónin gáfu mér. Stöngin var grá og veiðihjólið var með rauðu loki og markaði hún upphafið að veiðidellu minni sem ég hef alla tíð síðan haft. Um það leyti sem ég fékk bílpróf kom Einar afi í hvíldarinnlögn í Hraunbúðir. Lína amma dvaldi heima hjá okkur og er mér minnisstætt hvað hún var alltaf fús að lána okkur unglingunum bílinn sinn til að fara á rúntinn um helgar. Tveimur árum síðar lést Einar afi minn. Þegar ég hóf háskólanám bauðst mér að búa hjá Línu ömmu í bókaherberginu hans afa. Ég á margar góðar minningar frá þeim tíma þegar ég dvaldi í þessu herbergi. Ég man vel eftir lyktinni, viðurkenningunum á veggjunum, öllum bókunum og stóra hægindastólnum hans afa. Það var notalegt að búa hjá henni þennan tíma og þar var mikil regla á öllu. Hún eldaði alltaf í hádeginu og stjanaði við mig, en þess í stað ætlaðist hún til þess að ég stæði mig vel í náminu. Oft í viku gekk hún á milli húsa í marga klukkutíma og aflaði fjár fyrir Biblíufélagið, þrátt fyrir að vera orðin sjötug og fór hún létt með það. Auk þess skráði hún mig í félagið. Það var gaman að heimsækja hana síðustu árin á hjúkrunarheimilin sem hún bjó á, skoða með henni myndir og spjalla við hana um liðna tíð. Þrátt fyrir að vera búin að tapa minninu að miklu leyti þekkti hún mig yfirleitt alltaf samstundis og ef ekki, þá yfirleitt þegar leið á heimsóknina. Hún tók ávallt fagnandi á móti börnunum mínum, sótti í að fá þau í fangið og gæla við þau. Það hefur alltaf verið fastur liður í kvöldbænum þeirra að biðja fyrir Línu langömmu. Nú blessa þau minningu hennar þess í stað og þakka fyrir að hafa fengið að kynnast henni.

Ég kveð nú elsku ömmu mína, hún var klettur og fyrirmynd í lífi okkar allra í fjölskyldunni.

Einar Sigurmundsson.

Í dag minnist ég Línu ömmu minnar og nöfnu.

Ég á margar ljúfar minningar um lífið með ömmu, enda var ég heppin að fá að kynnast Einari afa og Línu ömmu vel og eiga með þeim ófáar samverustundir alveg frá barnæsku.

Einar afi sótti mig stundum í skólann þegar ég var barn og þá fórum við heim á Laugarnesveg að borða hádegismat. Amma tók á móti okkur þar – en ég man einmitt oft eftir ömmu hálfri ofan í frystikistunni að sækja kjöt eða fisk fyrir matmálstíma, enda mjög gestkvæmt hjá afa og ömmu eiginlega alla daga. Þar voru allir velkomnir og tekið vel á móti fólki.

Amma var merkileg kona á svo margan hátt en líka ósköp venjuleg. Hún vildi sannarlega láta gott af sér leiða og vann margt í þágu góðra hluta í ýmiss konar sjálfboðastarfi og styrkti hjálparstarf af ýmsum toga fyrir verkefni bæði hérlendis og erlendis.

Þegar ég byrjaði í framhaldsskóla var ég mikið hjá Einari afa og Línu ömmu enda styttra heim til þeirra frá skólanum en heim til mín. Ég hjálpaði ömmu við ýmis störf og fór til dæmis með henni að versla í matinn. Mér fannst alltaf jafn fyndið þegar hún dró vasahnífinn upp úr veskinu sínu þegar skera þurfti á pakkningar í búðinni til að ná einu stykki af vörunni sem hana vantaði. Enn fyndnara fannst mér svo þegar við vorum að ferðast til Englands að heimsækja Guðnýju frænku og fjölskyldu – að vasahnífurinn var enn á sínum stað í veskinu þegar við vorum að fara í gegnum tollinn – henni þótti nú sjálfsagt að ferðast með hníf – því líflaus er hníflaus maður eins og afi sagði.

