Ámundi Gunnar Ólafsson flugstjóri fæddist í Reykjavík 21. júní 1937. Hann lést á líknardeild Landspítala 19. janúar 2022.

Foreldrar hans voru hjónin Ragnheiður Bjarnadóttir, skrifstofumaður hjá Loftleiðum, f. 22 janúar 1918 í Reykjavík, d. 27. apríl 2011, og Ólafur Þ. Bjarnason, skrifstofustjóri og gjaldkeri hjá Loftleiðum, f. 10. janúar 1915, d. 22. mars 1960.

Systur Ámunda eru Lilja Ósk, f. 18.9. 1944, Guðlaug Ingibjörg, f. 11.1. 1950, og Júlíana Bjarndís, f. 29.4. 1954.

Ámundi giftist hinn 24. desember 1960 Sigrúnu Þórisdóttur, lyfjafræðingi hjá Ingólfsapóteki, Apóteki Austurbæjar og Reykjavíkurapóteki, og seinna lífeindafræðingi hjá Landspítalanum. Foreldrar hennar voru hjónin Laufey Þórmundardóttir húsfrú, f. 4. desember 1908, d. 11. desember 1999, og Þórir Steinþórsson, bóndi og skólastjóri, f. 7. maí 1895, d. 5. júní 1972.

Dætur Ámunda og Sigrúnar eru: 1) Ólöf Ragna sjúkraþjálfari, f. 11. maí 1960, dóttir hennar er Sigrún Meng, f. 21. september 2002. 2) Laufey Þóra sameindalíffræðingur, f. 28. nóvember 1962, gift Þorkeli Andréssyni sameindalíffræðingi, f. 15. apríl 1964, þeirra börn eru Andrés, f. 11. febrúar 1997, og Guðrún Lilja, f. 7. júní 2001. 3) Sigrún tölvunarfræðingur, f. 6. mars 1965, gift Guðna Ingólfssyni tölvunarfræðingi, f. 8. maí 1967, þeirra dætur eru Unnur, f. 28. september 1993, sambýlismaður Arnþór Helgi Sverrisson, dóttir þeirra f. 30. janúar 2022, Laufey, f. 18. september 1996, sambýlismaður Tómas Tryggvason, og Auður, f. 22. september 1999, kærasti Hlynur Orri Einarsson.

Ámundi ólst upp á Skarphéðinsgötu 18 í Reykjavík. Hann var gagnfræðingur frá Gagnfræðaskóla Vesturbæjar og lauk síðan atvinnuflugmannsprófi frá flugskóla Þyts árið 1959, prófi í loftsiglingafræði árið 1959 og flugstjóraprófi árið 1966. Hann var flugleiðsögumaður, flugmaður og flugstjóri hjá Loftleiðum og síðar Flugleiðum frá 1959 til 2002.

Útför Ámunda fór fram í kyrrþey 12. mars 2022.

Flugáhugi er merkilegur að því leyti að ómögulegt er að losna við hann þegar hann hefur einu sinni stungið sér niður. Því fékk ég að kynnast hjá tengdaföður mínum, Ámunda Gunnari Ólafssyni, þegar við kynntumst fyrir þriðjungi úr öld. Hann byrjaði ungur að vinna hjá Loftleiðum, þar sem faðir hans vann fyrir og móðir hans síðar. Fyrst vann hann ýmis störf á jörðu niðri en fljótlega fór hann að læra flug. Um borð í flugvél starfaði hann fyrst sem flugleiðsögumaður, síðan flugmaður og fyrir þrítugt er hann orðinn flugstjóri en sem slíkur vann hann út starfsævina, lengst af á DC8- og Boeing 757-þotum.

Loftleiðir eru stofnaðar árið 1944 þegar Ámundi er rétt kominn á skólaaldur. Hann fer síðan að vinna við flug beint í kjölfar frumkvöðla þess á Íslandi. Hann var því hafsjór fróðleiks um menn og málefni er tengst hafa fluginu og höfðum við gaman af því að bera saman bækur okkar, en tími okkar hjá Flugleiðum skaraðist um nokkur ár. Hann var farsæll flugmaður og tryggur fyrirtækinu.

Ámundi kynntist Sigrúnu Þórisdóttur á dansleik í Borgarfirði en hún bjó þá í Héraðsskólanum í Reykholti þar sem faðir hennar var skólastjóri. Þau giftu sig á aðfangadag 1960, bjuggu fyrst í fjölskylduhúsi Ámunda í Drápuhlíðinni en gerðu sér síðan heimili á Háaleitisbraut og síðar í nýbyggðum Fossvoginum þar sem þau bjuggu síðan alla tíð. Ámundi og Sigrún eignuðust þrjár dætur, Ólöfu Rögnu, Laufeyju Þóru og Sigrúnu. Barnabörnin eru sex og barnabarnabarn eitt.

