Gjafir Hjálparsamtökin sem Birgir er með gefa meðal annars börnum á flótta leikföng. Börnin eru í skólabyggingu.
Gjafir Hjálparsamtökin sem Birgir er með gefa meðal annars börnum á flótta leikföng. Börnin eru í skólabyggingu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Inga Þóra Pálsdóttir ingathora@mbl.is „Við erum að leggja grunninn að því að senda hjálpargögn hingað og fórum að skoða aðstæður.“ Þetta segir Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem er staddur í borginni Lviv í Úkraínu.

Inga Þóra Pálsdóttir

ingathora@mbl.is

„Við erum að leggja grunninn að því að senda hjálpargögn hingað og fórum að skoða aðstæður.“

Þetta segir Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem er staddur í borginni Lviv í Úkraínu. Birgir er þar ásamt þeim Majed El Shafie, sem rekur hjálparsamtökin One Free World International, og Wladyslaw Lizon, fyrrverandi þingmanni í Kanada.

Þegar Morgunblaðið náði tali af Birgi í gær hafði hann verið í Úkraínu í tvo daga og stefndi að því að hefja ferðina heim til Íslands í dag.

„Andrúmsloftið hérna er sérstakt. Í kvöld fundum við fyrir sprengjum og loftvarnaflautur fóru í gang,“ segir Birgir.

Spurður hvernig það væri að finna fyrir sprengjum á nóttunni segir hann skjálftann frá þeim minna á jarðskjálftana í Fagradalsfjalli sem margir íbúar Reykjanesskaga fundu töluvert fyrir í byrjun árs 2021 áður en eldgos braust út í mars. „Sprengjan sem var í nótt var mjög öflug, en hún var í 35 kílómetra fjarlægð. Hún minnti mig á jarðskjálftana við Fagradalsfjall.“

Heimsóttu herspítala

Hjálparsamtökin sem Birgir er með í Úkraínu vinna til að mynda að því að koma mat og lyfjum til þeirra í neyð. Með þeim hefur Birgir meðal annars heimsótt munaðarleysingjaheimili og herspítala í Lviv. Hann segir heimsóknirnar hafa verið átakanlegar.

„Við töluðum við unga hermenn sem höfðu slasast alvarlega í stríðinu. Það var átakanlegt að sjá unga menn sem voru til dæmis búnir að missa fót eða hönd.“

Vesturlönd veiti frekari aðstoð

Þá hefur Birgir, ásamt ferðafélögunum, átt samtöl við stjórnvöld í Lviv. Hann telur augljóst að Vesturlönd þurfi að grípa til frekari aðgerða til að styðja við Úkraínu, líkt og landið hefur kallað eftir.

„Við áttum fund með fylkisstjóra í Lviv sem fræddi okkur um hvernig staðan væri. Fólk óttast að átökin séu að færast hingað niður eftir. Það liggur nánast allt landið undir.

Vesturlöndin verða að fara að grípa inn í þetta núna með því að banna flug yfir Úkraínu. Þeir sem við höfum talað við hér, bæði frá hernum og stjórnvöld í Lviv, leggja allir þunga áherslu á þetta.“