Helgi Áss Grétarsson
Helgi Áss Grétarsson
Helgi Áss Grétarsson, stórmeistari og lögmaður, hefur ritað nokkrar athyglisverðar greinar um borgarmál að undanförnu. Um helgina fjallaði hann um skipulagsmál og benti á að borgin geti stækkað: „Nægt er byggingarlandið, svo sem austan Elliðaáa.

Helgi Áss Grétarsson, stórmeistari og lögmaður, hefur ritað nokkrar athyglisverðar greinar um borgarmál að undanförnu. Um helgina fjallaði hann um skipulagsmál og benti á að borgin geti stækkað: „Nægt er byggingarlandið, svo sem austan Elliðaáa. Breyta þarf skipulagi til að greiða fyrir slíkri uppbyggingu. Fordómar gagnvart notkun ökutækja í einkaeigu eiga ekki að koma í veg fyrir að skipulagsvaldi borgarinnar sé beitt með skynsamlegum hætti. Samhliða breyttu skipulagi þarf að fjárfesta töluvert í samgönguinnviðum, svo sem eins og Sundabraut.“

Helgi Áss hefur áður nefnt einkabílinn og aðför vinstri meirihlutans að honum, þrátt fyrir augljósan vilja íbúanna til að nota þennan ferðamáta. Og hann hefur bent á að fyrirhuguð borgarlína sé of dýr, auk þess sem óvissa ríki um kostnað og rekstur. „Miðað við reynsluna af því að reka Strætó bs. undanfarin ár er fyllsta ástæða til að ætla að rekstur borgarlínuverkefnisins endi sem þungur baggi á skattgreiðendum. Þess vegna þarf að taka þetta verkefni til rækilegrar endurskoðunar,“ segir hann.

Miklu skiptir í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna að talað sé skýrt um helstu mál. Kjósendur þurfa að standa frammi fyrir skýrum kostum. Þeim býðst í Reykjavík að kjósa vinstri flokkana áfram með tilheyrandi þrengingum gatna, lóðaskorti, skuldasöfnun og óviðunandi grunnþjónustu borgarinnar. Sá kostur er skýr, en hinn kosturinn verður einnig að vera það svo að kjósendur hafi raunverulegt val.