Fréttamenn Á fréttastofufundi með Emil Björnssyni útvarpsstjóra. Frá vinstri: Eygló Gunnarsdóttir, Ómar Ragnarsson, Helgi E. Helgason, Ögmundur Jónasson og Sigmundur Arthúrsson.
Fréttamenn Á fréttastofufundi með Emil Björnssyni útvarpsstjóra. Frá vinstri: Eygló Gunnarsdóttir, Ómar Ragnarsson, Helgi E. Helgason, Ögmundur Jónasson og Sigmundur Arthúrsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókarkafli Í bókinni Rauði þráðurinn rekur Ögmundur Jónasson sögu sína. Þar greinir hann meðal annars frá starfi sínu hjá Ríkisútvarpinu á áttunda og níunda áratugnum og því fólki sem hann kynntist þar.

Og þá kom Ingvi Hrafn

Ingvi Hrafn Jónsson, hinn nýi fréttastjóri á Sjónvarpinu eftir daga Emils Björnssonar, smellpassaði inn í þann heim sem nú tók að líta dagsins ljós, heim hraðans þar sem höfuðáhersla var lögð á yfirbragð og útlit fremur en innihald. Ekki svo að skilja að Ingvi Hrafn vildi ekki vera með fréttirnar, það vildi hann svo sannarlega, en þá kannski krassandi fréttir sem hann væri fyrstur með.

Sumt af því sem Ingvi Hrafn gerði varð tvímælalaust til að bæta áferð fréttanna en alltaf hætti honum þó til að fara offari. Það var reyndar spaugilegt þegar hann í hlutverki nýs fréttastjóra tók að kenna ráðsettum og virðulegum veðurfræðingum að vera hraðir og töff. Það var ekki auðvelt en þetta tókst honum.

Helst vildi hann yngja fréttastofuna upp og þá aðallega kvenfólkið. Einhver vandaðasti fréttamaður fréttastofunnar var Margrét Heinreksdóttir, eldklár og fagmaður fram í fingurgóma. Hún hafði verið samtíða Ingva Hrafni á Morgunblaðinu um skeið og þekktust þau því vel. Magga, hvað ertu annars orðin gömul? spurði Ingvi Hrafn Margréti á fyrstu dögum sínum í starfi fréttastjóra. Það er svo undarlegt, svaraði Margrét, með ískulda, að frá því við vorum samtíða á Morgunblaðinu höfum við elst með nákvæmlega sama hraða, ég og þú.

Lengri varð sú samræða ekki. Ingvi Hrafn hafði hitt fyrir ofjarl sinn.

Ég hef einfaldan smekk

Ein svakalegasta hugmynd nýja fréttastjórans var sú að fá fataverslun til að sjá okkur fréttamönnunum fyrir fatnaði en fyrir bragðið fengi verslunin óbeina auglýsingu. Þessu mótmæltu fréttamenn nánast einum rómi. Páll Magnússon, síðar útvarpsstjóri og alþingismaður, afbragðs fréttamaður og frábær lesari, hafði að vísu lækkað siðferðismúrinn að þessu leyti með því að auglýsa með eigin rödd fyrir verslun Sævars Karls: Ég hef einfaldan smekk, ég vel aðeins það besta, og skartaði síðan klæðnaði frá Sævari Karli í fréttatímum. Hinum nýja fréttastjóra þótti þetta augljóslega frábær hugkvæmni og fordæmi sem bæri að fylgja. Við sáum til þess að af því varð aldrei.

Alltaf ósammála

Sjálfur gat ég ekki kvartað yfir nýjum stjórnanda fréttastofunnar, við höfðum starfað saman reglulega í sjónvarpsþáttum þar sem ég sá um erlenda hlutann, hann hinn innlenda. Alltaf vorum við ósammála um efnisval hvor annars og efnistök. En að því gátum við hlegið saman. Eitt tókst Ingva Hrafni þó aldrei þótt hann reyndi mikið, nefnilega að gera mig léttan og skemmtilegan. Honum fannst að í upphafi þátta ættum við að grínast og gantast, helst taka bakföll af hlátri áður en við tækjumst slakir á við viðfangsefnin. Mín nálgun var allt önnur, taldi að menn vildu einfaldlega fá fréttir af stríðinu á milli Írans og Íraks og uppsetningu meðaldrægra kjarnaflauga í Evrópu, alveg óháð minni persónu. Ég sagði við Ingva að hann skyldi vera skemmtilegur en hann yrði að gera mig sér að góðu þótt þungbrýnni væri. Að öllu þessu hentum við svo gaman okkar á milli og aldrei var illt á milli okkar.