En þrátt fyrir að amma væri dugleg kona með nóg af verkefnum þá man ég alltaf eftir henni eftir hádegismatinn þar sem hún settist í sófann og las Guðs orð og bað. Allt hafði sinn tíma. Amma var mjög trúföst og það fór aldrei á milli mála hverjum hún tilheyrði. Amma gekk alltaf mjög mikið og fór helst allt gangandi ef hægt var. Eitt sinn var hún að labba heim til sín eftir kirkju þegar einhver grípur af henni veskið og hleypur með það í burtu. Ég var með aukalykla að íbúðinni hennar og þar sem lyklarnir hennar voru auðvitað í veskinu þá fór ég strax til að opna íbúðina fyrir hana þegar pabbi hringdi í mig og sagði mér hvað hafði gerst. Ég spurði hana hvernig henni liði og hvort henni hefði ekki brugðið við. Þetta hefði vafalaust verið óþægileg reynsla. Hún hafði nú ekki miklar áhyggjur af því og sagði nú ekkert merkilegt hafa verið í veskinu, en þar hefðu verið ýmis smárit með fagnaðarerindinu og hún vonaði innilega að þjófurinn myndi lesa smáritin og að þetta yrði honum bara allt til blessunar. Þetta er dálítið dæmigerð saga um það hvernig amma hugsaði.

Það segir margt, að þrátt fyrir veikindin sem hún glímdi við síðustu árin og minnisleysi – þá mundi hún og kunni oft utan að textana þegar lesið var fyrir hana úr Biblíunni.

Ég lærði margt gott af Línu ömmu sem ég verð alltaf þakklát fyrir og minnist hennar með mikilli hlýju. Afi sagði oft að ég væri heppin að heita eftir henni, því hún væri dugleg og góð kona. Ég er alveg sammála honum.

Hvíl í friði elsku amma.

Lína Guðnadóttir.

Ég hef þekkt Sigurlínu frá árinu 1964. Ári áður hafði Einar föðurbróðir misst Guðnýju, eiginkonu sína. Þá kom Sigurlína til sögunnar sem eiginkona og ný húsmóðir að Arnarhóli.

Upplifunin var ljúf og brosmild kona sem allir fundu hversu vel uppfyllti tómarúmið eftir andlát Guðnýjar, heimili með mann og þrjú börn.

Ég man að pabbi og mamma voru einu sinni að skrafa saman við hlátur og glaðværð. Einar hafði boðið pabba að Arnarhóli í kaffi. Þeir sáu um skoðun á gúmmíbjörgunarbátum Eyjaflotans. Þeir komu Sigurlínu á óvart því hvorki var sími á Arnarhóli né víða annars staðar í Eyjum. Þegar þeir komu inn sagði Einar: „Við Óskar bróðir erum komnir í kaffi! Vertu fljót við höfum stuttan tíma.“ Sigurlína var í kjallaranum að undirbúa þvott. Svo hún svarar: „Ég kem rétt strax, þegar ég er búin að setja í bleyti!“

Um þetta ræddu foreldrar mínir og pabbi hafði á orði að Sigurlína væri alveg hárrétt eiginkona inn í líf Einars.

Þegar ég lít um öxl og rifja upp mörg augnablik þar sem leiðir okkar lágu saman þá voru alltaf opnar dyr og gestrisni hjá þessum hjónum Einari og Línu. Sigurlína hafði um nokkurra ára skeið verið í trúboði á Grænlandi. Nú var hún komin í trúboðsstarfið í Betel í Vestmannaeyjum ásamt Einari og börnunum hans. Hún ræddi ekki mikið um þann tíma og gæti ég trúað að henni hafi líkað mjög vel vistaskiptin.

Þau fluttu til Reykjavíkur og Einar tók við forstöðu í Fíladelfíusöfnuðinum. Heimili þeirra var alltaf opið og oft bauð Einar fólki með sér heim í mat. Það var alltaf gefið það sem til var og aldrei kvartað yfir því sem ekki var til. Við hverja máltíð mátti heyra frá Einari: „Þetta er góður matur, Lína!“ Það var og reynsla okkar að hún var listakokkur og frábær húsmóðir.

Ég hafði keypt mér 8 mm kvikmyndavél 1966 og tók myndir af ýmsum augnablikum í lífi fjölskyldunnar. Hvort sem það var smölun í Elliðaey eða vestur á fjalli, jafnvel vestur á Hamri á sólríkum sunnudegi. Á myndræmunum er því að finna mörg augnablik af Sigurlínu meðal okkar.

