Lviv Fólk kom saman í messu í gær í St. Péturs- og Paul Garrison-kirkjunum í Lviv til að minnast hinna látnu og biðja fyrir þjóðinni.
Lviv Fólk kom saman í messu í gær í St. Péturs- og Paul Garrison-kirkjunum í Lviv til að minnast hinna látnu og biðja fyrir þjóðinni. — AFP/Yuriy Dyachyshyn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stríðið heldur áfram í Úkraínu og ekkert lát er á loftárásum Rússa. Rússneski herinn hefur dreift sér víðar um landið og er að reyna að nálgast Kænugarð úr norðri, vestri og norðaustri, þar sem loftárásir hafa verið miklar.

Stríðið heldur áfram í Úkraínu og ekkert lát er á loftárásum Rússa. Rússneski herinn hefur dreift sér víðar um landið og er að reyna að nálgast Kænugarð úr norðri, vestri og norðaustri, þar sem loftárásir hafa verið miklar. Í gær var flugvöllur í borginni Vasylkív sprengdur, en borgin er suður af Kænugarði. Yfirvöld í Úkraínu segja Rússa hafa skotið á hóp flóttamanna úr þorpi nálægt Kænugarði og hafi sjö látist, þar af eitt barn.

Bandaríski blaðamaðurinn og heimildamyndagerðarmaðurinn Brent Renaud var skotinn til bana í Irpin á sunnudag og annar blaðamaður særðist. Brent Renaud var fimmtugur og hefur m.a. unnið fyrir The New York Times . Hann er fyrsti erlendi blaðamaðurinn sem lætur lífið í átökunum.

Óskar Hallgrímsson ljósmyndari, sem er í Kænugarði, sagði í gær í samtali við mbl.is að ástandið í borginni væri aðeins skárra, sjaldnar heyrðist í loftvarnaflautunum og hann væri þess fullviss að Rússum tækist ekki að ná borginni. Þrátt fyrir miklar loftárásir í jaðarbyggðum borgarinnar, eins og í Irpin, hefur Rússum ekki tekist að komast inn í borgina.

Í hafnarborginni Maríupol er ástandið komið á algjört neyðarstig og nýjustu upplýsingar frá borgaryfirvöldum segja að tala látinna sé komin upp í 2.187 manns og hefur mannfallið nær tvöfaldast frá miðri síðustu viku. Borgin er sundurskotin og enn eru lík að finnast í rústunum. Ekkert rafmagn, vatn eða hiti hefur verið í borginni í tólf daga og matarbirgðir nánast uppurnar, og talið að hungur gæti leitt fleiri til dauða ef ekkert breytist. Vesturlönd hafa biðlað til Vladimír Pútíns Rússlandsforseta að hætta umsátrinu um borgina svo hægt sé að koma neyðarvistum til borgarinnar og koma fólki í burtu. Vonast var til að rútur á leiðinni til borgarinnar með vistir kæmust á leiðarenda í gær.

Á föstudag var Ivan Federov borgarstjóri Melitopol, borgar í suðurhluta Úkraínu, handtekinn af Rússum og vakti atvikið hörð viðbrögð og sagði Volodímír Selenskí forseti Úkraínu að hér eftir yrðu Rússar bornir saman við hryðjuverkamenn ISIS.

Aðfaranótt sunnudags gerðu Rússar loftárás á herstöð nálægt Lviv í vesturhluta Úkraínu, en borgarstjórinn Andrí Sadoviv greindi frá árásinni á samskiptamiðlinum Telegram. Einnig voru árásir gerðar á æfingasvæði úkraínska hersins fyrir utan Lviv, ekki langt frá pólsku landamærunum. Síðustu fregnir herma að 35 manns hafist látið lífið í árásinni og 134 særst.

Bandaríkjastjórn tilkynnti í gær að senda ætti Úkraínu hergögn fyrir 200 milljónir dollara til viðbótar þeim 350 milljónum sem leyfi hafði fengist fyrir og er þetta mesti fjárstuðningur Bandaríkjastjórnar til þjóðar í stríði hingað til. Heimildarmenn í Washington sögðu Financial Times að titringur væri í Hvíta húsinu vegna þess að Rússar hefðu beðið Kína um fjárstuðning og hergögn. Ekki er vitað hvaða hergögn er verið að tala um, en sagt að teikn væru á lofti um að Rússar þyrftu meiri vopn, nú á þriðju viku innrásarinnar. Fréttin hefur ekki verið staðfest af yfirvöldum í Washington.

Níu af fjórtán flóttamannaleiðum voru öruggar á laugardag og komust 13 þúsund manns frá Úkraínu um helgina. Nú hafa 2,6 milljónir manna flúið landið og flestir farið til Póllands. Forsætisráðherra Úkraínu, Denys Shmyhal, hvatti landsmenn á svæðum sem væru ekki undir stöðugum árásum að fara til vinnu skortur er á varningi alls staðar.

Áætlað er að Sameinuðu þjóðirnar fundi um stöðuna í vikunni.