Það var meira að segja svo að Ingvi Hrafn vildi gjarnan hafa mig sér við hlið þegar á reyndi, svo sem þegar leiðtogafundur þeirra Reagans og Gorbatsjovs var haldinn á Íslandi haustið 1986. Þá sýndi Ingvi reyndar hvað í honum bjó. Og það var gríðarlegur kraftur sem í bland við dómgreindarskort gerði hann nánast ósigrandi. Hvers vegna dómgreindarskort? Dómgreindin býður að menn meti hvað sé gerlegt og hvað ekki; varfærinn og yfirvegaður maður hefði aldrei látið sig dreyma um að reyna það sem Ingvi Hrafn ekki aðeins reyndi heldur framkvæmdi. Hann hreinlega viðurkenndi engar hömlur. Og komst upp með það.

Ömmi, bjóddu Gorba velkominn á rússnesku, æpti hann í eyrað á mér þegar ég tók á móti Gorbatsjov í beinni útsendingu á Keflavíkurflugvelli 10. október 1986 við upphaf leiðtogafundarins í Reykjavík. Ég hafði þá sem lesari fréttanna oft gantast með uppgerðar rússneskutal rétt áður en opnað var fyrir útsendingu þannig að skeikaði sekúndubroti. Allir vissu að þetta var grín en nú vildi fréttastjórinn alvöru rússnesku, sem ég kunni ekki stakt orð í. [...]

Kommúnisti stýri ekki þætti um NATÓ!

En þótt samstarf okkar Ingva Hrafns væri með ágætum þá var það nánast vopnaður friður. Ég áttaði mig á því þegar halda átti leiðtogafund NATÓ á Íslandi og Sjónvarpið ætlaði sér stóra hluti með myndarlegum þætti. Ingvi Hrafn hafði beðið Boga að stýra þættinum. Svo veikist Bogi. Er þá fátt um fína drætti aðra en kollegann Ögmund Jónasson. Það þótti Ingva Hrafni óbærileg tilhugsun. Ég gleymi því ekki þegar hann kallaði mig til sín og sagði að hann gæti ekki verið þekktur fyrir að fá kommúnista til að stýra þætti um NATÓ.

Gat ég hafa heyrt rétt? Svona vantrausti hafði ég aldrei kynnst. Meira að segja Hannes Hólmsteinn og félagar höfðu iðulega beðið mig um að taka viðtöl við pólitíska trúboða sem þeir höfðu flutt til landsins, einfaldlega vegna þess að þeir vissu að ég myndi vanda mig og umgangast skoðanir þeirra af óhlutdrægni þótt ég væri þeim ósammála. Nú vissi ég hins vegar að draumur minn um að framtíð sem óbreyttur fréttamaður í erlendum fréttum, þáttagerðarmaður en jafnframt aktívisti í þjóðfélaginu, myndi aldrei geta gengið upp.

Ábyrgð veitir vald

Þarna mættust sem sagt stálin stinn og enn átti eftir að koma í ljós hve við vorum báðir meðvitaðir um mikilvægi valdsins, hve miklu máli það skipti hver réði. Einhverju sinni hafði ég gert fréttaauka um svívirðilega framgöngu Kóka kóla fyrirtækisins í verksmiðjum sínum í Mið-Ameríkuríkinu Guatemala. Ég dró hvergi af mér í frásögn af framferði Kóka kóla, fann teikningar sem sýndu gálga sem stóð upp úr kókflösku en í honum hafði maður verið hengdur. Sjálfur birtist ég á skjánum með blóðsprengdan kóktappa í bakgrunni. Vífilfelli, framleiðanda kók, var ekki skemmt; höfðu forsvarsmenn fyrirtækisins samband við Pétur Guðfinnsson sjónvarpsstjóra, vildu hitta hann að máli til að kynna honum áform um málssókn.

Hafðu ekki áhyggjur af þessu, sagði Ingvi Hrafn við mig, ég tek þetta á mig. Það sagðist ég ekki vilja, vildi sjálfur hitta þessa menn og ef einhvern ætti að lögsækja þá væri það ég enda hefði ég gert fréttina og væri því ábyrgur. Aldrei varð úr lögsókn en báðir skildum við, fréttastjórinn og ég, að hér var tekist á um völd. Fréttastjóri sem dreginn væri fyrir dóm vegna fréttar sem annar hefði skrifað hefði síðar getað komið til viðkomandi fréttamanns og sagt honum hvað hann mætti og hvað ekki, enda bæri hann ábyrgðina þegar til kastanna kæmi.

