Arnbjörn Gunnarsson fæddist í Reykjavík 19. október 1948. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu Ásabraut 14 í Grindavík 2. mars 2022. Foreldrar hans voru Gunnar S. Arnbjörnsson, f. 1912, d. 1970, og Aðalheiður Magnúsdóttir, f. 1915, d. 1979. Systkini Arnbjörns eru Halldóra, f. 1933, d. 2021, Kristbjörg, f. 1937, Birgir, f. 1938, d. 1958, og Þorsteinn Hallgrímur, f. 1946.

Þann 31. maí 1969 kvæntist Arnbjörn eftirlifandi eiginkonu sinni Sigrúnu Sigurgeirsdóttur, f. 1947. Foreldrar Sigrúnar voru Sigurgeir Guðjónsson og Guðrún Einarsdóttir frá Hlíð í Grindavík bæði látin.

Börn Arnbjörns og Sigrúnar eru 1) Sara f. 1975. Börn hennar eru Sigrún Harpa og Birgir Örn. 2) Gunnar Sigursveinn kvæntur Hrafnhildi Guðjónsdóttur, börn þeirra eru Hulda María, Lilja, Gunnar Ágúst og Haukur Davíð. Sigrún átti fyrir dótturina Aldísi Garðarsdóttur. Aldís býr í Malmö Svíþjóð og er gift Rickard Rosenlund. Börn þeirra eru Þórhildur Sif, Sonja, Ísak Arn og Amelía.

Arnbjörn útskrifaðist frá Skipstjóra- og stýrimannaskólaskólanum í Reykjavík og vann á sjó frá unga aldri sem háseti og skipstjórnarmaður frá Grindavík og Suðurnesjum. Einnig vann hann sem eftirlitsmaður hjá Fiskistofu og lauk starfsævi sinni þar.

Útförin fer fram frá Grindavíkurkirkju í dag, 14. mars 2022, klukkan 14.

Elsku pabbi, þá er komið að kveðjustund, það er skrýtið að hugsa til þess að við eigum ekki eftir að sjá þig aftur. Það er margs að minnast og munum við ylja okkur við minningarnar um ókomna tíð. Þær voru ófáar veiðiferðirnar sem við fórum og þær voru enn fleiri sem hann bað okkur að koma í. Hann var veiðimaður af lífi og sál og lifði fyrir það að komast upp á fjöll og veiða.

Pabbi var stór karakter og það fór ekki fram hjá neinum þegar hann mætti á svæðið. Hann var gjafmildur og gaf bestu gjafirnar. Ein minning síðan ég var lítil stelpa en þá vaknaði ég um morguninn og kom fram, þá hafði hann verið að koma úr siglingu og eldhúsborðið var þakið í gjöfum og nammi. Svo lýsandi fyrir pabba sem vildi alltaf gleðja fólkið sitt.

Hann var mikill fjölskyldumaður og eftir að hann hætti að vinna og barnabörnunum fór fjölgandi þá talaði hann alltaf um að þau væru hans raunverulegi fjársjóður. Veikindi hans voru búin að taka af honum stóran toll síðustu árin en alltaf hélt hann í vonina um að hann yrði betri og til dæmis hringdi hann stuttu áður en hann dó og var að athuga hvenær hann kæmist í veiði.

En nú er komið að leiðarlokum og kveðjum við þig að sinni, elsku pabbi. Þangað til næst þín

Sara.

Addi frændi var uppáhaldsfrændinn minn. Þegar ég lít til baka til æsku minnar, þá var alltaf tilhlökkun og eftirvænting þegar Addi var á leiðinni í sveitina. Það lifnaði yfir öllu þegar hann kom á svæðið og hrossahláturinn, aulabrandarar og stórkarlalegt brosið gerði einhvern veginn allt skemmtilegra.

Addi frændi var iðulega að brasa eitthvað og vildi hafa mann með sér. Sama hvert verkefnið var þá nennti hann að dragnast með mann og djókaði út í eitt á meðan verkinu var sinnt. Manni fannst þetta sjálfsagt þá, en auðvitað var það ekki, því maður var jú bara óstýrilátur krakki.

Ég man vel eftir heimsóknum í Grindavík þegar ég var lítill. Sitja við matarborðið með Adda á Hraunbrautinni, drekka þunnt sykrað mjólkurkaffi, fara á rúntinn á sjálfskipta Galantinum, brasa eitthvað í bílskúrnum eða bara segja aulabrandara. Ég á sterka minningu, sem ég veit ekki hvort sé almennilega sönn, en þá leyfði Addi frændi mér að stýra Bronconum í torfærum. Ég sat í kjöltu hans og stýrði leðurstýri á meðan jeppinn öskraði í blíðskaparveðri. Addi frændi var nefnilega alvörutöffari í mínum augum, enginn gúmmítöffari.

