Ingi Guðjónsson bílstjóri fæddist á Hvolsvelli 4. janúar 1943. Hann lést á dvalarheimilinu Kirkjuhvoli, Hvolsvelli þann 4. mars 2022. Á Kirkjuhvoli hafði hann dvalið í skamman tíma vegna veikinda.

Foreldrar hans voru Guðjón Jónsson, f. 10. september 1914, d. 20. ágúst 1990, og Kristbjörg Lilja Árnadóttir, f. 21. mars 1914, d. 17. janúar 1985.

Systkini Inga eru Rúnar Guðjónsson, f. 1. desember 1940, maki Auður Svala Guðjónsdóttir, f. 2. desember 1942. Þau eiga þrjú börn.

Erna Hanna Guðjónsdóttir, f. 6. október 1952. Hún á einn son.

Margrét Guðjónsdóttir, f. 30. október 1956, maki Kjartan Óskarsson f. 7. október 1959. Þau eiga tvö börn.

Ingi kvæntist Dagnýju Hermannsdóttur 1962 en þau skildu. Þau eignuðust fimm börn. Stúlka Ingadóttir f. 5. maí 1962, d. 21. maí 1962. Hermann Ingason, f. 16. ágúst 1963, hann á sex börn. Guðrún Ingadóttir, f. 17. október. 1964, maki Gunnar Sveinsson, þau eiga tvö börn. Lára Ingadóttir, f. 5. desember 1967, maki Steve Drake (látinn). Ingi Ingason, f. 30. desember 1969, hann á þrjú börn.

Sambýliskona Inga frá 1999 var Gróa Halldórsdóttir.

Ingi er fæddur og uppalinn á Hvolsvelli og bjó þar alla sína ævi. Hann hafði snemma áhuga á bílum og voru þeir hans aðal áhugamál alla tíð. Hann hóf að keyra vörubíl um tvítugt hjá Kaupfélagi Rangæinga og hans seinni störf voru öll tengd akstri, svo sem fyrir N1 og Kynnisferðir.

Útför Inga fer fram frá Stórólfshvolskirkju Hvolsvelli í dag, 14. mars 2022, kl. 14.

Við kveðjum þig í dag, elsku afi. Ósjálfrátt reikar hugurinn til barnæskunnar og góðu stundanna á Hvolsvelli, í húsinu þínu í Stóragerði. Þar var ýmislegt brallað og alltaf vorum við velkomin til afa. Allskonar bras með þér á bensínstöðinni og í sjoppunni þar sem þú varst ávallt hrókur alls fagnaðar. Þú varst alltaf svo kátur og það var alltaf gaman að vera í kringum þig. Glettnin í augunum, húmorinn sem aldrei var langt undan og hlátrasköllin sem við munum öll sakna. Þú hafðir unun af því að aka með fólk út um víðan völl og það smitaði út frá sér. Þú eignaðist kunningja og vini í þessum ferðum og við fengum oft að heyra hvað þessar ferðir gáfu öðrum, þ.e. samveran með þér. Nú sjáum við þig fyrir okkur þeysast um á mótorhjóli í sumarlandinu, með sömu glettni í augunum, og erum þakklát fyrir þig, elsku afi. Við munum minnast allra góðu stundanna með hlýju í hjarta og bros á vör.

Telma Björk, Unnur Lilja og Jón Þór.

Látinn er elskulegur bróðir okkar Ingi Guðjónsson eftir erfið veikindi. Ingi var áður búinn að fá krabbamein í tvígang og verið mikið veikur en alltaf reis hann upp hress og glaður og tókst að sigrast á veikindunum. Í þetta skiptið hafði krabbinn betur og lést hann á dvalarheimilinu Kirkjuhvoli á Hvolsvelli 4. mars sl.

Ingi ólst upp á Hvolsvelli hjá kærleiksríkum foreldrum og í fjölskylduvænu umhverfi. Amma og afi bjuggu í húsi við hliðina og tvö móðursystkini hvort í sínu húsinu á móti okkar með sínar fjölskyldur.

Þegar Ingi var að vaxa úr grasi þá tóku foreldrar okkar við Stórólfshvolsbúinu sem stóð á túninu rétt fyrir neðan læknisbústaðinn og Stórólfshvolskirkju. Foreldrar okkar byrjuðu á að byggja upp útihúsin, svo sem fjárhús og hlöðu, og var Ingi einstaklega kappsamur við þessar byggingarframkvæmdir allar, auk þess sem hann hjálpaði mikið til við búskapinn öll sín unglingsár og alveg fram til þess er hann sneri sér að bílum. Hann var ómetanleg hjálparhella foreldra okkar á þessum tímum.

