Vegur Tenging úr efri byggðum Kópavogs við Breiðholtið. Samgöngubót sem beðið er eftir.
Vegur Tenging úr efri byggðum Kópavogs við Breiðholtið. Samgöngubót sem beðið er eftir. — Tölvuteikning/Vegagerðin
Vegagerðin, í samvinnu við Reykjavíkurborg, Kópavog og Veitur, mun á næstunni bjóða út framkvæmdir við lokaáfanga Arnarnesvegar sem mun liggja frá gatnamótum Arnarnesvegar og Rjúpnavegar í Kópavogi að Breiðholtsbraut Reykjavík.

Vegagerðin, í samvinnu við Reykjavíkurborg, Kópavog og Veitur, mun á næstunni bjóða út framkvæmdir við lokaáfanga Arnarnesvegar sem mun liggja frá gatnamótum Arnarnesvegar og Rjúpnavegar í Kópavogi að Breiðholtsbraut Reykjavík. Framkvæmd þessi hefur verið lengi á dagskrá og skipulagi og Arnarnesvegur hefur jafnan verið ein helsta forsenda uppbyggingar í efri hverfum Kópavogs. Einnig verður Breiðholtsbraut endurbyggð, að mestu leyti, á milli Jaðarsels og Elliðaáa. Áætlað er að hefja framkvæmdir í haust, að því tilskildu að búið verði að afgreiða deiliskipulag og framkvæmdaleyfi sveitarfélaga liggi fyrir.

Arnarnesvegur mun létta verulega á umferð um Vatnsendaveg en í Kópavogi, austan og ofan Reykjanesbrautar, búa hátt í 15.000 manns. Með þessu eykst öryggi vegfarenda og ferðatími styttist. Þá mun vegurinn bæta viðbragðstíma slökkviliðs, lögreglu og annarra slíkra.

Kaflinn milli Rjúpnavegar og Breiðholtsbrautar verður um 1,3 km að lengd. Framkvæmdin er hluti af sáttmála milli sveitarfélaga og ríkisins um uppbyggingu á samgönguinnviðum víða á höfuðborgarsvæðinu. Margt er í pakkanum, en fyrrgreint verkefni er eitt af þeim stærri sem hrint er í framkvæmd. sbs@mbl.is