Ég kem inn í fjölskylduna sem kærasti og síðar eiginmaður yngstu dóttur þeirra Ámunda og Sigrúnar. Frá fyrstu stundu var vel tekið á móti mér. Stutt var við ungu fjölskylduna á allan mögulegan hátt. Þegar Ámunda þótti fjölskyldubíll litlu fjölskyldunnar orðinn ónothæfur fann hann þörf hjá sér til að skipta sjálfur um bíl og ekki kom annað til greina en að ungu hjónin fengju gamla bílinn hans og greiðslum máttum við dreifa eins og efni leyfðu. Þetta gekk svona nokkrum sinnum á meðan fjölskyldan okkar stækkaði.

Ámundi ferðaðist víða um heiminn, bæði í starfi sínu sem og frítíma. Ekki var því farið úr landi án þess að fá góð ráð og jafnvel vegakort ef til stóð að keyra fyrir tíma gps-tækja. Mátti á þeim kortum oft sjá að merkt hafði verið við flugvelli sem hann hafði jafnvel tekið aukakrók til að skoða á ferðum sínum. Á sama hátt fannst honum aldrei neitt tiltökumál að taka aukakrók fyrir afkomendur sína. Ég var heppinn að fá að þekkja og umgangast tengdaföður minn í rúm þrjátíu ár og þakka ég fyrir þau öll. Þau viðkynni einkenndust af ánægju, fróðleik og hlýju. Blessuð sé minning tengdaföður míns, Ámunda G. Ólafssonar.

Guðni Ingólfsson.

Það er með miklum hlýhug og söknuði sem ég kveð tengdaföður minn Ámunda G. Ólafsson. Á þessari kveðjustund koma upp margar góðar minningar um heilsteyptan, hlýjan og traustan mann. Ámundi var mikill fjölskyldumaður og fylgdist ótrúlega vel með dætrum sínum og barnabörnunum. Honum fannst gott að vita hvar við vorum stödd og hvernig gengi, sérstaklega í jeppaferðum upp á öræfum og jöklum á Íslandi eða á ferðalögum erlendis. Þá fannst honum gott að fá símtöl og texta til að láta hann vita að allir væru komnir heilir á húfi á áfangastað.

Ámundi var ótrúlega traustur og þolinmóður við alla í kringum sig og var óþreytandi við að fræða barnabörnin um mannkynssögu, landafræði og bókmenntir, og lesa fyrir þau kvæði. Hann var afar stoltur af börnunum og barnabörnunum og fylgdist grannt með öllu því sem þau tóku sér fyrir hendur. Hann var líka alltaf til í skutla þeim eða fara með þau í bíltúr, til dæmis niður á höfn að skoða skipin og að kaupa ís, því þá gat hann rabbað við þau í ró og næði um alla heima og geima. Ámundi las mjög mikið og var alltaf með bók sér við hlið. Hann var mikill áhugamaður um mannkynssögu og þá sérstaklega um sögu flugsins og heimsstyrjöldina síðari. Þetta sameiginlega áhugamál varð okkur uppspretta að mörgum skemmtilegum umræðum eins og til dæmis hvernig útkoman hefur haft áhrif á heimsmálin síðustu áratugina og enn þann dag í dag.

Ámundi vann lengi sem flugmaður og flugstjóri hjá Loftleiðum og Flugleiðum. Þó að flugið hafi verið atvinna hans var það líka eitt af hans aðaláhugamálum. Þau Sigrún tengdamamma komu oft í heimsókn til okkar í Bandaríkjunum og þegar við ferðuðumst um voru yfirleitt skoðaðir allir litlir flugvellir sem á vegi okkar urðu. Hann hafði sérstakt lag á að finna þessa flugvelli og vissi náttúrlega allt um sögu flugsins. Vinir okkar hér í Bandaríkjunum tala líka enn um hvílíkt ævintýri það var að fljúga með honum í fjögurra sæta vél og skoða náttúruperlur Suðurlands. Mér er líka minnisstætt þegar við fórum í ferðalög saman hvað honum fannst skemmtilegt að skoða flugskóla flughersins í Colorado Springs í Colorado, sem og John F. Kennedy-geimstöðina í Flórída.