Þegar ég varð eldri þá hittumst við iðulega með Veiðifélaginu Nökkva, ásamt öðrum úr föðurfjölskyldu minni. Addi hafði oft frumkvæðið að slíkum ferðum sem í dag eru hafsjór af góðum minningum. Letingjar, massíf veiðarfæri, klappstóll og beita voru hans ær og kýr, ásamt því að veiða í net. Og blessað brasið við bátinn hans pabba míns, Karítas Pétursey, sem Addi krafðist ávallt að væri með í för. Eftir því sem árin liðu færðu sumir sig yfir í léttari veiðigræjur og vildu ekki alltaf hirða bráðina. Það þótti Adda frænda vitleysa og lét mig og aðra frændur stundum heyra það þegar við vorum að sleppa fiskum. Addi frændi var nefnilega af gamla skólanum, heim skyldi bráðin og nýtt.

Sérstaklega er ég þakklátur fyrir síðustu ferðina, sem ég og strákarnir mínir fóru saman með ömmu Ingu í Hlíðarvatn. Þar kom Addi frændi í öllu sínu veldi á Bens-jeppanum, brosandi út að eyrum, hlæjandi með tilhlökkun í rómnum. Mikið er ég þakklátur fyrir að þetta er síðasta minningin mín um Adda frænda.

Eins og allir menn þá var Addi frændi breyskur og tókst á við ýmislegt mótlæti í lífinu. Eins og ég sjálfur og við flestöll. Um slíka hluti var aftur á móti lítið rætt okkar á milli, enda engin þörf á. Ég held nefnilega að ég hafi aldrei verið almennilega fullorðinn í hans augum, ekki frekar en að hann var aldrei gamall fyrir mér.

Addi frændi hafði þann sið að heilsa og kveðja með faðmlagi og kossi. Ég var ekki vanur þessu þegar ég var yngri, tíðkaðist ekki í sveitinni, en lét samt alltaf tilleiðast þótt skrýtið væri. En eftir því sem maður þroskast og eldist, skynjar maður hvað þetta skiptir miklu máli. Ég held og trúi að hann hafi verið að segja manni hversu vænt honum þótti um mann.

Ég mun sakna þess að fá að heilsa og kveðja uppáhaldsfrænda minn með hlýju faðmlagi og kossi á kinn. En ljúfar minningar um Adda frænda mun ég geyma í hjarta mínu og rifja upp í næstu veiðiferð.

Þórólfur Heiðar

Þorsteinsson.

Kyrrðin á heiðinni

Kyrrðin á heiðinni hríslast um brjóst

mér, ilmþung

hádegiskyrrð, fuglar, sólglitað lyng,

fölgrænar mýrar milli kjarrgrænna

halla,

maður á gangi, bláfjöllin allt í kring.

Ég leggst í grasið og loka augunum,

heyri

lind á heiðinni, djúpt undir jörð og sól

streymir hún hljóðlát, geymir hún

landið, líf hvers

lítils blóms og dýrs og manns sem

það ól.

(Snorri Hjartarson)

Ljóðaunnandinn, veiðimaðurinn, göngumaðurinn, sjómaðurinn, sögumaðurinn, kær bróðir og mágur er allur. Við hlustum ekki lengur á sögurnar hans, oft langar, en alltaf skemmtilegar enda var Addi sögumaður af guðs náð. Við heyrum ekki lengur hláturinn né förum með honum að veiða. Hann bendir okkur ekki lengur á bestu veiðistaðina þar sem hann hafði veitt í áraraðir og alltaf, að eigin sögn, komið heim með góðan afla. Hann kemur ekki lengur með fisk og hellir í vaskinn og spyr hvort maður sé ekki tilbúinn til að flaka þetta sjálfur og hlær hátt sínum einstaka hlátri. Hann drekkur ekki lengur nokkra brúsa af kaffi og segir að það sé nauðsynlegt hverjum manni að innbyrða nóg koffín, það örvi heilafrumurnar. Nú vantar einn dyggasta stuðningsmann Liverpool-liðsins, manninn sem taldi öll önnur lið vera annars flokks. Sjómanninn sem var góður til vinnu, hvaða stöðu sem hann gegndi. Vinsæll hjá áhöfnum enda alltaf tilbúinn að drífa hlutina áfram og segja sögur í messanum. Göngumanninn sem hafði gengið um hálendið og Reykjanesið þvert og endilangt. Bróðirinn sem kom oft til okkar í sveitina til að aðstoða okkur og þá voru það ekki bara við, fullorðna fólkið, sem glöddumst yfir komu hans heldur voru krakkarnir ekki síður ánægð með að fá hann til okkar. Síðar voru það ekki bara þau heldur hélt hann vinsældum sínum áfram hjá barnabörnum okkar sem mörg hver fengu að fara með honum í veiði og læra af honum. Það var alltaf líf og fjör í kringum hann. Allt þetta og miklu meira verður nú að minningum um manninn sem gaf okkur mikið af sjálfum sér. Ljóðið eftir Snorra Hjartarson hér að ofan er lýsandi fyrir þann sem líður best úti í náttúrunni, fyllist þar krafti, sem liggur í grasbala og nýtur þess að vera hluti af ósnortnu landi. Þannig var Addi og þannig er gott að minnast hans. Hans er sárt saknað en við munum segja af honum sögur og þannig mun minningin um góðan dreng lifa í hugum okkar allra.

Þorsteinn H. og

Inga Þórunn.