Stríðið í Úkraínu á sér margar hliðar, og fáar sem ekki eru ógeðfelldar

Stríð er einhver mesti hryllingur sem fólk getur lent í. Erfitt er að ímynda sér nokkuð sem jafnast á við það fyrir fjölskyldur að vera skyndilega lentar í miðju stríði með sprengingar, skothríð, særða og fallna allt um kring. Enginn vill upplifa slíkar hörmungar, síst af öllu með börnum sínum, sem skýrir að hátt í þrjár milljónir af rúmum 43 milljónum Úkraínumanna hafa nú þegar flúið land og leitað skjóls hjá nágrönnum í Evrópu.

Í þessu birtist líka sú einfalda mynd sem stríðið dregur upp. Hörmungarnar eru yfirþyrmandi. Mannvonskan sem verður til þess að farið er án tilefnis með hernaði gegn nágrönnum, almennum borgurum ekki síst, er yfirgengileg. En þrátt fyrir þessar einföldu hliðar stríðsins er það allt annað en einfalt og afleiðingar þess afar óvissar. Og viðbrögðin við því eru sömuleiðis allt annað en einföld.

Flóttamannastraumurinn sem nú berst frá Úkraínu er dæmi um viðfangsefni sem ekki er einfalt eða auðvelt að fást við. Allir vilja að úkraínska flóttafólkinu verði komið í skjól, en hver ætlar að gera hvað? Fraser Nelson, ritstjóri tímaritsins The Spectator , hefur skrifað um flóttamannavandann og viðbrögð Breta við honum. Hann telur stjórnvöld þar í landi hafa dregið lappirnar í þessum efnum og að þrátt fyrir að gripið hafi verið til sérstakra ráðstafana með því um helgina að gera Michael Gove að yfirmanni þessara mála, þá sé úkraínskum flóttamönnum enn gert erfiðara fyrir að komast til Bretlands en til margra annarra Evrópulanda. Þetta þykir honum miður en segir þetta staðreynd þrátt fyrir að Boris Johnson forsætisráðherra hafi sagt að Bretar myndu gera allt sem hægt væri til hjálpar.

En það sem Nelson nefnir og er umhugsunarvert er að hann segir það skjóta skökku við að Bretar séu ekki opnari fyrir því að taka við úkraínskum flóttamönnum þegar þeir hafi verið fremstir í flokki að senda vopn til Úkraínu og hjálpa hernum þar að halda uppi baráttunni.

Nelson var einnig í hlaðvarpi tímaritsins um helgina og vék þar að öðru atriði sem er allt annað en einfalt, sem eru sumar þær aðgerðir sem gripið hefur verið til vegna stríðsins. Hann nefndi aðgerðir gegn einstaklingum frá Rússlandi sem hafa mátt sæta efnahagslegum refsiaðgerðum, jafnvel eignaupptöku eða frystingu eigna, án þess að slíkar ákvarðanir séu rökstuddar með þeim hætti sem við eigum að venjast í réttarríki. Aðgerðirnar gegn ólígörkunum sem taldir eru hafa efnast í skjóli Pútíns forseta eru skiljanlegar en það er ekki líklegt að þær skili miklum árangri. Og fyrir réttarríki sem ekki eiga í stríði við Rússland eru þessar aðgerðir í það minnsta umhugsunarverðar.

Og þarna bætist ein flækjan við. Vesturlönd eiga ekki í stríði við Rússland, en hafa samt lagt á það efnahagslegar þvinganir og sent vopn til Úkraínu til að freista þess að hindra að Pútín takist að sigra. Þessi óbeina þátttaka í átökunum er allt annað en einfalt mál. Ef til vill er þetta besta leiðin til að takast á við innrásina og reyna að koma í veg fyrir að Pútín geti vaðið yfir nágranna sína, því að hver veit hvar hann stoppar ef hann nær Úkraínu með tiltölulega auðveldum hætti?

Ef til vill er þetta hreinlega eina leiðin til að takast á við Pútín, en þetta er nýr veruleiki með flækjum sem Vesturlönd hafa ekki áður þurft að takast á við.

Það skiptir máli þegar vestræn lýðræðis- og réttarríki takast á við ofbeldi ríkja sem gera minna með þau réttindi sem við teljum sjálfsögð, að gleyma því ekki fyrir hvað vestræn ríki standa. Vissulega þarf að bregðast hratt við, bjarga mannslífum og afstýra stórslysum og þá er oft ekki tími til að gera annað en grípa til aðgerða tafarlaust. Það breytir því ekki að á sama tíma þarf að gera þá kröfu að hugað sé að grunngildum því að stríðinu mun ljúka og þá er ekki gott ef í ljós kemur að einhverjar af grunnstoðum þjóðfélaga Vesturlanda hafi orðið meðal fórnarlambanna.

Vesturlönd þurfa alltaf að senda skýr skilaboð og sýna styrk, enda eru þá minni líkur á að honum þurfi að beita. Á síðustu árum hefur vantað mikið upp á að skilaboðin hafi verið með þessum hætti. Það er eflaust hluti skýringarinnar á því hvernig komið er og miðað við þær flækjur sem upp eru komnar og þá stöðu sem Pútín er búinn að koma sjálfum sér og heiminum í, þá er því miður allt útlit fyrir að langur tími þurfi að líða og miklar hörmungar að ganga yfir áður en úr greiðist.