Vinur til varnar

Innan Ríkisútvarpsins hafði mér alltaf verið treyst, jafnvel þótt ég fengi yfir mig miklar dembur í blöðum af og til. Lengi vel var það líka þannig að alltaf þegar ég hafði lokið við að flytja eigin fréttaauka í fréttum beið einhver eftir mér í símanum til að skammast. Maður innarlega í koppabúri Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma sagði mér síðar að þetta hefði verið skipulagt. Svo rammt kvað að þessu að fréttamenn útvarps og sjónvarps beindu því til stjórnar Blaðamannafélagsins að kanna þær skipulegu árásir sem fram komu í minn garð undir nafnleynd. Þegar þessi hamagangur var mestur var einn maður sem reis upp mér til varnar. Það var Pétur J. Eiríksson, vinur minn frá Edinborgarárunum, einarður sjálfstæðismaður. Hann var rísandi stjarna í atvinnulífi og þess vegna pólitík ef hugur hans hefði staðið til þess. Pétur skrifaði grein mér til stuðnings í Vísi, sagði að menn skyldu dæma mig af verkum mínum, þau stæðust stranga skoðun. Á þessum tíma kostaði þetta meira sjálfstæði og hugrekki en væri raunin núna. Svo mikið hafa tímarnir breyst. En þessu drengskaparbragði hef ég aldrei gleymt.

Vængstýfðir fréttamenn

Við fréttamenn Ríkisútvarpsins ræddum það í okkar hópi á þessum tíma hvort réttlætanlegt væri að fréttamenn væru skráðir í stjórnmálaflokka, jafnvel þótt þeir færu ekki hátt með flokkspólitískan stuðning sinn. Ég var mjög eindregið á þeirri skoðun að hver og einn skyldi gera það upp við sig hvernig hann eða hún vildi hafa þetta. Ég væri til dæmis ekki skráður í stjórnmálaflokk, gerði það mig ópólitískari en þann sem skráður væri í flokk? Að sjálfsögðu ekki. Ég hef grun um að allir hafi getað tekið undir það.

Nú er búið að vængstýfa fréttamenn Ríkisútvarpsins í þeirri viðleitni að gera þá ófleyga um félagsflóru samfélagsins, mega hvergi vera við félagssamtök kenndir. Ekki er þar með sagt að stéttin sé orðin fordómalausari en eflaust verður hún meðfærilegri fyrir vikið.

Á haustdögum 1986, strax eftir leiðtogafund þeirra Gorbatsjovs og Reagans í Reykjavík, hélt ég til Kaupmannahafnar sem áður segir, til tveggja ára dvalar sem fréttaritari Sjónvarpsins á Norðurlöndum. Þetta var skemmtilegur tími. Ég ferðaðist víða, gerði marga þætti, þrjátíu talsins þegar upp var staðið og hefði helst viljað gera enn meira.

Um haustið 1988 lauk þessu fréttaritaraskeiði mínu á Norðurlöndunum og tími til að halda heim.

Ég hafði ákveðið að sækja um stöðu fréttastjóra Sjónvarpsins sem þá hafði losnað. Ég fann fyrir miklum velvilja og stuðningi frá starfsmönnum Sjónvarpsins og innra með mér var sú taug sterk að helga starfslíf mitt fréttamennsku. Í rauninni fannst mér um tvo gerólíka kosti að ræða þegar hér var komið sögu, frétta- og rannsóknarstörf eða störf á félagspólitískum vettvangi.

Ég ákvað að láta slag standa og sækja um. Á meðal umsækjenda voru Helgi H. Jónsson, Sigrún Stefánsdóttir og Bogi Ágústsson.

Þegar á hólminn kom höfðu mér borist um það fréttir að þáverandi stjórnendur Ríkisútvarpsins og útvarpsráð myndu aldrei geta sætt sig við mig í stóli fréttastjóra og Bogi Ágústsson sýndi mér þann drengskap að segja mér augliti til auglitis þegar hann átti leið til Kaupmannahafnar um haustið, að hann hefði verið beðinn um að sækja um starfið. Sú varð og niðurstaðan að Bogi var ráðinn - og ágætlega að því kominn. Ég var hins vegar sáttur við velviljann sem ég hafði fundið fyrir hjá starfsfélögum og stoltur af stuðningi Bríetar Héðinsdóttur í útvarpsráði.