Ole Anton Bieltvedt
Ole Anton Bieltvedt
Eftir Ole Anton Bieltvedt: "Við erum vonandi öll sammála um að hafna því að land skuli með dýraníði byggja!"

Áskorun til alþingismanna:Kæru alþingismenn.

Ég og við í Jarðarvinum höfum í málflutningi okkar síðustu vikur lagt megináherslu á virðingu við dýrin, vörn þeirra og velferð, enda geta þau ekki talað fyrir sig sjálf né sótt rétt sinn sjálf.

Þau eru ofurseld vilja, ákvörðunum, hagsmunum og gerðum manna. Við viljum að fleira ráði en hagsmunir manna. Virðing og mannúð við dýrin, siðferði gagnvart dýrum og lífríki, sem er okkur samboðið sem menningarþjóð, verður líka að koma inn í skoðun og afgreiðslu málsins af fullum þunga.

Margir bændur eru aldir upp við það og lifa og hrærast í því að „framleiða“ dýr í þennan heim til að selja þau svo í slátrun og kjötframleiðslu. Sumir þeirra gera þetta allt sjálfir. Fyrir þeim eru þessi dýr nær því að vera „hlutur“ en „lifandi vera, spendýr, með skynjun eins og við“.

Það er sjálfgefið að tilfinning þessara manna, samúð þeirra og afstaða til dýranna hefur slævst og minnkað. Er eflaust orðin sáralítil eða engin hjá sumum eða mörgum. Ekki að þessir bændur séu verri menn en við hin, heldur hefur líf þeirra og starfsumhverfi mótað þá og breytt þeim.

Þessir bændur, sem líka eru í blóðmerahaldi, upplifa því sitt hald og sína meðferð á dýrunum öðruvísi en við hin. Okkar mat er að það siðferði gagnvart dýrum sem við viljum kenna okkur við verði að liggja ofar hugmyndum, afstöðu og siðferðismati blóðmerabænda.

Auðvitað verður samt líka að hugsa til hagsmuna blóðmerabænda í þessari umfjöllun og afgreiðslu. Í Danmörku var minkahald stöðvað með aflífun allra minka þar. Reyndar var þetta í samræmi við þá þróun um alla Evrópu að stöðva og banna minkahald vegna þess hrikalega dýraníðs sem það er, þó að Covid hafi orðið til þess að danska ríkisstjórnin tók af skarið.

Það er samt ekki málið hér, heldur það að danska ríkið ákvað bætur til handa minkabændum sem aðilar sættu sig við. Tillaga okkar er að eins verði farið í málin hér. Blóðmerabændum verði ákveðnar hóflegar en sanngjarnar bætur fyrir að hætta blóðmerahaldi.

Það munu vera um 6.700 lögbýli á Íslandi og virðist um helmingur þeirra vera eyðibýli; aðeins virðist búið á helmingi þeirra. Blóðmerabændur munu vera um 120 af um 2.300 bændum sem halda hross. Hlutfall blóðmerabænda er því sáralítið eða um 5% af hrossabændum.

95% hrossabænda finna sér því lífsviðurværi án þess að stunda blóðmerahald, enda hefur komið fram að margir þessara hrossabænda hafa skömm á blóðmerahaldi starfsbræðra sinna.

Margir þeirra telja líka, og það örugglega með réttu, að blóðmerahaldið hér varpi dimmum skugga á íslenskt hestahald, spilli ímynd íslenska hestsins, þarfasta þjónsins. Líka ímynd þjóðarinnar allrar, og trufli alvarlega góð og arðbær útflutningsviðskipti með íslenska hestinn, en líklegt er að hann komist í betri hendur þar sem erlendir kaupendur eru mest sérstakir unnendur íslenska hestsins.

Punkturinn er: Blóðmerabændur ættu að geta fyllt þá eyðu í tekjum sínum, sem bann við blóðmerahaldi hefur í för með sér, með öðrum tekjustofnum, einkum ef þeir fá nokkurt ráðrými til þess. Þetta ráðrými þarf að veita að okkar mati. Ef ekki, og þeir fara þá í önnur störf, breytir það litlu um byggð landsins.

Auðvitað verða nefndarmenn og aðrir alþingismenn að sinna skyldum sínum og vinna störf sín eftir eigin dómgreind og sannfæringu. Þeir verða þó líka að taka nokkurt mið af og taka til greina skoðanir og vilja umbjóðenda sinna, kjósenda.

Fyrir nokkru stóð Fréttablaðið fyrir skoðanakönnun á því hver afstaða Íslendinga til blóðmerahalds væri. Fyrirsögn á frétt um niðurstöðu var: „Mikill meirihluti þjóðarinnar andvígur blóðmerahaldi“.

66% Íslendinga reyndust vera andvíg blóðmerahaldi, 19% tóku ekki afstöðu, en þeir sem voru hlynntir voru aðeins 15%. Ef þeir eru teknir út úr þessu dæmi sem voru hlutlausir voru 81,5% á móti blóðmerahaldi og 18,5% með.

Við sjáum ástæðu til að minna á þessa skoðanakönnun og niðurstöðu hennar hér og nú.

Í umsögn frá blóðmerabónda um frumvarpið við bannið við blóðmerahaldi á Alþingi minnir hann á að land skuli með lögum byggja. Við erum sammála því, en höfnum því að land skuli með dýraníði byggja!

Við áréttum þá skoðun og þá áskorun á alþingismenn, að þeir samþykki bann við blóðmerahaldi!

Höfundur er stofnandi og formaður Jarðarvina, félagasamtaka um dýra-, náttúru- og umhverfisvernd.

Höf.: Ole Anton Bieltvedt