Eftir að tengdamamma féll frá fyrir nokkrum árum og Ámundi greindist sjálfur með illvígan sjúkdóm, tók hann því með ótrúlegu æðruleysi og kvartaði aldrei, alveg fram á síðasta dag. Ég þakka Ámunda yndislegar samverustundir og minnist hans með hlýhug og þakklæti.

Þorkell Andrésson.

Nú er elsku afi minn farinn á betri stað eftir langa baráttu við krabbamein. Farinn frá mér og okkur öllum á vit ævintýranna, til ömmu og annarra ástvina okkar sem við söknum, minnumst og elskum á hverjum degi.

Ég gæti skrifað heila ævisögu og meira til um það hve mikið ljúfmenni afi var. Hve mikið hann kenndi mér og hve stór hluti af lífi mínu hann var. Í stað þess ætla ég að minnast hans í nokkrum orðum.

Afi var gæddur prúðmennsku, snilligáfu og manngæsku. Hann hugsaði af einstakri natni um sitt fólk. Hann hjálpaði, leiðbeindi og studdi í gegnum þykkt og þunnt. Hann kom mér í föðurstað og var sannkölluð fyrirmynd. Hann sýndi mér góðmennsku og kærleika á hverjum degi, en einnig réttsýni, traust, þolinmæði og svo mætti lengi telja. Hann sýndi öðru fólki alltaf virðingu og tillitssemi og fylgdi hinni gullnu reglu allt fram í andlátið. Hann kom fram við aðra eins og hann vildi að aðrir kæmu fram við sig. Já, hann afi minn var sannkallaður öndvegismaður og mun ég taka gildi hans með mér út í lífið.

Ég var heppin að eiga sterkt og gott samband við afa minn, sem er alls ekki sjálfgefið. Við vorum virkilega góðir vinir og nutum félagsskapar hvort annars og alltaf var stutt í glensið og gamanið hjá okkur. Það var aldrei dauð stund með afa, við tefldum, teiknuðum, bjuggum til heilu spilaborgirnar, hlustuðum á tónlist, fengum okkur súkkulaðiköku og ís og spjölluðum um daginn og veginn. Hann var sérstaklega góður hlustandi. Hann hjálpaði mér einnig með hvað sem var, hvort sem það var heimanám eða skutl á milli skóla og tómstunda, og auðvitað má ekki gleyma æfingaakstrinum og öllum Ikea-innréttingunum. Góðar minningar tengjast öllum ferðalögunum okkar saman með mömmu og ömmu. Til Akureyrar, í sumarbústaði, til Flórída, Washington, London, eða jafnvel ísbíltúrar út á Eiðistorg.

Ekki mun líða sá dagur þar sem ég mun ekki hugsa til afa og sakna hans. Betri, þolinmóðari, jákvæðari, ljúfari og yndislegri mann er ekki hægt að finna. Ég kveð hann með þakklæti og söknuði, hann verður alltaf hjá mér. Minning hans mun lifa í huga okkar allra, ávallt.

Sigrún Meng Ólafardóttir.

Minningar okkar um afa Munda munu lifa með okkur um ókomna framtíð. Í sorginni og söknuðinum eru þessar minningar svo sérstaklega dýrmætar. Hann afi var svo hlýr við alla í kringum sig og alltaf fyrstur að hjálpa þegar eitthvað bjátaði á. Afi byggði ótrúlega flott spilahús og spilaborgir með okkur þegar við vorum yngri og fengu þau oft að standa í stofunni í Hjallalandinu í marga daga. Hann var alltaf tilbúinn að skutla okkur á fótboltaæfingar og í bíó og duglegur að bjóða okkur í ísleiðangra og stundum gleymdist alveg að það væri stutt í kvöldmatinn.

Alltaf var hægt að treysta á afa og hann var alltaf svo áhugasamur um það sem við vorum að gera, hvort sem það tengdist skólanum, vinum okkar eða áhugamálunum. Hann var endalaust þolinmóður við alla í kringum sig og kennari af lífsins náð. Hann nýtti öll tækifæri til að kenna okkur landafræði þegar við heimsóttum þau ömmu Buddu á sumrin og kunni nöfnin á öllum fjöllum, víkum og heiðum um allt landið. Hann kenndi okkur líka að lesa í skýin og vinda og vissi alltaf nákvæmlega hvernig veðrið var hjá okkur hér í Gaithersburg þar sem við höfum búið lengi.

