Heiðlóan Vorboðinn ljúfi segja margir og meina það innilega.
Heiðlóan Vorboðinn ljúfi segja margir og meina það innilega. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Rétt eins og dagatalið býður er nú farið að sjást til farfugla á landinu og hjá Fuglaathugunarstöð Suðausturlands á Höfn í Hornafirði er fylgst grannt með þróun mála.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Rétt eins og dagatalið býður er nú farið að sjást til farfugla á landinu og hjá Fuglaathugunarstöð Suðausturlands á Höfn í Hornafirði er fylgst grannt með þróun mála. Eystra sást til dæmis á miðvikudag til skúma, en segja má að sú tegund sé einkennisfugl sandanna miklu á Vatnajökulssvæðinu. Þar verpir líka stærstur hluti stofnsins, sem er úthafsstofn og heldur sig utan varptíma víða um norðanvert Atlantshaf.

Nokkrar álftir hafa sést við Hornafjörð að undanförnu, endur og grágæsir. Einnig skógarþrestir, segir Brynjúlfur Brynólfsson, fuglaathugunarmaður á Höfn.

Stóra spurningin um komu farfugla er þó alltaf sú hvenær heiðlóa komi, með sínu undurblíða dirrindíi, sem er sígilt yrkisefni skálda, myndasmiða og fleiri slíkra. Brynjólfur veðjar á að fyrstu lóurnar gætu komið til landsins dagana 25.-28. mars. Slíkt væru þá stakir fuglar, en svo í annarri viku aprílmánaðar megi hins vegar búast við að hraðfleyg lóan flykkist að Íslandsströndum frá vetrarstöðvum sínum sem eru á Írlandi, í Frakklandi, á Spáni, í Portúgal og Marokkó.