Ingi var mikill bílaáhugamaður alla tíð. Hann tók meirapróf bifreiðastjóra og hóf akstur vöruflutningabifreiða hjá Kaupfélagi Rangæinga. Þá atvinnu stundaði hann í áratugi og þótti ákaflega vinsæll og farsæll bifreiðastjóri. Því næst tók hann við starfi rekstrarstjóra bensínstöðvar KR sem var bæði bensínstöð og söluskáli. Hann starfaði síðar sem sölumaður hjá Olíufélaginu ESSO. Ingi aflaði sér réttinda sem rútubílstjóri og ók í nokkur sumur rútubifreið og þá helst svokallaða Syðri Fjallabaksleið og átti það vel við hann, hann elskaði að ferðast um fjöll og firnindi og þekkti landið sitt vel. Á áttræðisaldri réð hann sig til Kynnisferða og ók fyrir þá alveg fram til ársins 2020 er lokabaráttan tók við. Fékk hann mikið hrós fyrir lipurð í akstri og samskipti við farþega.

Meðfram sinni föstu vinnu byrjaði Ingi ungur að starfa sem héraðslögreglumaður svo og að keyra sjúkrabíl. Í þessu starfi var hann einstaklega vel liðinn enda átti hann gott með að umgangast fólk við hinar ýmsu aðstæður.

Ingi varð snemma kátur og fjörugur strákur og góður bróðir. Ingi var líka hjálpsamur bróðir, það var alveg sama í hverju við systkinin stóðum, alltaf rétti Ingi fram höndina og var tilbúinn til að hjálpa.

Ingi var stríðinn en líka grínfullur og skemmtilegur þó stundum léti hann til sín taka í fjölmiðlaumræðum og gat þá verið nokkur stórorður. Oft sá hann nú eftir þessum atgangi sínum því hann var aldrei lengi reiður.

Ingi átti sér lokadraum og það var að þrauka fram á sumar og kaupa sé nýjan jeppa því hann ætlaði að fara eina ferð enn upp um fjöll og firnindi. Ferðin verður nú önnur og lengri.

Við bræðurnir bjuggum í nokkur ár í húsum hlið við hlið og var mikill samgangur á milli heimilanna og urðu börnin okkar sem þá voru ung, miklir vinir. Börnum okkar allra var hann góður frændi og vinur.

Um leið og við biðjum elskulegum bróður okkar blessunar Guðs, látum við fylgja lokaerindi úr sálmi skáldsins Einars Benediktssonar:

Af eilífðarljósi bjarma ber,

sem brautina þungu greiðir.

Vort líf, sem svo stutt og stopult er,

það stefnir á æðri leiðir.

Og upphiminn fegri en auga sér

mót öllum oss faðminn breiðir.

Biðjum góðan guð að styrkja og styðja börnin hans og fjölskyldur þeirra.

Rúnar, Hanna og Margrét.

Þegar ég hef útskýrt fyrir fólki sem þekkir til í Rangárvallasýslu hvernig ég er ættaður þaðan hef ég með stolti sagst vera systursonur Inga Guðjóns og hann þekktu allir. Ingi var alltaf þessi sterka tenging mín við Hvolsvöll og þegar við mamma fórum í bíltúr austur þá var það fyrst og fremst til að hitta hann Inga þó að heimsókn í kirkjugarðinn til ömmu og afa væri alltaf á dagskrá líka.

Þegar ég stálpaðist fór ég einnig að taka rútuna til hans Inga frænda og dvelja hjá honum í nokkra daga og voru það alltaf skemmtilegar ferðir. Af Inga lærði maður margt til dæmis að spikið af hrossakjöti væri best og að maður ætti eingöngu að ýta og aldrei að draga sláttuvél en Ingi á stóran þátt í hugmyndum mínum um fyrirmyndir í lífinu. Helst ber að nefna hversu vinnusamur hann var þó í dag myndi slík vinnusemi líklega teljast óhófleg. Til dæmis hvernig hann rak bensínstöðina á Hvolsvelli og dældi á í öllum veðrum þó hann væri sárþjáður af sárum í lófunum sem gréru ekki vegna vinnu.

Ingi komst líka langt á því að vera skemmtilegur og hress við alla. Þegar maður keyrði um sveitina með honum þá veifaði hann öllum bílum sem hann mætti og yfirleitt stóð ekki á svörum þegar maður spurði hver þetta hafi verið. Stundum kom þó fyrir að hann vissi það ekki, hafði veifað bara til þess að vera viss um að aka ekki fram hjá einhverjum sem hann þekkti án þess að veifa.

Einnig er ekki hægt að minnast Inga frænda án þess að nefna aksturshæfileika hans en hann var náttúrlega besti bílstjórinn. Til að mynda fórum við mamma með honum í eftirminnilega ferð inn á Lónsöræfi og þó vatnið í Jökulsá hafi náð upp að rúðum á jeppanum á leið þar yfir hvarflaði ekki að manni að verða hræddur, maður vissi og fann að Ingi var með fulla stjórn á aðstæðum.

Nú er hann Ingi kominn í hóp þeirra sem vaka yfir, á góðan stað þar sem ég er viss um að hann fái lambakótelettur eða feitt hrossakjöt eins og hann lystir. Hvíldu í friði, elsku Ingi frændi.

Ísleifur Orri Arnarson.