Afi lærði aldrei á hljóðfæri en var samt mjög lagviss og gat spilað flest lög á píanó. Honum fannst gaman að hlusta á okkur spila á píanóið og leyfði okkur að hlusta á sín uppáhaldslög (oftast country lög) og var líka alveg til í að hlusta á okkar uppáhaldslög. Afi var líka mjög snjall skákmaður og duglegur að miðla af sinni kunnáttu. Hann kenndi okkur mannganginn og var alltaf til í að tefla og fara yfir skemmtilega leiki með okkur. Afi var líka sá sem leyfði okkur að keyra við sumarbústaðinn í Múlakoti löngu áður en við urðum nógu gömul til að fara í ökukennslu. Okkur fannst það náttúrulega mjög skemmtilegt og oft var mikið hlegið þegar við keyrðum út að hliði og aftur til baka að sumarbústaðnum. Afi var ótrúlega skemmtilegur og glettinn og það var alltaf stutt í bros og hlátur. Við minnumst hans með mikilli hlýju og væntumþykju og varðveitum allar samverustundirnar með honum og ömmu í hjörtum okkar.

Andrés og Guðrún Lilja.

Það ert ekki hægt að setja það í orð hversu sárt það er að missa afa Munda en hann var og verður alltaf besti vinur okkar og ein helsta fyrirmynd.

Það sem einkenndi afa hvað mest var hversu hlýr og þolinmóður hann var. Það getur ekki hver sem er tekið það á sig að kenna öllum barnabörnunum að keyra á malarvegum uppi í sveit og svo seinna í æfingaakstri í bænum. Afi var þó líka prakkari sem fannst skemmtilegt að gantast og hlæja með okkur krökkunum, hann sagði þá oft að það sæist á nefinu á okkur þegar við værum að prakkarast. Við munum líklegast öll spyrja okkar börn í framtíðinni hvort þau „sjái fiðrildið“ og benda út í loftið til þess að geta rænt frá þeim smá ís eins og afi átti það til að gera.

Afi hafði brennandi áhuga á öllu sem við barnabörnin tókum okkur fyrir hendur og fannst fátt notalegra en að keyra okkur þvert um Reykjavík á æfingar þar sem við gátum spjallað alla leiðina. Hann mætti líka eins og hann gat til þess að styðja okkur, hvort sem það væru sundmót, fótbolti, ballettsýningar eða tónleikar, alltaf okkar helsti aðdáandi.

Við erum ótrúlega heppin með það hvað við eigum margar og góðar minningar með afa, ísbíltúrar, samvera í sumarbústaðnum, fá að fljúga með honum og hlusta á hann segja okkur Búkollu fyrir svefninn þegar við fengum að gista í Hjallalandinu.

Afi verður alltaf með okkur, hvort sem við erum að ná í indverskan „take away“, fljúga til útlanda eða að passa að bíllinn sé kominn á sumardekk á réttum tíma.

Við elskum þig afi.

Unnur, Laufey og

Auður Guðnadætur.

Á unglingsárunum eignaðist ég eina bestu vinkonu sem hugsast getur. Við Sigrún höfum svo sannarlega brallað margt saman í gegnum þessi 45 ár og vináttan styrkst með hverju ári. En þegar maður er unglingur er það nú oftast þannig að fjölskylda vinarins verður einnig hluti af lífinu. Og þannig var það hjá okkur, við Sigrún vorum heimagangar hvor hjá annarri, kannski ég oftar hjá henni þar sem Hjallalandið var alltaf í leiðinni fyrir mig í og úr skóla. Þó svo Ámundi og Sigrún hafi átt þrjár dætur fyrir fannst mér einhvern veginn ég stundum vera eins og fjórða systirin. Ámundi keypti oft saltpillur á leiðinni heim úr flugi og þá laumaði hann gjarnan einum poka að mér líka. Seinna meir voru það reyndar ýmsir stærri hlutir sem Ámundi lagði á sig að kaupa fyrir mig erlendis því honum fannst alveg ótækt að ég væri að kaupa græjur, hjól og fleira hér á landi þegar hann gat reddað hlutunum á mun ódýrari hátt. Sumarið 1984 unnum við Sigrún við jarðarberjatínslu og fleira í Noregi og fyrir sumarhýruna fórum við svo á interrail um Evrópu í einn mánuð. Við enduðum ferðalagið í Lúxemborg þangað sem Ámundi kom og „sótti“ Sigrúnu en ég átti að fljúga heim frá Amsterdam degi seinna. Í þá daga kostaði mikla peninga að fljúga og þetta reyndist ódýrasta leiðin fyrir mig. Við vorum svo ótrúlega spenntar að hitta Ámunda, hann vinkaði okkur úr flugstjórnarklefanum þar sem við stóðum uppi á þaki á flugstöðinni. Þegar við hittum hann svo loksins og komið var að kveðjustund bað hann mig aðeins að koma með sér sem ég og gerði en ég vissi ekki af fyrr en ég var komin í flugstjórnarklefann í aukasæti á heimleið, því Ámundi gat ekki hugsað sér að kveðja og skilja mig eina eftir. Þessu þögðum við Sigrún yfir í nokkra áratugi enda mátti þetta alls ekki fréttast. Það hlýtur að vera í lagi láta þetta flakka núna.