Hún var ætíð boðin og búin að taka á móti okkur, frændum Einars. Það varð líka svo að ekki var farin ferð til Reykjavíkur nema koma við hjá þeim hjónum.

Þegar ég lít til baka þá hef ég séð að þeir sem hafa gerst kristniboðar hvort sem er í Afríku eða Grænlandi hafa allir sterka og áberandi lyndiseinkunn, æðruleysi og með gott úthald. Það er eins og ekkert raski ró þeirra. Þannig var Lína.

Síðustu árin dvaldi hún á Droplaugarstöðum þar sem hún mátti una skerðingum á heimsóknum vegna Covid-19, en aldrei kvartað hún. Minnið varð þokukenndara og samtíminn gleymdist en trúin á Jesú og vonin um framhald að loknu þessu lífi gaf henni hughreystandi styrk við ævilokin.

Ljúfar minningar um Línu eldast vel og ylja okkur um hjartarætur og hún dró alla að sér með ljúflyndi. Hún var „hárrétt kona inní líf Einars“, og okkar allra hinna.

Guð blessi minningu hennar og huggi börnin hans Einars og Guðnýju, einkadóttur hennar.

Snorri Óskarsson og Hrefna Brynja.

Sem lítill drengur man ég eftir því þegar Sigurlína kom til Vestmannaeyja frá undraheimi Grænlands. Hún átti myndir af fólki sem var svo framandi en einnig stórkostlegt. Veiðimaður klæddur hvítum stakki og í buxum úr hvítabjarnarskinni við hliðina á kajak sem var búinn til aðallega úr húð sela. Konurnar í fjarskalega litskrúðugum búningum. Brosið hennar Sigurlínu endurspeglaði brosið sem þetta fólk hafði á myndunum og hlýjan sem skein af því var sú sama og Sigurlína átti.

Ég varð þeirrar blessunar aðnjótandi að vera næstum því eins og fóstursonur Sigurlínu þegar hún og Einar frændi leyfðu mér að að vera eins og einn af krökkunum þeirra þegar ég stundaði nám í Menntaskólanum við Hamrahlíð og svo í Háskóla Íslands. Þegar ég lít til baka átta ég mig á því hve lánsamur ég var að vera í návist þeirra hjóna á hverjum degi. Sigurlína ljómaði af sömu gleði og kærleika og ég sá á myndunum frá Grænlandi sem lítill peyi í Eyjum.

Einar var forstöðumaður Hvítasunnusafnaðarins og þess vegna var mikið um gestakomur á heimilinu. Það brást aldrei að gestirnir fengju að njóta kræsinganna sem Sigurlína framreiddi á sinn einstaka hátt. Það var engu líkara en að Sigurlína hefði verið að undirbúa gestakomuna frá því í dagrenningu þess dags. Auðvitað kom þetta til af því að samband þeirra hjónanna var svo sem best verður á kosið. Elska þeirra hvors til annars var til fyrirmyndar og svo var einnig um samskipti þeirra.

Við sem urðum þeirrar blessunar aðnjótandi að ganga á lífsleiðinni með Sigurlínu höfum vissulega mótast af þeim kærleika sem var svo augljós í öllu atferli hennar.

Þegar við hjónin eignuðumst fyrstu dóttur okkar vorum við sammála um að stúlkubarnið ætti að heita Sigurlína. Nafnið eins og endurómaði það besta sem mannleg vera getur haft. Fyrir 39 árum síðan sagði einhver í Eyjum: „Aumingja stúlkan hún mun aldrei geta sagt nafnið sitt“. Eitt af fyrstu orðunum sem Sigurlína Kristín sagði hátt og skírt var „Sigurlína“!

Á þessari kveðjustund minnumst við hjónin Sigurlínu með tár á hvörmum. Blessuð sé minning hennar.

Kristinn Magnús

Óskarsson og Laura Anne Withers, Kanada.

HINSTA KVEÐJA
Elsku Lína langamma okkar.
Við minnumst þín með gleði í hjarta og þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast þér. Það var alltaf notalegt að koma til þín á Droplaugarstaði.
Elsku langamma. Hvíl í friði.
Salka Rut, Elísa Kristín og Guðný Finna.