Já, Ámundi var einstakur maður, hæglátur en lét mann svo finna fyrir væntumþykju í hvert sinn sem við hittumst. Hann átti svo fallega fjölskyldu og frábær barnabörn en einhvern veginn fannst mér stundum eins og hann ætti líka hlut í drengjunum mínum þremur. Hann sýndi þeim svo mikinn áhuga og síðustu vikurnar var hann enn að spyrja um Eyþór minn sem stundar nám hjá Coast Guard Academy í BNA. Sigrún mátti hafa sig alla við að færa honum nýjustu upplýsingar. Ég var svo glöð að hafa fengið að prjóna nokkur pör af ullarsokkum á hann síðustu ár sem hann kunni svo vel að meta.

Elsku Sigrún, Ólöf, Lulla og fjölskyldur, það er skyndilega orðið tómlegt hjá ykkur að missa foreldra ykkar með frekar stuttu millibili en lífið heldur áfram og um daginn kom fyrsta langafa- og ömmubarnið sem þau fá ekki að upplifa en eftir situr væntumþykjan og minningar um yndislegt fólk.

Helga Sveinsdóttir.

Sorglegur er hann fylgifiskur margra aldursára að sjá iðulega á bak góðum samferðarmönnum. Þegar við Þurý byrjuðum að vera saman tengdist ég stórri og skemmtilegri fjölskyldu þeirra Þóris og Lullu í Reykholti. Þau heiðurshjón eru eðli máls samkvæmt löngu farin, og öll börn Þóris og Þuríðar úr Mývatnssveitinni, og þar með sú kynslóð öll. Dætur Þóris og Lullu, Sigrún og Þóra aftur á móti allmiklu yngri og nær kynslóð elstu barnabarnanna í fjölskyldunni, þar sem Þurý er elst, nánast jafnaldra Þóru.

Sigrún lést árið 2017 og nú kveðjum við hann Ámunda hennar. Ég þekkti hann ekki áður en hann tengdist Reykholtsfjölskyldunni, en vissi auðvitað af honum. Sérstakur ævintýraljómi var yfir þeim sem lærðu til flugs og við strákarnir meðvitaðir um rætur Ámunda til Laugalands, og hreyknir af þeim borgfirsku tengslum.

Þegar ég svo kynntist Munda, eins og hann var ávallt kallaður, kom hann mér fyrir sjónir sem hógvær og dagfarsprúður maður. Átti það til að skjóta á mann stríðnislegum athugasemdum, þess eðlis að hvöttu til líflegra samræðna um margvísleg málefni. Seinna urðum við svo nábúar í Fossvoginum og nú eftir að þau eru bæði farin, Sigrún og hann, finn ég til söknuðar yfir alltof litlum samskiptum okkar á þeim vettvangi. Helst að við hittumst á síðustu árum á fjölskyldumótum í Brekkukoti, sem Valdi og Lóa hafa staðið fyrir af miklum dugnaði. Ég hef hins vegar á undanförnum árum tekið þann pól í hæðina að í stað þess að setja jólakort til þeirra í póst að fá mér göngutúr með það í Hjallalandið. Því miður hittist oft svo á að Mundi var ekki heima, en núna í desember var ég svo heppinn að hitta hann. Sá þá, sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir þrátt fyrir að vita að hann hafði átt við veikindi að stríða, hvað hann var orðinn veikburða. En við náðum samt ágætisspjalli og þetta varð mér hugljúf samverustund, sem mig grunaði að yrði okkar síðasta. Fyrir hana er ég afar þakklátur nú.

Við Þurý sendum Ólöfu, Laufeyju, Sigrúnu og fjölskyldum þeirra hugheilar samhryggðarkveðjur, svo og stórfjölskyldunni allri. Bjart er yfir minningu þeirra Sigrúnar Þórisdóttur og Ámunda Ólafssonar.

Óli H. Þórðarson.